Mengun minnkar við minni bílhraða

Ljóst þykir að mengun minnki sé dregið úr bílhraða.
Ljóst þykir að mengun minnki sé dregið úr bílhraða.

Lækkun hámarkshraða á vegum í Wales hefur dregið úr mengun og losun niturdíoxíðs í útblæstri bíla.

Hámarkshraði á svæðum með þungri umferð var lækkaður niður í 80 km/klst. Á það meðal annars við um M4-hraðbrautina við bæina Port Talbot og Newport, auk þrjú önnur svæði.   

Gripið var til þessara ráða fyrir ári til að gera heimastjórn  Wales kleift að standast lög og reglur Evrópusambqandsins (ESB) um loftgæði. Knúði héraðsdómstóll á um breytingarnar með því að dæma heimastjórnina til verksins.

Hraðamyndavélar voru líka settar upp á A470-veginum við Upper Boat nærri Pontypridd, A483-veginum við Wrexham og A494-veginum í Deeside. Þykir árangur af þeim það góður, að hraðalækkunin mun áfram verða í gildi, eða þar til magn niturdíoxíðs verður komið undir leyfilegt hámark.

„Það er lífsnauðsynlegt að við höldum áfram að draga úr bílmengun til að forða fólki frá heilsufarslegri hættu,“ sagði Ken Skates, samgönguráðherra Wales, við BBC-stöðina, eftir útkomu skýrslu sem staðfestir jákvæðan árangur af hraðalækkuninni. „Ég ætla mér að vona að flestir bílstjórar séu því sammála að það varði meiru að forða fólki frá sjúkdómum eða meiðslum og jafnvel dauða en að stytta ferðatíma sinn um eina mínútu eða tvær.“

Talsmaður breska bíleigendafélagsins AA sagði það almennt þekkt, að lægri hraðamörk dragi úr mengun „þar sem minna eldsneyti væri notað“ á lægri hraða.

mbl.is