Dekk sem láta ekkert stöðva sig

August við stæðu af dekkjum. Ólíkar aðstæður kalla á ólík …
August við stæðu af dekkjum. Ólíkar aðstæður kalla á ólík dekk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

August Håkansson, einn eigenda Icetrack ehf. (MTdekk.is), veit það vel að sums staðar á landinu dugar ekkert minna en að vera á breyttum jeppa með risastórum dekkjum. Icetrack sérhæfir sig í innflutningi dekkja frá bandaríska framleiðandanum Mickey Thompson og býður upp á dekk í stærðarflokkum frá 32 upp í 54 tommur.

„Þar sem vetrarþjónusta á vegum er takmörkuð og ófærð daglegt brauð er upphækkaður jeppi einfaldlega nauðsynlegt samgöngutæki, og aðstæður allt aðrar en fólk á höfuðborgarsvæðinu á að venjast. Á dreifbýlisvegunum þarf bæði volduga bíla og negld dekk til að komast greiðlega á milli staða,“ útskýrir hann. „En svo höfum við annan hóp, sem býr jafnt í þéttbýli og dreifbýli, og hefur gaman af ævintýrum á fjöllum þegar þykkt lag af snjó er yfir landinu. Þeir viðskiptavinir eru einkum að sækjast eftir dekkjum með grófu mynstri sem grípur vel og vilja hafa sem mest gúmmi á sem minnstum felgum til að auka flotið í snjó.“

Jeppamenning á undanhaldi

Markaðurinn fyrir stærstu dekkin hefur verið að breytast og segir August að í dag séu það einkum ferðaþjónustufyrirtækin sem eru dugleg að versla við Icetrack. Ferðamennirnir vilja jú fá að aka upp á jökla og langt upp á hálendið á sérútbúnum bílum og til þess dugi engin venjuleg dekk. „Á meðan ferðaþjónustan hefur vaxið hefur dregið úr kaupum einstaklinga á mikið breyttum jeppum. Má skýra það með því að vinsælar jeppategundir á borð við Nissan Patrol og Isuzu Trooper, sem mátti fá á hagstæðum kjörum, hurfu af markaðinum m.a. vegna strangari mengunarreglna.“

Eftir stendur að þegar aðstæður á vegum eru með versta móti er allt annað líf að vera á háum jeppa með stórum og vönduðum dekkjum. „Það berst óneitanlega meira veghljóð frá dekkjunum og ferðin ekki eins mjúk og hún gæti verið á minni og fínni dekkjum, auk þess að gúmmíið getur eyðst hraðar upp á auðu malbiki,“ upplýsir August.

Segir hann að gæði dekkjanna aukist ár frá ári og þótt kaupendur gæti þess að skipta um dekk á meðan gripið er ennþá gott geti liðið langur tími á milli heimsókna. „Endingin í dag er orðin hreint ótrúlega góð, miðað við það sem fólk átti áður að venjast, og helsti gallinn við það er hvað við fáum sjaldan að sjá viðskiptavini okkar í dekkjaversluninni – þótt þeir komi auðvitað alltaf á endanum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: