Nafnahefð með skýrar reglur en nokkrar undantekningar

BMW M8 er náskyldur M850i, en þó allt önnur skepna.
BMW M8 er náskyldur M850i, en þó allt önnur skepna.

Bílaframleiðendur hafa ólíkan hátt á því að gefa bílum nafn. Hjá BMW er farið eftir nokkuð flóknum verkfræðilegum reglum.

Hörðustu aðdáendur BMW voru ekki lengi að koma auga á villu í reynsluakstursgrein í síðasta Bílablaði Morgunblaðsins. Þar var fjallað um blæjubílinn vígalega, M850i xDrive Cabrio og mistökin fólust í því að hér og þar í greininni var látið duga að vísa til bílsins einfaldlega sem M8.

Þeim sem ekki þekkja nafnahefð þýska bílaframleiðandans kann að þykja þetta skrítið, en þó að M8 og M850i líti svipað út bæði að innan og utan, þá er mikill munur á bílunum þegar kemur að krafti og ýmsu innvolsi.

Um leið og lesendur eru beðnir afsökunar á þessari ónákvæmni er ágætt að rifja upp hvaða upplýsingar má lesa út úr nafni BMW-bifreiðar.

Tölur, bókstafir, forskeyti og viðskeyti

Fyrst byrjar BMW á að flokka bíla sína eftir grunngerðum. Smábílar, stallbakar og hlaðbakar eru auðkenndir með tölu, frá 2 upp í 8. Sportjepparnir fá forskeytið X, og svo tölu frá 1 til 7, en Z auðkennir tveggja sæta sportbílar, og er í augnablikinu aðeins einn í boði: Z4.

Svo er bókstafurinn M notaður til að auðkenna kraftmeiri útgáfur af hverri grunngerð, en lítið „i“ sem forskeyti notað til að gefa til kynna ef um er að ræða rafmagns- eða tengiltvinnbíl.

Á eftir númerinu sem auðkennir grunngerð bílsins geta svo fylgt tölur sem áður gáfu til kynna vélarstærðina, í lítrum, en vísa núna lauslega til þess hve mikinn kraft vélin framleiðir. Fyrsti bókstafurinn á eftir talnarununni gefur til kynna hvers konar eldsneyti bíllinn notar. Stendur þá „i“ fyrir bensín en „d“ fyrir dísil. Þetta breyttist þó með tvinn-aflrásum, sem BMW auðkennir með heitinu ActiveHybrid.

Ef drif er á tveimur hjólum fær bíll viðskeytið sDrive, en xDrive ef drifið nær til allra fjögurra hjóla.

Sumar gerðir BMW-bifreiða eru fáanlegar í sérstökum útfærslum, s.s Luxury Line sem eru með fínna stýri og innréttingu, og Sport Line sem kemur iðulega með sportsætum, sportstýri og sportfelgum. M Sport Line bætir við sport-aukahlutum, m.a. vindskeiðum, og oft að með þeim pakka fylgir að geta valið fleiri liti á bílinn.

Þá er hægt að auðkenna bílana enn frekar, s.s með „Gran Coupe“ sem er fjögurra dyra útfærsla af kúpubak, L fyrir lengdar útgáfur og C fyrir blæjubíla (en áður fyrir kúpubaka). Mætti fara dýpra í nafnareglurnar, en það verður látið bíða betri tíma.

Hver er svo munurinn á M8 og M850i. Sá síðarnefndi er vissulega kraftmeiri útgáfa af grunngerð BMW 8, með öfluga vél og sportlegt útlit. M8 er hins vegar afsprengi sportbíladeildar BMW og mætti kalla keppnisbíl sem búið er að hemja ögn svo að löglegt sé að aka honum á vegum. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »