Vinnubíll sem getur verið fjallabíll á frídögum

„Það er vandséð að iðnaðarmenn séu að tapa neinu á …
„Það er vandséð að iðnaðarmenn séu að tapa neinu á því að skipta úr sendibíl yfir í pallbíl,“ segir Guðmundur Snær Guðmundsson. mbl.is/​Hari

Nýr japanskur vinnuþjarkur var að lenda, til þjónustu reiðubúinn. Er óhætt að segja að margir hafi beðið spenntir eftir komu Mitsubishi L200, sem frumsýndur var um fyrri helgi, enda pallbíll sem á sér langa sögu og ófáa aðdáendur.

„Með komu sjöttu kynslóðar fagnar Mitsubishi um leið 40 ára afmæli L200,“ segir Guðmundur Snær Guðmundsson, söluráðgjafi hjá Heklu. „Hann hóf göngu sína sem þægilegur vinnubíll, sniðinn að þörfum þeirra sem þurfa að flytja vörur, verkfæri og efni á milli staða, en hefur smám saman þróast út í að vera einnig „lífsstílsbíll“ fyrir fjölbreyttan kaupendahóp og hefur til dæmis hestafólk, veiðimenn og skíðaiðkendur komið auga á notagildið sem L200 veitir þeim.“

Þá kom fljótlega í ljós að L200 fellur vel að íslenskum aðstæðum og ekki er flókið að breyta þessum bílum og gera þá að nokkurs konar pallbíls-jeppum. „Við höfum gert mikið af því að hækka þá aðeins upp og setja á allt að 33 tommu dekk. Þetta er hófleg breyting og þýðir að L200 ræður við meira krefjandi aðstæður, þótt hann komist ekki endilega hvert á land sem er.“

Guðmundur segir að svo virðist sem að pallbílamenningin á Íslandi lendi nokkurn veginn miðja vegu á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Á sumum stöðum vestanhafs eru pallbílar algeng sjón en þeir eru vandfundnir í Evrópu. Á Íslandi eru pallbílar í kringum 5% af öllum nýjum seldum bílum. „Þar af áætla ég að um tveir af hverjum þremur séu keyptir sem vinnubílar,“ útskýrir hann en pallurinn getur borið um það bil eitt tonn og þá er dráttargeta L200 yfir þremur tonnum. „L200 er hæfilega nettur og ekki svo stór að vandasamt sé að aka honum innanbæjar. Þá hjálpar við söluna að Mitsubishi hefur á þessum 40 árum skapað sér orðspor fyrir að smíða trausta og vandaða bíla.“

Heimilisbíll að framan en vinnubíll að aftan

Íslenskir verktakar virðast gjarnir á að velja litla sendibíla fram yfir pallbíla en Guðmundur segir æ fleiri kveikja á perunni með hvað pallbílar geta verið sniðugur og fjölhæfur kostur. „Það sem fyrst ætti að nefna er að pallbíllinn hentar betur til alls kyns annarra nota fyrir heimilið og á bíl eins og L200 er til dæmis hægt að halda af stað strax eftir vinnu í veiðiferð eða upp í hesthús. L200 er með rúmgott farþegarými og sæti fyrir fimm og hentar framhlutinn því vel sem fjölskyldubíll á meðan pallurinn er alltaf til taks undir tól og tæki. Það getur verið viss sparnaður fólginn í því að eiga einn bíl sem getur þannig gegnt mörgum hlutverkum, frekar en að eiga annars vegar vinnubíl og hins vegar bíl fyrir fjölskyldu og tómstundir.“

En er ekki aðgengið betra í sendibílum? Guðmundur segir aðgengi ekki þurfa að vera vandamál og framleiðendur gæti þess vandlega að pallbílarnir þjóni eigendum sínum sem best. „Það má til dæmis kaupa svokallaða skúffu sem hægt er að draga fram og þannig hafa enn betra aðgengi að öllu því sem sett er á pallinn. Þá ver pallhúslokið það sem geymt er á pallinum fyrir veðri og vindum, en samt er alltaf sá möguleiki til staðar að fjarlægja lokið og flytja stærri og hærri farm en væri hægt með dæmigerðum litlum sendibíl,“ útskýrir hann. „Það er vandséð að iðnaðarmenn séu að tapa neinu á því að skipta úr sendibíl yfir í pallbíl og miklu frekar að þeir séu að fá það besta úr báðum heimum með ökutæki sem býður jafnvel upp á möguleikann á að fara í fjallaferðir ef svo ber undir.“

Spurður um þær nýjungar sem Mitsubishi kynnir til sögunnar í sjöttu kynslóð L200 segir Guðmundur að auk þess sem búið sé að fegra bílinn að innan sem utan og gefa honum enn kraftalegra útlit sé áberandi hvað framleiðandinn hafi lagt ríka áherslu á öryggisbúnað. „L200 er kominn skrefinu lengra en margir pallbílar í sama flokki, s.s. með því að hafa akreina- og árekstrarvara sem staðalbúnað. Þá er búið að bæta aksturseiginleika enn frekar, m.a. með veggripsstýringu sem dreifir afli betur á hjólin við erfiðar aðstæður.“

L200 verður fluttur inn í fjögurra sæta útgáfu en hægt verður að sérpanta tveggja sæta útfærslu sem er þá með stærri palli. Verðið er frá tæpum sex milljónum króna og fer upp í tæplega sjö milljónir þegar búið er að hlaða bílinn öllum mögulegum aukabúnaði og leðurinnréttingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »