Innréttingin sjálf verður hátalari

Með því að láta yfirborðsfleti í farþegarými titra má nota …
Með því að láta yfirborðsfleti í farþegarými titra má nota þá sem hátalara. Continental

Sumum þykir það ágætismælikvarði á gæði hljómtækja í bíl að telja hátalarana. Því fleiri sem hátalararnir eru, því meiri ætti jú hljómurinn að vera. Í framtíðinni kann samt að vera að besta tónlistarupplifunin verði í bílum sem segja má að breyti farþegarýminu öllu í einn stóran hátalara.

Á CES-raftækjasýningunni í Las Vegas í janúar kynnti þýski dekkja- og rafbúnaðarframleiðandinn Continental til sögunnar hugmynd að nýrri gerð hljóðkerfis sem fengið hefur nafnið Ac2ated. Þar er notuð tækni sem þróuð hefur verið í samvinnu við heyrnartólaframleiðandann Sennheiser og breytir hörðum flötum í innréttingu bílsins í hátalara.

Eins og lesendur vita byggja hátalarar í grunninn á ósköp einfaldri tækni, þar sem hljóðið er framkallað með því að láta stífan flöt eða himnu titra og þannig framkalla hljóðbylgjur.

Er hægt að breyta nánast hvaða harða yfirborði sem er í hátalara, ef tæknin er notuð rétt, og geta því fylgt ýmsir kostir. Með því að nota harða fleti í innréttingu bíls sem hátalara mætti m.a. spara þyngd, en venjuleg hljómtæki í bíl geta vegið allt að 40 kg að sögn Continental og hægt að minnka þá tölu um 75-90% með lausn Continental og Sennheiser.

Vitaskuld ætti Ac2ated að vera himnasending fyrir bílahönnuði sem þurfa þá ekki lengur að dreifa hátölurum hér og þar um farþegarýmið og brjóta upp hreina fleti og beinar línur. ai@mbl.is

mbl.is