GLC í tengiltvinnútfærslu fáanlegur aftur

GLC er komin aftur á markað hér á landi.
GLC er komin aftur á markað hér á landi.
Ný tengiltvinnútfærsla af Mercedes-Benz GLC er komin aftur á markað hér á landi eftir að hafa ekki verið fáanlegur frá árinu 2018.

„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessum vinsæla sportjeppa í tengiltvinnútfærslu. GLC var mest seldi bíllinn hjá Öskju á árunum 2017 og 2018 en var ekki fáanlegur í tengiltvinnútfræslu á síðasta ári þar sem Mercedes-Benz náði ekki að anna eftirspurn eftir bílnum. Við fengum bílinn aftur í byrjun þessa árs og greinilegt að margir hafa beðið eftir þessum bíl og margir eru spenntir,“ segir Ágúst Hallvarðsson, sölustjóri Mercedes-Benz.

Samanlagt skilar tengiltvinnvélin í GLC 320 hestöflum í gegnum níu þrepa sjálfskiptinguna 9G-Tronic. Rafhlaðan er stærri en áður og er drægið nú allt að 50 km á hreinu rafmagni samkvæmt WLTP-staðli.

Í GLC er nýr og stór 10,25” háskerpuskjár með MBUX margmiðlunarkerfi sem hægt er að stjórna bæði með snertingu og rödd. GLC er búinn hinu tæknivædda 4MATIC fjórhjóladrifi frá Mercedes-Benz sem er alltaf í fullri virkni hvort sem ekið er á rafmagni eða eldsneyti. Sportjeppinn greinir veginn vel, ójöfnur og krappar beygjur.

„Rafmögnuð EQ lína Mercedes-Benz er mjög spennandi og við finnum það hjá okkar viðskiptavinum að áhuginn er mikill. Nánast allir bílar frá Mercedes-Benz eru núna fáanlegir í tengiltvinnútfærslu en GLC og GLE eru þar vinsælastir. Þá hefur Mercedes-Benz EQC verið mjög vinsæll en hann er 100% rafbíll. GLE og EQC eru hæstir í sölu hjá okkur núna en GLC í tengiltvinnútgáfu mun nú sækja á þá í toppslagnum þar sem hann er kominn aftur til okkar," segir Ágúst í tilkynningu.
mbl.is