Spúla, bóna, ryksuga og líta undir húddið

Með því að halda bílnum hreinum og bónuðum má vernda …
Með því að halda bílnum hreinum og bónuðum má vernda lakkið og um leið varna skemmdum. Ekki gleyma dyrakörmunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veturinn er á enda, sólskinsstundum fer fjölgandi, götuhreinsanir eru byrjaðar og ekki seinna vænna að standsetja bílinn fyrir sumarið. Jón Kristján Sigurðsson, ritstjóri hjá FÍB, segir gott að þrífa heimilisbílinn vel og vandlega í byrjun sumars enda mæði mikið á lakkinu yfir vetrarmánuðina.

„Salt og krap hefur sest á lakkið og þarf að þrífa burtu þessi óhreinindi og skima ytra byrði bílsins eftir lakkskemdum, ryðblettum og skemmdum eftir steinkast.“

Jón segir margborga sig að hugsa vel um lakkið á bílnum enda veitir það vernd gegn ryði og tæringu. „Lakkið verður fyrir miklu álagi af völdum rigningar, vegasalts, loftmengunar, svifryks og sólarljóss, og eigi lakkið að geta mætt öllu þessu álagi til langframa er nauðsynlegt að halda því í horfinu.“

Mælir Jón með að byrja á að spúla bílinn vel, helst með háþrýstiþvottatæki en annars með vatnsslöngu með bunustilli. Gæta þarf að því að nota ekki of mikinn vatnsþrýsting á lista í kringum glugga og í þeim landshlutum þar sem vetrarsöltun er viðvarandi ætti að skola undirvagninn sérstaklega. „Spúla þarf vel og vandlega alls staðar þar sem salt og aur geta setið, s.s. undir brettaköntum og í kringum hjól. Þá er nauðsynlegt að þrífa salt- og tjöruagnir af lakkinu með affitandi hreinsiefnum og æskilegt að velja frekar vistvæn efni sem eru í dag fáanleg í miklu úrvali,“ segir Jón. „Þegar búið er að skola bílinn vel eftir affitunina er gott að þrífa hann með sápulegi og volgu vatni og nota til þess svamp. Byrjað er á toppinum og svo unnið niður á við, en endað á felgunum.“

Geta sjálf lagað minni skemmdir

Muna þarf að þrífa vel innan í dyrakörmum og undir hurðum enda er hætta á að þar geti annars byrjað að myndast ryð. Þurrka ætti bílinn að loknum þvotti með vaskaskinni eða gúmmísköfu og þykir góð regla að þvo bíla innandyra eða í skugga, en alls ekki í glampandi sól sem hitar bílinn svo að sápuvatnið þornar of hratt og skilur eftir bletti á lakkinu. „Ef skemmdir eru í lakkinu geta eigendur oft hreinsað ryð úr minni skemmdum og blettað yfir. Flest bílaumboð, varahluta- og lakkverslanir selja litlar lakkdósir og glært yfirlakk sem hugsað er til minni viðgerða. Stærri viðgerðir á lakki krefjast aftur á móti aðkomu sérfræðinga í réttingaviðgerðum og sprautun.“

Að sjálfsögðu þarf líka að þrífa bílinn vel að innan og minnir Jón á að nota þurfi mjúkan ryksugustút á leðursæti svo að leðrið rispist ekki fyrir slysni. Þerra þarf upp allan raka og mikilvægt að teppi séu ekki blaut eða rök undir gúmmímottum. „Gott húsráð er að setja gömul dagblöð undir gúmmímottur og draga þannig rakann úr teppum. Hurðaspjöld, mælaborð og aðra harða fleti má þvo með rakri tusku með ögn af góðum uppþvottalegi, og svo má fríska upp á plast- og vínilfleti með glansefnum.“

Góð regla er að þrífa bílinn fyrst að utan, og svo að innan, m.a. vegna þess að það auðveldar rúðuþrifin. „Óhreinindin að innanverðu sjást betur ef rúðurnar hafa verið þrifnar að utanverðu. Nota skal glerhreinsiefni og örtrefjaklúta á rúður og spegla,“ leiðbeinir Jón.

Dúar bíllinn?

Jón Kristján Sigurðsson, ritstjóri hjá FÍB.
Jón Kristján Sigurðsson, ritstjóri hjá FÍB.


Þegar bíllinn er þrifinn ætti í leiðinni að skoða vandlega ástand hjólbarða og athuga loftþrýstinginn. „Ef framundan er langt ferðalag er ágætt að miða við a.m.k. 2-3 mm mynstursdýpt til að mæta hjólbarðasliti á ferðalaginu.“

Þá vill oft gleymast að meta ástand höggdeyfa en þeir hafa mikið að segja varðandi aksturseiginleika bifreiðarinnar. „Gera má einfalda athugun með því að fara hringinn í kringum bílinn og þrýsta hverju horni niður. Ef bifreiðin dúar meira en einu sinni upp og einu sinni niður getur það verið vísbending um lélegan höggdeyfi.“

Sumar-standsetningin kallar líka á að yfirfæra verkfærasett bifreiðarinnar; smyrja tjakkinn og ganga úr skugga um að felgulykill, skiptilykill, átaksstöng, kertalykill, skrúfjárn, stjörnuskrúfjárn, bittöng, loftþrýstingsmælir og vasaljós séu til taks. Jón segir gott að hafa líka algengustu varahluti, s.s. viftureim, kerti, öryggi og þurrkublöð í bílnum eða bílskúrnum, en í bílnum á alltaf að vera viðvörunarþríhyrningur, sjúkrakassi, dráttartóg og tómur bensínbrúsi. „Kanna þarf olíustöðuna á 1.000 km fresti og áður en haldið er í langferð og mælir FÍB með að hafa meðferðis aukalítra af smurolíu í bílnum sem uppfyllir staðla framleiðanda. Æskilegt er að kanna líka ástand og hleðsluhæfi rafgeymis, og ef skipta þarf um peru er ráðlegt að skipta einnig út samsvarandi peru á hinni hliðinni.“

Til viðbótar þarf að huga að kælikerfinu, og þá sérstaklega ef haldið skal af stað í ferðalag. „Ganga þarf úr skugga um að nægur kælivökvi sé á kerfinu og ef bæta þarf á er ráðlegt að blanda vatni og frostlegi í jöfnum hlutföllum. Frostlög á einnig að nota á sumrin því hann ver kælikerfið gegn ryði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »