42% færri nýir bílar í umferð

Litli atvinnubíllinn Renault Kangoo ZE.
Litli atvinnubíllinn Renault Kangoo ZE.

Einungis 609 fólks- og sendibílar voru nýskráðir hér á landi í maí, 544 til einstaklinga og fyrirtækja og 65 til bílaleiga. Nemur samdráttur í sölu nýrra bíla 42 prósentum það sem af er ári þótt heimili landsins hafi aukið örlítið við sig í bílakaupum, eða um 2%.

„Áhugavert er að af 12 nýskráðum Renault í maí voru tíu hreinir rafbílar og nær allir atvinnubílar af gerðinni Kangoo EV eða alls níu auk eins Zoe. Þá er þess einnig að geta að af fjórtán nýjum BMW voru 13 tengiltvinnbílar sem styrkja æ stöðu sína á alþjóðamarkaði, líkt og hinir sífellt langdrægari rafbílar. Alls nýskráði BL 36 rafbíla í maí og 22 tengiltvinnbíla,“ segir í t ilkynningu frá bílaumboðinu BL.

95% færri bílaleigubílar

Í maí voru einungis 65 nýir bílaleigubílar skráðir hér á landi, 95% færri en í sama mánuði fyrir ári þegar 1.337 voru nýskráðir. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem bílaleigurnar skera bílakaup sín niður með viðlíka hætti en apríl sl. var einnig 95% færri bílar skráðir heldur en í fyrra.

Í maílok voru nýskráðir bílaleigubílar tæpum 78% færri heldur en fyrstu fimm mánuði ársins 2019 og er ástæðuna einkum að finna í afleiðingum veirufaraldursins og brotthvarfi ferðamanna frá landinu af hans völdum, samkvæmt upplýsingum frá BL.

mbl.is