Nýorkubílar 67,8% sölunnar

E-Golf í hleðslu
E-Golf í hleðslu

Hreinir rafmagnsbílar hafa selst mest allra bíla það sem af er ári með 35,4%  af allri sölu til einstaklinga. Þetta hlutfall var 11,9% á sama tíma í fyrra.

Þar á eftir koma tengiltvinnbílar með 19% sölunnar í ár á móti 16,9% í fyrra. Sé svo horft til allra nýorkubíla samanlagt á árinu þá standa þeir undir 67,8% allrar sölu á fólksbílum til einstaklinga það sem af er ári.

Að sögn Bílgreinasambandsins (BGS) hefur skipting á milli orkugjafa nýrra bíla sem einstaklingar kaupa breyst töluvert frá síðasta ári og árunum þar á undan, svo sem sjá má á tölunum hér að framan.

Þetta gerist þrátt fyrir minni bílasölu til einstaklinga í apríl og maí, þar sem varð 31,7% og 28,1% samdráttur. Er samdrátturinn rakinn til kórónuveirufaraldursins.

Það sem af er árinu 2020 hafa einstaklingar keypt næstum jafn marga nýja fólksbíla og á sama tímabili 2019, eða 2031 bíl í ár á móti 2071 bíl í fyrra.

Heildarsala nýrra fólksbíla til einstaklinga og fyrirtækja það sem af er ári hefur dregist saman um 43,2% frá sama tímabili á síðasta ári, að sögn BGS. Dróst heildarsalan í maí saman um 74,4% samanborið við maí 2019.

Nýskráðir fólksbílar eftir orkugjöfum.
Nýskráðir fólksbílar eftir orkugjöfum.
mbl.is