Defender Hard Top fyrir áramót

Defender Hard Top verður sniðinn að þörfum atvinnurekstrar.
Defender Hard Top verður sniðinn að þörfum atvinnurekstrar.

Síðar á þessu ári kynnir Land Rover sérútgáfu Defender sem sérstaklega verður sniðin að þörfum atvinnurekstrar, s.s. einyrkja og verktaka. Báðar gerðir bílsins, 110 og 90, verða í boði Hard Top sem Land Rover kynnti upphaflega árið 1950.

„Nýr Land Rover Defender er búinn ýmsum tæknilausnum sem nýtast sérlega vel í vinnubílum eins og Defender Hard Top. Fyrir utan sérstaklega slitsterka innréttingu vinnubílsins má m.a. nefna mikla vaðgetu (90 cm), þróað fjórhjóladrif og sjálfstæða loftpúðafjöðrun við hvert hjól sem nýtist vel utan alfararleiða, ekki síst á erfiðum vinnusvæðum auk þess sem bíllinn er búinn myndavél sem getur sýnt ökumanni vegyfirborðið við framhjólin og tryggir góða útsýn í bröttum brekkum,“ segir í tilkynningu.

Við þetta má bæta stjórnbúnaðinum Advanced Tow Assist sem auðveldar að bakka allt að 3,5 tonna aftanívagni í stæði. 

Miðjusæti verður á milli framsætanna enda kemur Hard Top án aftursæta til að hámarka rými fyrir vörur og verkfæri. Þegar bíllinn hefur verið fullhlaðinn vörum, allt að 90 kg, sem skert geta útsýn um afturrúðuna sýnir sérstök myndavél ökumanni umhverfið til að tryggja að hægt sé að bakka á öruggan hátt án hættu á ákeyrslu. Þess má geta að báðar útgáfur Defender taka allt að 300 kg á toppgrindina.

Land Rover Defender Hard Top verður sniðinn að þörfum atvinnurekstrar.
Land Rover Defender Hard Top verður sniðinn að þörfum atvinnurekstrar.
mbl.is