Nýr Korando endurhannaður frá grunni

SsangYong Korando hinn nýi.
SsangYong Korando hinn nýi.

Kóreski bílsmiðurinn SsangYong hefur kynnt til sögunnar fjórðu kynslóðina af sportjeppanum vinsæla, Korando.

Samkvæmt upplýsingum frá Bílabúð Benna, umboðsaðila SsangYong, er gripurinn nú kominn til landsins og verður frumsýndur á morgun, laugardaginn 3. október.

Það fyrsta sem vekur athygli við þennan nýja Korando er að hann hefur verið endurhannaður frá grunni.

„Korando skartar nú glæsilegra útliti jafnt að utan sem innan. Þá státar hann af ótal tækninýjungum sem gera hann að enn ákjósanlegri valkosti fyrir íslenskar aðstæður, t.d. glæsilegu margmiðlunarkerfi, endurhannaðri fjöðrun, fullkomnari hljóðeinangrun og öflugri öryggisbúnaði,“ að því er fram kemur í tilkynningu.

Að sögn Benedikts Eyjólfssonar hjá Bílabúð Benna er hér um spennandi frumsýningu að ræða. „SsangYong er í mikilli sókn og með tilkomu nýs Korando er ljóst að verið er að leggja línurnar fyrir næstu kynslóðir jeppanna frá SsangYong. Við höfum því miklar væntingar til þess sem koma skal, enda nýr Korando einstaklega fallegur í alla staði og á örugglega eftir að koma á óvart,“ segir Benedikt.

Frumsýningin fer fram á morgn, laugardag, að Krókhálsi 9, frá klukkan 12 til 16. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, verði einnig blásið til sérstakrar frumsýningarviku, dagana 3. – 10. október, þar sem áhugasömum verður boðið að skoða og reynsluaka nýjum Korando. 

mbl.is