Tesla 3 mest seldi bíllinn 2020

Tesla 3 sló í gegn á nýliðnu ári.
Tesla 3 sló í gegn á nýliðnu ári. Ljósmynd/Tesla

Tesla 3 rafbíllinn var mest seldi bíll landsins hér á landi í fyrra. Er þetta í fyrsta sinn sem hreinn rafbíll nær þeim árangri.

Þannig sýna tölur Samgöngustofu að til landsins voru fluttir 858 bílar af þessari tegund í fyrra, talsvert fleiri en af Mitsubishi Outlander, tengiltvinn-bílnum sem flutt var til landsins í 773 eintökum. Þá var Toyota RAV4 í fjórða sæti yfir mest seldu bílana með 532 eintök flutt til landsins.

Af bílaframleiðendum trónir Toyota á toppnum en 1610 innfluta fólks- og sendibíla. Í örðu sæti var KIA með 949 bíla nýskráða og Tesla í þriðja sæti með 907 bíla.

Þakka góðar viðtökur

Í fréttatilkynningu segir Even Sandvold Roland, fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins í Noregi og á Íslandi að fyrirtækið sé þakklátt viðskiptavinum sínum fyrir viðtökurnar á liðnu ári. Þá hlakki fyrirtækið til þess að auka enn kraftinn í orkuskiptum á árinu 2021.

Þá bendir hann á að fyrirtækið hafi á liðnu ári aukið umsvif sín og þjónustu í Reykjavík og að uppi séu áætlanir um að fjölga ofurhleðslustöðum hringinn í kringum landið. Í fyrra opnaði slík stöð í Hrútafirði en á áætlun er að sambærilegar stöðvar rísi á Akureyri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, við Kirkjubæjarklaustur og á svæðinu í kringum Hellu og Hvolsvöll.

mbl.is

Bloggað um fréttina