Sony langt komið með þróun rafbíls

Þróunarbíllinn Sony Vision-S
Þróunarbíllinn Sony Vision-S

Japanski rafeindatækjasmiðurinn Sony hefur sent frá sér myndband af þróunarakstri stallbaksins Vision-S. Er þar um að ræða hreinan rafbíll sem virðist kominn afar langt í þróunarferlinu.

Sony kynnti Vision-S á tæknineytendasýningunni (CES) í Las Vegas fyrir ári. Í millitíðinni hefur frumgerð bílsins sýnilega tekið breytingum á eins árs þróunarferli. Hefur Sony fengið ýmsa aðila til samstarfs við sig um þróun bílsins.

Aksturinn fór fram í Austurríki við vetrarlegar aðstæður. Þar sem Sony er rafeindatæki fremur en bílsmiður ákvað fyrirtækið að þróa ekki bílinn eitt og óstutt. Fékk Sony hinn þekkta austurríska bílsmið Magna Steyr til samstarfsins. Svipar aðferðinni til samstarfs Apple og Hyundai um rafbíl þar sem Apple nýtur góðs af gríðarlegri reynslu suðurkóreska bílsmiðsins.

Tæpast er að búast við Vision-S á götuna í náinni framtíð, hvað þá að þú, lesandi góður, getir eignast svona bíl. Honum er nefnilega ætlað það hlutverk eitt að brúkast við þróun sérstakrar myndskynjunartækni og – samkvæmt vefsíðu Sony – „endurspegla framtíðarhugmyndir okkar um tækni til aksturs og ferðalaga“.

Eins og Tesla skartar Vision-S líka sérlega víðtækri panórama-framrúðu og Sony lofar því að geta staðið bíl keppinautarins á sporði hvað allan hátæknibúnað varðar.

Nýverið hefur rúmlega 30 skynjurum verið bætt í Vision-S til viðbótar öllum sem þar voru fyrir. Nema þeir og mynda í sífellu allt umhverfi bílsins, 360 gráður. Mælaborðið leggur stærðar breiðskjár undir sig en á honum er að finna stýringar fyrir myndavél og leiðsögubúnað, tónlist og myndbandstæki. Samþætt 5G-nettenging leyfir einstaklega skjótar uppfærslur stjórnforrita bílsins.

Að því er fram kemur í lýsingu á Vision-S á heimasíðu Sony er myndavél komið fyrir í farþegarýminu sem greinir farþegana í sundur og getur lesið varahreyfingu þeirra til tryggja hagstæðustu raddstýringuna.

Sony hefur ekki látið ýkja mikið af upplýsingum um starfsemi bílsins frá sér, aðeins stærð, þyngd, afl og hámarkshraða. Upplýsingum um stærð rafgeymis heldur fyrirtækið fyrst um sinn fyrir sig.

Til viðbótar Magna Steyr eru Bosch, Continental, AImotive (ungverskt sprotafyrirtæki), Elektrobit (í eigu Continental), Valeo, Vodafone og ZF samstarfsaðilar Sony við þróun Vision-S. agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Þróunarbíllinn Sony Vision-S
Þróunarbíllinn Sony Vision-S
Þróunarbíllinn Sony Vision-S
Þróunarbíllinn Sony Vision-S
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: