Hóflegur, raunsær og spennandi Kínverji

Aiways er að sækja inn á Evrópumarkað fyrir rafbíla.
Aiways er að sækja inn á Evrópumarkað fyrir rafbíla.

Á engum bæ er eins mikill kraftur í framleiðslu nýrra bíla, undir nýjum merkjum, bæði smárra sem stórra, eins og í Kína. Einn þeirra og líklega sá allra nýjasti er Aiways (nei, þetta er ekki prentvilla, það vantar ekki „r“ í heitið).

Bíllinn hefur frá í fyrrasumar gengið í gegnum viðurkenningarferli evrópskra yfirvalda fyrir nýja bíla. Er sem skaparar hans ætli að rækta jarðveginn vel því þeir hafa farið sér óvenju hægt og vandað innkomu sína í Evrópu sem mest má vera.
 
Hann hefur m.a. verið leigður til brúks á kauplánum í Korsíku sem er viðskiptamáti sem verulega hefur sett mark sitt á bílamarkaðinn allra síðustu árin. Sömuleiðis hefur hann verið fáanlegur hjá þýskri rafbílakeðju og franskri.

Ekki hefur verið skýrt frá hverjir verði dreifingar- og söluaðilar Aiways í  Evrópu. Í Frakklandi hlýtur hið óþekkta fyrirtæki Car East France hnossið. Hefur það opnað innflutningsskrifstofu í París. Forstjórinn er hálfgerður nýgræðingur í bílainnflutningi en hann heitir  Serge Cometti og rak áður stóra útleigu lítilla rafbíla sem líktust helst golfkörtum.  Áður stýrði hann svo MG bílamerkinu inn á Frakklandsmarkað og seldi 656 eintök af bílnum frá 7. maí til áramóta í fyrra, allt hreinum rafbílum.

Ekki mun ætlunin að opna nema eitt miðlægt umboð fyrir Aiways bílinn og samskipti varðandi sölu hans, reynsluakstur og kaup fara fram á netinu. Mun grunnverð bílsins í Frakklandi vera um 28.000 evrur eða 4,2 milljónir króna, en þá er verið að tala um módel með 63 kílóvattstunda rafgeymi og 140 kílóvatta rafmótor.

Í fyrra voru seldir 282 kínverskir bílar í Evrópu í flokknum „önnur módel“. Ógjörningur er að vita hvort þar séu meðtaldir einhverjir Aiways. Hafin var sala á bílnum í Kína í júní í fyrra og nam hún 2.600 bílum við síðustu áramót.

mbl.is