Kortatryggingarnar veita ekki endilega næga vernd

Viðskiptavinir bíða í röð hjá bílaleigu í Miami. Eflaust kannast …
Viðskiptavinir bíða í röð hjá bílaleigu í Miami. Eflaust kannast margir lesendur við það álag og óvissu sem fylgir því að taka bíl á leigu erlendis. Reglurnar eru flóknar og viðskiptahættirnir misgóðir hjá bílaleigunum. AFP

Það er á allra vitorði að það getur verið dýrt að kaupa viðbótartryggingu þegar bíll er tekinn á leigu á ferðalagi erlendis, og gæti tryggingin jafnvel kostað meira en leigan.

Margir telja sig geta sleppt viðbótartryggingunum, s.s. vegna þeirrar bílaleigutryggingar sem fylgir mörgum betri greiðslukortum, en þegar betur er að gáð er kortatryggingin háð ákveðnum takmörkunum.

Einungis bestu kortin eru með sérstakar bílaleigutryggingar, sem eru þá eingöngu viðbótarkaskótrygging og ábyrgðartrygging, en ekki sérstök slysatrygging. Kortin innifela hins vegar almennt slysatryggingar, sem gilda m.a. um slys í bílum á ferðalagi erlendis.

Sigurður Óli Kolbeinsson er framkvæmdastjóri tjóna- og stofnstýringar hjá Verði og segir að greiðslukortatryggingin veiti ekki jafngóða vernd og ef fólk t.d. lenti í bílslysi á Íslandi: „Munurinn snýr aðallega að slysum sem kunna að verða á ökumanni og mögulega farþegum, og þá einkum ef farþegi og ökumaður eru tengdir. Algeng vátryggingaupphæð betri kortatrygginga er í kringum 12 milljónir króna að hámarki og er það ekki há upphæð ef um alvarlegt slys er að ræða.“

Ökutækjatryggingar á Íslandi greiða þannig mun hærri bætur vegna örorku og tryggja að ökumenn og farþegar njóti fullrar verndar. Sigurður Óli segir að til að flækja málin geti reglur verið mjög breytilegar á milli landa og í sumum löndum séu bílaleigur skyldaðar til að leigja bíla með góðum grunntryggingum á meðan skyldutryggingar eru í lágmarki í öðrum löndum og vernda jafnvel bara þriðja aðila gegn tjóni en ekki t.d. ökumanninn.

Bílaleigutryggingarnar leysa ekki allan vanda

Þá þarf að skoða tryggingaskilmála bílaleiganna vel, ef fólk hyggst verja sig með því að kaupa tryggingu frá þeim. Sigurður gerði óformlega könnun á þeim tryggingum sem voru í boði hjá alþjóðlegum bílaleigukeðjum á Ítalíu og í Frakklandi og var ekki hrifinn: „Hjá einni bílaleigunni voru í boði tveir flokkar trygginga þar sem ódýrari tryggingin greiddi allt að 7 milljónir vegna slyss og sú dýrari allt að 26 milljónir, sem er samt mun lakari vernd en fólk myndi fá með íslenskum skyldutryggingum ökutækja,“ útskýrir hann. „Þá eru þetta ekki ódýrar tryggingar og mætti orða það þannig að reiknað á ársgrundvelli eru upphæðirnar þannig að ég væri alls ekki ósáttur við að geta selt tryggingar á þessu verði.“

Spurður hvað er til ráða segir Sigurður að íslensk tryggingafélög bjóði víðtækar slysatryggingar en sumum geti þótt kostnaðarsamt að kaupa þannig tryggingu til þess eins að hafa mjög góða tryggingavernd þá fáu daga á ári sem bíll er tekinn á leigu í útlandinu. Þá kunni einnig að vera möguleiki á að fá bætur úr hefðbundnum fjölskyldutryggingum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Hátt flækjustig

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, tekur undir með Sigurði að tryggingaumhverfi bílaleigubíla geti verið mjög flókið og erfitt fyrir fólk að átta sig á réttindum sínum og valkostum. Runólfur starfaði á sínum tíma hjá alþjóðlegri bílaleigu og veit að sala á tryggingapökkum er stór tekjuliður hjá mörgum bílaleigunum. „Þær viðbótartryggingar sem bílaleigurnar bjóða snúa aðallega að því að minnka eigin áhættu ökumanns ef slys eða tjón ber að hendi,“ útskýrir hann. „Og stundum er einfaldlega verið að hafa fé af fólki.“

Runólfur hvetur ökumenn til að lesa tryggingaskilmála í þaula og hafa samband við tryggingafélög sín til að ganga úr skugga um hvaða verndar þeir njóta. Þannig geti t.d. sumir fjölskyldutryggingapakkar veitt góða sjúkra- og slysatryggingu á ferðalögum en mögulega undanskilið slys vegna ökutækja.

Að mati Runólfs er það verulegt vandamál hve mikilli óvissu neytendur standa frammi fyrir þegar þeir leigja bíl. Nógu erfitt sé fyrir suma að skilja skilmála íslensku tryggingafélaganna í þaula, og hvað þá átta sig á skilmálum bílaleiganna sem ritaðir eru á erlendu og lagatæknilegu máli. Viðskiptavinurinn sé líka oft settur í erfiða stöðu við afgreiðsluborð bílaleigunnar, þreyttur og stressaður eftir langt ferðalag. „Starfsmenn bílaleiganna leggja stundum hart að fólki að kaupa tryggingar sem það hefur ekki endilega þörf fyrir,“ bætir hann við.

Runólfur segir að FÍB fái endrum og sinnum á sitt borð mál þar sem félagsmenn hafa lent í vandræðum með bílaleigur, s.s. ef deilt er um skemmdir og bótaupphæðir, og hefur félagið þá milligöngu til að gæta hagsmuna leigjandans. Íslendingar geta líka freistað þess að leita aðstoðar Evrópsku neytendaaðstoðarinnar sem finna má á slóðinni www.eccisland.is.

Muna að taka myndir af rispum

Að sögn Runólfs eru viðmið bílaleiganna mjög breytileg eftir löndum og sum vilji rukka fyrir minnstu rispur á meðan önnur kippa sér ekki upp við tiltölulega stórar dældir. „Sumar bílaleigurnar höfum við grunaðar um að reyna að rukka viðskiptavini fyrir sprautun á t.d. hurð vegna lítils háttar rispu, og endurtaka svo leikinn með mörgum viðskiptavinum á eftir áður en bíllinn er sendur til sprautunar.“

Þar til betri valkostir verða í boði á tryggingamarkaði ráðleggur Runólfur fólki á ferðinni að sýna aðgát þegar bíll er tekinn á leigu og fylgja nokkrum einföldum ráðleggingum:

„Alltaf ætti að skoða bílinn vandlega og taka myndir af minnstu skrámum sem fólk kemur auga á. Stundum þarf að sækja bílana í bílastæðahús þar sem birta er ekki góð og ætti þá að aka bílnum þangað sem lýsingin er betri og leita að dældum, rispum og hvers kyns skemmdum. Ef skemmdir hafa ekki verið merktar inn á leigusamninginn ætti að hafa strax samband við starfsmann og benda á skemmdina, eða til vara senda tölvupóst á bílaleiguna með myndum af skemmdinni svo ekki leiki vafi á að bíllinn var skemmdur þegar hann var afhentur.“

Góð ráð að finna á YouTube

Þá er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar ekið er í ókunnugu landi og m.a. kanna hvort krafa er gerð um alþjóðlegt ökuskírteini (sjá nánar á slóðinni www.fib.is/is/ferdalog/althjodlegt-okuskirteini) en bílaleigur geta gert alþjóðlegt skírteini að skilyrði varðandi útleigu á bíl. Runólfur segir að sumum geti líka þótt það mjög streituvaldandi að aðlagast umferðinni á nýjum stað enda hafi hvert land sín sérkenni þegar kemur að umferðarmenningu, vegahönnun og útliti merkinga og skilta. „Mörgum finnst það hjálpa mikið að vera með leiðsögutæki frekar en t.d. að sitja með kort í fanginu, og svo er góð regla að gefa sér tíma til að læra á bílinn áður en lagt er í hann, s.s. með því að finna takkann til að stilla ljósin og kveikja á rúðuþurrkunum. Þá er upplagt að spyrja starfsmann bílaleigunnar hvort hafa þurfi einhverjar sérreglur í huga, s.s. um hægribeygjur á rauðu ljósi eða um forgang í hringtorgum,“ útskýrir hann og bætir við að FÍB aðstoði félagsmenn og veitir ráð varðandi akstur erlendis.“

Þá mælir Runólfur eindregið með því að kíkja á YouTube áður en bíl er ekið í ókunnugu landi. „Það á við um næstum öll lönd að einhver hefur gert stutt myndskeið þar sem farið er í saumana á helstu atriðum sem erlendir ökumenn reka sig á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: