Bílanaust með nýja verslun á Bíldshöfða

Ingi Þór Harðarson segir nýju netversluna auðvelda leitina að bílavörum.
Ingi Þór Harðarson segir nýju netversluna auðvelda leitina að bílavörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er ekki á hverjum degi að ný verslun með bílvörur er opnuð á Íslandi. Á mánudag tók Bílanaust á móti fyrstu viðskiptavinunum í nýrri, stórri og glæsilegri verslun á Bíldshöfða 12 en samhliða opnun nýju búðarinnar var endurbætt netverslun tekin í gagnið á slóðinni www.bilanaust.is.

Ingi Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Bílanausts, segir að samhliða opnun verslunarinnar á Bíldshöfða verði eldri verslun á Dvergshöfða lokað. „Nýja búðin er björt og opin og hefur að geyma hvers kyns vörur og efni fyrir bíleigandann – nokkurs konar stórverslun fyrir bílinn.“

Auk nýju búðarinnar á Bíldshöfða starfrækir Bílanaust í dag sex verslanir: í Vatnagörðum í Reykjavík, í Hafnarfirði, í Keflavík, á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum.

Liggur sérstaða Bílanausts ekki síst í því að bjóða upp á úrval vara frá leiðandi framleiðendum en sem dæmi um merki sem finna má í hillum Bílanausts-búðanna má nefna Bosch, ABS, Hella, Varta, Osram, Turtle Wax og Mothers.

Nóg að gera í byrjun sumars

Að sögn Inga Þórs gengur reksturinn vel og tekur salan iðulega kipp á þessum tíma árs þegar landinn undirbýr ferðalög sumarsins. „Áður en haldið er af stað í ferð um landið þarf að ganga úr skugga um að bíllinn sé í góðu ástandi og skipta t.d. út – eftir atvikum – slitnum bremsuklossum, dempurum og öðrum íhlutum sem mæðir mikið á. Um leið og sól hækkar á lofti eykst líka sala á hreinsi- og bónvörum, og ferðavörum á borð við farangursbox og reiðhjólafestingar, og eftirspurn eftir flutningakerrum vex.“

Ingi Þór játar að samkeppnin sé hörð og m.a. hægt að finna samkeppnishæft verð hjá erlendum netverslunum. „En við leggjum okkur fram við að viðhalda góðri lagerstöðu svo að viðskiptavinir geti fengið það sem þá vanhagar um hratt og vel, og hreykjum okkur af því að hafa til taks reynslumikla og fróða fagmenn í öllum verslunum okkar og í þjónustuveri Bílanausts sem leiðbeina viðskiptavinum og aðstoða eins og frekast er unnt.“

Mælir Ingi Þór sérstaklega með heimsókn í nýju netverslunina. „Hún var tekin alveg í gegn og með nýrri leitarvél á fólk enn auðveldara með að finna þær vörur sem það vantar, og getur ýmist fengið vöruna senda heim eða gengið að henni vísri í einni af verslunum okkar.“ ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: