Ósigrandi á umhverfisvænum jeppa

Maður lítur vel út á malbikinu á Jeep Wrangler Rubicon …
Maður lítur vel út á malbikinu á Jeep Wrangler Rubicon tengiltvinnbílnum og úti í óbyggðum er maður fær í flestan sjó. Kristinn Magnússon

Jeep Wrangler Rubicon 4xe Plug-In-Hybrid er fyrsti alvöru tengiltvinn-torfærujeppinn á markaðnum ef mér skjátlast ekki og hvað er meira töff en umhverfisvæn jeppabifreið? Ef ég ætti að nota eitt orð til að lýsa tilfinningunni sem greip mig við aksturinn þá kemur mér helst til huga orðið ósigrandi.

Þannig leið mér sem sagt undir stýri á Rubicon-jeppanum. Bæði var það vegna þeirrar staðreyndar að bíllinn kemst yfir nánast hvaða torfærur sem er en líka af því að hann er á sama tíma lipur og þægilegur í akstri á malbikinu. Hestöflin 375 og 673 Nm tog eru vitnisburður um að orkuna skortir ekki í þetta tryllitæki. Það að leggja sitt af mörkum til umhverfismála gerir mann líka enn sáttari við bifreiðina.

Bláir litir tákna rafmagn

Ef við horfum til þess sem snýr sérstaklega að rafdrifinu í bílnum þá eru bæði útlitslegir þættir að utan og innan sem tengja bílinn sérstaklega við hinn nýja aflgjafa. Bláu lógóin utan á bílnum vísa til rafmagnsins og sömuleiðis bláir krókar að framan og dráttarhringur að aftan. Að innan eru bláar línur í innréttingu og sætum en í upprunlega Rubicon-jeppanum, órafmögnuðum, eru línurnar rauðar.

Til vinstri við stýrið eru svo þrír E-takkar. Á einum hnappinum stendur Electric en sé stutt á hann notar jeppinn eingöngu rafmagn fyrstu 34 kílómetrana. Hybrid-takkinn velur rafmagnið fram yfir bensínið þar til rafhlaðan, sem er undir aftursætum bílsins, er komin niður í ákveðin hleðslumörk, og skiptir þá yfir í bensínið, auk þess sem bensínið gefur viðbótarkraft þegar auka þarf hraðann skyndilega. Þriðji takkinn, E-Save, notar bensínið eingöngu og sparar rafmagnið til betri tíma, þegar þig langar til dæmis að læðast hljóðlega inn í skógarrjóður eftir langan bíltúr.

Framleiðir rafmagn á ferð

Wrangler 4xe framleiðir rafmagn inn á rafhlöðuna þegar hemlað er og þegar bíllinn er í fjórhóladrifinu, en einnig er hægt að ýta á „B-takkann“ svokallaða sem er að finna í flestum raf- og tengiltvinnbílum. Þá framleiðir bíllinn meira rafmagn á ferð en ella og heldur við þegar fæti er lyft af bensíngjöf.

Rafmagnið endist eins og fyrr sagði rétt um 30 kílómetra leið, og þeir sem hafa aðstöðu til að hlaða heima og í vinnu ættu því að geta notað bílinn í miðri viku á rafmagninu einu saman ef þeir eru duglegir að stinga í samband. Tvo og hálfan tíma tekur að fylla batteríið í hraðhleðslu, en allt að tólf tíma í heimahleðslu.

Gott viðmót upplýsingakerfis

Ég vil hrósa upplýsingakerfinu í miðju mælaborðsins sérstaklega. Mér fannst viðmótið mjög aðgengilegt, gott og vel hannað, og umgjörðin utan um skjáinn vel frágengin. Það er einmitt eitt af því sem einkennir bílinn að utan og innan hve vel hann er „rammaður inn“ og frágenginn, þó að hann haldi líka í gróft og jeppalegt yfirbragð.

Bílinn er það hár að maður þarf eiginlega að grípa í handfang til að hífa sig upp í sætið, en það gerir bílinn bara meira jeppalegan. Leðursætin eru sérlega þægileg og aksturinn verður ánægjulegri fyrir vikið.

Rubicon Track Lok-driflæsingarnar að framan og aftan og hátt og lágt drif hjálpar allt til við að koma bílnum yfir hvaða ójöfnur sem er. Þá er hægt að ýta á einn takka til að aftengja jafnvægisstangirnar.

Pláss í skotti er frekar lítið og leggja þarf aftursætin niður til að koma með góðu móti inn golfsetti, svo dæmi sé tekið. Útsýni í bílnum er ágætt, þrátt fyrir að framrúðan sé frekar lítil.

Hægt er að breyta bílnum í opinn blæjubíl, þ.e. það er hægt að taka af honum hurðirnar og toppinn, og láta þannig loftið leika um hárið eins og í bandarískri Hollywood-mynd.

Farþegar rúmast vel í bílnum, bæði fram í og aftur í, og fóta- og höfuðpláss er nægt. Hanskahólf er lítið og pjáturslegt og tvö hólf eru fyrir drykki fram í og tvö aftur í – í niðurfellanlegri brík í miðju.

Hiti er í stýri og sætum og hljóðkerfið er dúndrandi gott.

Jeep Wrangler Rubicon er hörkuskemmtilegur bíll sem ég hafði mikla ánægju af að aka um inni í borg og utan hennar. Þetta er bíll sem hentar sérlega vel fyrir fólk sem vill vera til í hvað sem er hvenær sem er.

Jeep Wrangler Rubicon 4xe

» Árgerð 2021

» 2,0L Turbo, Plug-in Hybrid

» 8 gíra sjálfskiptur

» Fjórhjóladrifinn

» 375 hestöfl og 637 Nm

» 0-100 km/klst. á 6 sek.

» CO2 losun 94 g/km

» Rafdrægni 42 km

» Meðaleyðsla 4,1 l/100 km

» Eigin þyngd 2.334 kg

» Farangursrými 548 til 1.059 lítrar.

» Umboð: ÍSBAND

» Grunnverð: 9.490.000 kr.

» Verð eins og prófaður 10.780.000 kr.

Farþegar rúmast vel í bílnum, bæði fram í og aftur …
Farþegar rúmast vel í bílnum, bæði fram í og aftur í, og fóta- og höfuðpláss er nægt.
Leðursætin eru sérlega þægileg og aksturinn ánægjulegri fyrir vikið.
Leðursætin eru sérlega þægileg og aksturinn ánægjulegri fyrir vikið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Hestöflin 375 og 673 Nm tog eru vitnisburður um að …
Hestöflin 375 og 673 Nm tog eru vitnisburður um að orkuna skortir ekki.
Viðmót upplýsingakerfisins er mjög aðgengilegt, gott og vel hannað.
Viðmót upplýsingakerfisins er mjög aðgengilegt, gott og vel hannað. mbl.is/Kristinn Magnússon
Pláss í skotti er frekar lítið og leggja þarf aftursætin …
Pláss í skotti er frekar lítið og leggja þarf aftursætin niður til að koma með góðu móti inn til dæmis golfsetti. mbl.is/Kristinn Magnússon
Bíllinn kemst yfir nánast hvaða torfærur sem er en er …
Bíllinn kemst yfir nánast hvaða torfærur sem er en er á sama tíma lipur og þægilegur í akstri á malbikinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »