Er bíllinn þinn klár fyrir veturinn?

Vetrarfærð í Reykjavík.
Vetrarfærð í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar vita það allra þjóða best að ganga verður úr skugga um að bíllinn sé í góðu ásigkomulagi áður en vetur gengur í garð.

Bæði þarf að leita leiða til að vernda bílinn gegn tjöru og alls kyns óhreinindum sem fylgja vetrarakstri en líka tryggja að bíllinn sé öruggur í umferðinni og að ekki vanti réttan búnað til að bregðast við ef eitthvað kemur upp á.

Rúnar Sigurjónsson.
Rúnar Sigurjónsson. mbl.is

Rúnar Sigurjónsson er menntaður vélvirki, mikill bílaáhugamaður og vörustjóri hjá Skeljungi. Hann segir fyrst af öllu þurfa að skoða ástand hjólbarða og setja bílinn á vetrardekk ef við á.

„Ef um er að ræða notuð dekk þarf að vera tryggt að þau muni endast út veturinn og fullnægi kröfum s.s. um mynsturdýpt,“ segir hann.

„Einnig er mikilvægt að athuga hvort allar olíur og vökvar séu í lagi. Þeir sem þekkja vel á bílinn sinn geta gert þannig skoðun sjálfir en annars gæti þurft að heimsækja bifvélavirkja enda í sumum tilvikum bæði erfitt að komast að áfyllingum og mælingum og stundum þarf að nota sérhæfð verkfæri. Ekki er hægt að treysta fullkomlega á skynjara og viðvörunarkerfi sem eru í mörgum nýjum bílum og eiga að vara við ef olíum eða vökvum er ábótavant.“

Bílinn ekki eins samvinnuþýður á veturna

Rúnar rak á sínum tíma bifvélaverkstæði þar sem var boðið upp á sérstakan skoðunarpakka fyrir veturinn þar sem m.a. var athugað hvort þörf væri fyrir nýjan rafgeymi eða nýjar perur.

„Það er góð regla að gera ástandsskoðun á bílnum fyrir veturinn og getur fagmaður t.d. komið auga á ef leiðslur leka eða ef t.a.m. er komið gat á gúmmí á spindilkúlu sem hætt er við að geti orðið að stóru vandamáli um miðjan vetur,“ útskýrir hann.

„Ef stutt er í tímareimaskipti ætti að nota tækifærið á haustin til að skipta henni út. Veturinn er erfiðasti tíminn fyrir tímareimina og ef lítið er eftir af líftíma hennar gæti hún orðið til vandræða í kuldanum og þá betra að setja nýja tímanlega.“

Um ástand rafgeymisins segir Rúnar að hann haldi minni hleðslu í frosthörkum og kannist margir við að erfiðlega gangi að ræsa bílinn eftir kalda nótt.

„En jafnvel ef tekst að koma bílnum í gang með smá átaki þá er gamall og lélegur rafgeymir að skaða rafkerfi bílsins smátt og smátt. Miklar sveiflur eru í orkunni sem berast frá rafgeyminum inn á rafkerfið og getur m.a. valdið því að startarinn verður fyrir of miklu álagi og hitni of mikið og að bilanir geti komið fram í tölvubúnaði.“

Kringlumýrarbraut í vetrarbúningi.
Kringlumýrarbraut í vetrarbúningi. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki gleyma að spúla undirvagninn

Með vélbúnað, dekk og ljós í lagi er tímabært að huga að ytra byrði bílsins. Segir Rúnar mjög mikilvægt að bóna bílinn vel fyrir vetrarmánuðina og ekki dugi til að heimsækja sjálfvirka bílaþvottastöð.

„Það þarf að þrífa og bóna bílinn með gamla laginu til að lakkið fái einhverja vernd gegn ágangi seltu og óhreininda. Þá gerir mikið gagn að bera vatnsfælandi efni á borð við Umbrello á framrúðuna svo að snjór, ísing og rigning loði síður við.“

Rúnar mælir líka með því, fyrir þá sem vilja vernda lakkið enn meira, að fjárfesta í svk. keramíkhúðun hjá sérhæfðu verkstæði. Segir hann lakkið á bílum almennt ekki eins sterkbyggt og það var áður fyrr og að húðunin veiti töluverða vörn.

„Þar með er ekki endilega sagt að eftir húðun þurfi ekki lengur að þrífa og bóna bílinn, en vörnin er til mikilla bóta.“

Brýnir Rúnar einnig fyrir lesendum að gleyma ekki að þrífa undirvagninn.

„Besta leiðin til að verja undirvagn bílsins gegn tæringu og skemmdum er að spúla reglulega burtu óhreinindin. Sumar sjálfvirkar bílaþvottastöðvar bjóða upp á undirvagnsþrif og einnig má fara með bílinn á bílaþvottastöð þar sem hann er settur á lyftu og undirvagninn spúlaður, segir Rúnar og bætir við:

„Að mínu mati er lágmark að hreinsa undirvagninn einu sinni eða tvisvar yfir veturinn og svo aftur að vori. Þetta hef ég sjálfur gert við mína bíla og hefur hjálpað til að halda þeim í góðu ástandi.“

Ítarlegra viðtal við Rúnar má finna í nýútkomnu Bílablaði Morgunblaðsins.

mbl.is