Vann í 75 ár hjá sama fyrirtækinu

Bryan Webb.
Bryan Webb. Ljósmynd/BBC

Níræður bifvélavirki í Gloucester-héraði í Englandi hefur látið af störfum eftir 75 ár hjá sama fyrirtækinu. Bryan Webb hefur unnið hjá bílaframleiðandanum Vauxhall frá því árið 1946, þegar hann gekk inn á skrifstofur framleiðandans og spurði hvort eitthvað væri um laus störf.

Á miðvikudaginn var heiðruðu starfsfélagar Webbs með því að gefa honum skiptilykil í fallegri öskju.

Webb sagði við BBC af þessu tilefni að hann myndi sakna vinnunnar en viðurkenndi þó að hann hlakkaði til að fá sér tebolla í rólegheitum heima og að leggja sig yfir daginn.

Webb, þriðji frá vinstri, skömmu eftir að hann hóf störf …
Webb, þriðji frá vinstri, skömmu eftir að hann hóf störf hjá Vauxhall árið 1946. Ljósmynd/BBC

Vann sig upp

Webb hóf feril sinn sem lærisveinn í bifvélavirkjun áður en hann tók svo við fleiri störfum hjá Vauxhall. Siðustu 34 árin hjá fyrirtækinu var hann forstöðumaður ábyrgðardeildar.

Hann segir við BBC að þegar hann hafi orðið 65 ára hafi hann samþykkt að starfa í örfá ár í viðbót hjá Vauxhall. Þau ár urðu alls 25 á endanum.

Ég hef alltaf hugsað að á meðan maður héldi áfram að vinna þá héldi það manni ungur. Ef maður vinnur þá heldur það manni gangandi, það kemur þér á fætur á morgnana, segir Webb.

Forstjóri Vauxhall-umboðsins í Gloucester, Julian Bawdon, hóf störf árið 2008 og spurði Webb hve lengi hann vildi vinna hjá fyrirtækinu til viðbótar.

Ég sagði við hann að hann gæti unnið eins lengi og hann treysti sér til og hér erum við í dag eftir 75 ára þjónustu hans. Hann er skarpari en hver annar. Bryan er mikill karakter og við munum sakna þess að hafa hann í kringum okkur.

mbl.is