„Geggjaður bíll!“

EV6 steinliggur á veginum þegar tekið er á honum í …
EV6 steinliggur á veginum þegar tekið er á honum í beygjum. mbl.is/Árni Sæberg

Kia kynnti fyrr á árinu nýja hönnunarstefnu og lagði um leið línurnar fyrir rafbílaframleiðslu sína. Jepplingurinn EV6 er sá fyrsti af færibandinu og það er ljóst að með honum ætlar suðurkóreski framleiðandinn að setja markið hátt.

Blaðamanni bauðst nýverið að keyra Kia EV6 á vænum hraða um hraðbrautir Suður-Spánar og hlykkjótta vegi Snæfjallahryggs, Sierra de las Nieves, ofar strandborginni Marbella.

Fyrst ber að sjálfsögðu að nefna útlit bílsins, enda það fyrsta sem væntanlegur ökumaður kemst í kynni við. Eins og sjá má af myndum er EV6 afar sportlegur og ekki laust við að veki ákveðna „premium“-tilfinningu að berja hann augum. Manni dettur heldur ekki strax í hug að hér sé um að ræða bíl frá Kia.

Þar á kannski hlut að máli sú staðreynd að bílinn prýðir nýtt merki framleiðandans, sem óhætt er að segja að sé mun fegurra en það gamla. Hæfir það bílnum vel enda virðist hvort tveggja, bíll og merki, eiga að vera klassa ofar því sem hingað til hefur streymt út úr Seúl. Eða með öðrum orðum: EV6 er einfaldlega hrikalega flottur á velli. En það er bara skoðun þess sem þetta skrifar og sitt gæti hverjum sýnst.

Nýtt merki Kia prýðir bílinn.
Nýtt merki Kia prýðir bílinn. mbl.is/Árni Sæberg

Skipt á milli tveggja borða

Þá er að setjast inn í farartækið. Maður af meðalhæð þarf þá hvorki að teygja sig upp né niður, enda veghæðin góðir 17 sentimetrar. Mælaborðið er afar stílhreint, skjár hvílir bak við stýrið og annar hægra megin í beinu framhaldi. Undir honum er svo að finna stjórnborð fyrir hitastýringu annars vegar og hins vegar hljóðstyrk, leiðsagnarkerfi og annað.

Skipt er á milli þessara tveggja stjórnborða með einni snertingu og þannig komist hjá því að hafa ótalmarga takka hvern ofan í öðrum. Um leið finnst mér þessi lausn þægilegri en sú að hafa bókstaflega allt á skjá fyrir miðju bílsins, sem getur þá krafist þess að ökumaður taki augun meira af veginum. Þetta vandist fljótt, þótt vissulega hafi það framan af gerst einu sinni eða tvisvar að blaðamaður lækkaði hitann í stað þess að lækka í tónlistinni.

Ekki þörf á Apple CarPlay

Viðmótið er almennt mjög þýtt, öll svörun hröð og stýrikerfið einfaldlega „meikar sens“, en það atriði virðist stundum vefjast fyrir ákveðnum bílaframleiðendum. Svo einfalt var það að ekki reyndist þörf á að notast við Apple CarPlay-möguleikann, sem blaðamaður grípur annars oft til – þegar þess er kostur – til að skauta framhjá tregri og torskilinni valmynd bíla. Einn ljóður var þó á þessu annars lipra viðmóti.

Stundum virtist bíllinn hafa gleymt því að ég var með blátannartengingu í gangi síðast þegar ég var í honum, þegar ég settist inn í hann að nýju. Í stað nýjustu plötu GusGus, sem bíllinn gerði annars vel að merkja afar góð skil, fékk ég að heyra einhverja skruðninga af langbylgjunni. Hið gamla góða AM var þá næsta stilling í afþreyingarhringekjunni. En maður leysti fljótt úr því.

Stjórnborðið fyrir miðju er í raun tvískipt og sýnir aðra …
Stjórnborðið fyrir miðju er í raun tvískipt og sýnir aðra valmynd með einni snertingu. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki lengi í hundraðið

Nú, svo er tekið af stað. Ein sekúnda. Tvær sekúndur. Þrjár sekúndur. Hálf sekúnda til viðbótar. Og bíllinn er kominn á hundrað kílómetra hraða. Undir spænsku sólinni. Þökk sé 585 hestöflum.

Vissulega má aðeins finna þessi 585 hestöfl í kröftugustu útgáfu bílsins. EV6 fæst nefnilega í þremur útgáfum. Fyrst er það grunnútgáfan Style, svo er það Luxury, og loks GT-línan. Í fyrrnefndu útgáfunum tveimur má síðan velja annars vegar á milli tveggja rafhlöðustærða og hins vegar á milli aftur- eða fjórhjóladrifs.

Og það var grunnútgáfan, með afturhjóladrifi og stærri rafhlöðunni, sem blaðamaður fékk að reyna við íslenskar aðstæður fyrr í mánuðinum. Sú er aðeins lengur í hundraðið, stefni menn á þann hraða, eða 7,3 sekúndur. Munurinn á útgáfunum er greinilegastur þegar allt er gefið í botn úr kyrrstöðu. Þar er GT-línan á við góðan rússíbana. En ef sá kraftminni er þegar á einhverri ferð, eins og til dæmis þegar komið er út úr hringtorgi, þá lætur hann ótrúlega vel finna fyrir sér þegar honum er gefið inn.

Fljótur að fylla upp í bilið

Ef ökumaður er fyrst og fremst vanur hefðbundnum og tiltölulega ódýrum jarðefnaeldsneytisbílum, þá eru viðbrigðin töluverð. Vænlegt bil, sem opnast á milli bíla einhverri vegalengd framar á Miklubrautinni, og maður hefði eitt sinn horft löngunaraugum til, er maður fljótur að fylla á öflugum rafbíl eins og þessum.

Og EV6 steinliggur á veginum þegar tekið er á honum í beygjum. „Eins og majónesklessa,“ hafði farþegi á orði, þar sem ekið var um hlykkjóttan veg í útjaðri höfuðborgarinnar. Þyngd bílsins hefur þar nokkuð að segja, en hann vegur rúm tvö tonn.

Fjöðrunin er aftur á móti framúrskarandi, sem gerir það að verkum að þrátt fyrir þyngdina er hann alls ekki þunglamalegur. Þvert á móti er stýrið létt og bíllinn bæði snarpur og snar í snúningum, en beygjuradíusinn var til að mynda minni en blaðamaður hafði búist við.

Stuttur spölur var tekinn á malarvegi og var varla að finna að maður væri kominn af malbikinu, svo mjúkur var hann í akstrinum. Ánægjulegt var sömuleiðis að finna, í öllum akstrinum, að veghljóð var nær ekkert. Ljóst er að bíllinn er vel hannaður og einangraður upp á það að gera.

Bíllinn opnast upp á gátt og auðvelt er að fella …
Bíllinn opnast upp á gátt og auðvelt er að fella aftursætin niður með til þess gerðum hlerum. mbl.is/Árni Sæberg

Þráðlaus hleðsla staðalbúnaður

Aftur að innra byrðinu. Grunnútgáfan er stílhrein að innan og æpti ekki á blaðamann að hann væri að keyra ódýrustu útgáfu bílsins, jafnvel þótt hann hefði þegar setið í þeirri dýrustu. Þá er í grunnútgáfunni að finna ýmsan aukabúnað sem sumum þykir eflaust ekki sjálfsagður, á borð við smekklega þráðlausa símahleðslustöð og bakkmyndavél sem er afar björt og skýr.

Sömuleiðis varaði bíllinn mig við þegar léttur jakki var skilinn eftir aftur í er ég hugðist yfirgefa farartækið. Hafði hann þá áhyggjur af því að þarna gæti annaðhvort verið varningur sem ég væri að gleyma eða jafnvel farþegi. Búnaður sem gæti einn daginn bjargað lífi. Og alveg örugglega einhverjum mjólkurvörum. Í dýrari útgáfum bætist svo við ýmis konar munaður á borð við 360 gráða myndavél og rafstýrð sæti.

Hlerar fella niður aftursætin

Farþegar í aftursætum fá yfrið nóg fótapláss eins og blaðamaður fékk að reyna. Gildir þá einu þótt framsætið sé aftarlega. Bíllinn er þó eilítið lágur að aftan og miklu hærri menn en ég, sem tel 180 sentimetrana, gætu viljað tylla sér frammi í frekar. En þeir missa um leið af þeim tiltölulega sjaldgæfa munaði, að geta hallað aftursætunum aftur og um leið fengið sér góða kríu.

Þetta form bílsins hefur líka áhrif á farangursrýmið, sem er kannski ekki ýkja stórt. Rúmar það ríflega 500 lítra, eða á við til dæmis X3-jepplinginn frá BMW. Auðvelt er þó að hlaða í rýmið og opnar rafmótor það vel upp á gátt þegar stutt er á hnapp.

Að sama skapi eru hlerar sitt hvorum megin í farangursrýminu sem fella niður aftursætin um leið og togað er í þá. Stækkar plássið þá til muna, enda óvenju mikið rými aftur í eins og áður var vikið að. Einnig má opna lúgu á milli aftursætanna til að stinga þar inn skíðum eða öðrum ílöngum og mjóum farangri.

EV6 fæst í þremur útgáfum, Style, Luxury og GT-Line. Þá …
EV6 fæst í þremur útgáfum, Style, Luxury og GT-Line. Þá má einnig velja á milli fjór- og afturhjóladrifs og kjósa sér hentuga rafhlöðustærð. mbl.is/Árni Sæberg

Stoppuðu og jusu bílinn lofi

Aftur að útlitinu. Það var ljóst að bíllinn vakti þónokkra athygli á þeim annars skamma tíma sem blaðamaður keyrði hann um suðvesturhornið.

Seint að kvöldi síðasta laugardags, þegar blaðamaður hafði numið staðar í stæði við fjölfarna götu, heyrði hann skyndilega hávær köll út undan sér. Í ljós kom að skammt frá, á götunni, höfðu nokkrir ungir drengir stöðvað förina á sínum bensínknúna jeppa til þess eins að dást að þessu greinilega framandi farartæki.

„Geggjaður bíll!“ tjáðu þeir blaðamanni, sem sagði þeim aðspurður að hann hefði ekki keypt gripinn heldur væri hann í reynsluakstri. Fleiri aðdáunarorð fylgdu, auk spurningar sem hér verður ekki talin prenthæf, en verður þó samt sem áður talin bílnum til tekna.

Úr 10-80% á átján mínútum

Þá að dræginu, sem flestir renna yfirleitt augunum til þegar um rafbíla er að ræða. Lengst dregur afturhjóladrifna útgáfan með stærri rafhlöðuna, eða 528 kílómetra samkvæmt WLTP-staðlinum. Skemmst dregur fjórhjóladrifna útgáfan með minni rafhlöðuna, eða 371 kílómetra.

Allar útgáfur bílsins geta tekið á móti allt að 250kW DC-hleðslu, eða nóg til að færa rafhlöðuna úr 10% og upp í 80% á aðeins átján mínútum. Gildir þá einu hvort um sé að ræða stærri rafhlöðuna eða þá minni. AC-hleðsla, upp á 11 kW, hleður minni rafhlöðuna úr 10% í 100% á tæpum sex tímum. Stærri rafhlaðan þarfnast rúmlega sjö klukkustunda til að fara úr 10% í 100%.

Þrenns konar akstursstillingar eru í boði; eco, normal og sport. Glöggt má finna muninn á þeim við aksturinn og tekur drægnispá bílsins með í reikninginn hvaða stillingu ökumaður hefur valið. Fjórða stillingin er einnig möguleg, sú nefnist snow og er eins og gefur að skilja ætluð vetraraðstæðum. Ekki gafst færi til að reyna hana í almennilegri hálku en blaðamaður hefur heyrt vel af henni látið þegar svo ber undir.

Bíllinn er hlaðinn að aftan og er það fljótgert ef …
Bíllinn er hlaðinn að aftan og er það fljótgert ef ökumaður finnur góða hleðslustöð. mbl.is/Árni Sæberg

Stillanlegt viðnám í akstrinum

Einnig má stilla hversu mikið viðnám bíllinn veitir þegar fóturinn er tekinn af bensíngjöfinni. Allt frá „0“, þar sem ekkert viðnám er gefið og bíllinn rennur einfaldlega áfram nema stigið sé á bremsuna, og upp í það mikið viðnám að aldrei þarf að stíga á bremsuna nema eitthvað mikið liggi við. Reynsla blaðamanns var sú að eco-stillingin með sem mestu viðnámi gaf sparneytnasta aksturinn. Ef spæna átti malbikið fannst mér þægilegast að hafa viðnámið í núlli og nota þá bremsuna á hefðbundnari máta.

Eins og áður sagði er bíllinn sá fyrsti af færibandinu, það er sá fyrsti sem byggður er ofan á nýjum undirvagni sem nefnist E-GMP og er sérstaklega hannaður fyrir rafbíla, ólíkt fyrri rafbílum framleiðandans. Nefna má að sami undirvagn er undir Ioniq 5 frá Hyundai, en hann verður nýttur í næstu kynslóðir rafbíla frá Kia og við því er búist að allt að sex aðrir bílar fylgi í kjölfarið, af ólíkum stærðum og gerðum.

Mikils vænst af nýja bílnum

En af þeim sökum er auðvitað mikils vænst af EV6. Hann markar brautina, eða slær tóninn, fyrir það sem koma skal. Maður fær það vissulega á tilfinninguna þegar bíllinn er tekinn til aksturs. Hér hefur framleiðandinn ekki viljað slá neina feilnótu. Og það gerir hann svo sannarlega ekki. Það má kannski bara taka undir með strákunum.

Kia-umboðið á Íslandi frumsýnir EV6 á fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »