Vatt með söluumboð fyrir BYD

BYD-sendibílarnir eru nú á leið til landsins.
BYD-sendibílarnir eru nú á leið til landsins.

Vatt ehf., sem er dótturfélag Suzuki bíla hf. er komið með söluumboð fyrir BYD á Íslandi. Hyggst félagið fyrst um sinn selja sendibíla frá BYD af gerðunum T3 og T6 og er fyrsta sendingin á leiðinni til landsins. 

Í fréttatilkynningu frá Vatt segir að BYD hafi aldarfjórðungs reynslu af þróun á rafhlöðum og sé einn af leiðandi framleiðendum á rafknúnum ökutækjum í heiminum. Sonja G. Ólafsdóttir, markaðsstjóri Vatt ehf., segir í tilkynningunni að saga BYD-fyrirtækisins sé ótrúleg og öðruvísi en annarra bílaframleiðanda.

„BYD er eini „raunverulegi“ bílaframleiðandinn á markaðnum sem stendur að baki háþróaðri rafhlöðutækni, jafnt fyrir rafknúin ökutæki eins og fólksbíla, sendibíla, flutningabíla, rútur og tæknilausnir fyrir kláfa og einteina lestakerfi. Ein mesta rafbílavæðing í heimi hefur orðið á Norðurlöndum og BYD smellpassar inn í þá þróun sem er að verða í þessum málum í Evrópu,“ segir Sonja.

„Við teljum góðar líkur á því að BYD nái einnig góðri fótfestu hér á Íslandi sem á öðrum mörkuðum á Norðurlöndum þar sem er áhugi og þörf fyrir rafknúin ökutæki eykst með hverjum mánuðinum,“ segir Sonja.

Í samstarfi við RSA

BYD Company Ltd. er eitt af stærstu fyrirtækjum í Kína í einkaeigu, en það er skráð fyrirtæki í kauphöllunum í Hong Kong og Shenzhen. 

Í tilkynningunni kemur einnig fram að norska fyrirtækið RSA verði innflytjandi BYD-rafsendibílanna á Norðurlöndunum, og hefur RSA og BYD unnið í sameiningu að uppbyggingu og áætlanagerð fyrir sölu á bílum, þjónustu á eftirmarkaði og varahlutasölu. Segir í tilkynningunni að mörg hundruð rafsendibílar af T3 og T6-gerð hafi verið afhentir í Noregi. 

„Við erum orðin mjög spennt að byrja selja þessa flottu og vönduðu BYD sendibíla í Vatt, sem selur nú þegar Maxus og Aiways folk og- sendibíla,“ segir Sonja að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina