Hulunni svipt af Defender 130

Nýr Land Rover Defender 130.
Nýr Land Rover Defender 130. Ljósmynd/Aðsend

Land Rover í Bretlandi kynnti í gær Defender 130 sem er fjórða og nýjasta útgáfa bílsins á eftir Defender 90, Defender 110 og Defender Hard Top.

Kemur fram í tilkynningu að hinn nýi Defender 130 sé 34 sentímetrum lengri að aftan en Defender 110 og fáanlegur í SE, HSE, X-Dynamic og X útgáfum, auk fyrstu útgáfu (First edition) sem verður búin sérstökum séreinkennum í ytra útliti og í farþegarýminu ásamt því að staðalbúnaður verður aukinn í tilefni frumsýningarinnar.

Hægt er að panta Land Rover Defender 130 með sætum fyrir allt að átta farþega og er bíllinn búinn allri nýjustu tækni framleiðanda á sviði drif- og öryggisbúnaðar. 

Ljósmynd/Aðsend

„Í farþegarými verður m.a. boðið upp á nýja liti og nýtt efnisval og geymsluhólf fyrir hvern og einn farþega í öllum þremur sætaröðunum til að koma til móts við farþega í hverju sæti ásamt greiðu aðgengi að rúmgóðri þriðju sætaröðinni og birtu gegnum tvískipt glerþak,“ segir í tilkynningunni.

Dæmi um annan búnað eru m.a. loftpúðafjöðrun, 90 cm vaðgeta, 11,4“ Pivi Pro snertiskjár með fjölmörgum upplýsingum og vali um birtingamöguleika. Einnig er hiti í öllum sætum, fjögurra kerfa loftræsting, Meridian hljóðkerfi og allt að 2.291 rúmlítra farangursrými í átta sæta bílnum.

Þá segir að Land Rover bjóði Defender 130 með kraftmiklum og hagkvæmum vélum, þar á meðal P300 og P400 sex strokka Ingenium bensínvélar með mildri tvinntækni (MHEV) og D250 og D300 sex strokka Ingenium dísilvélar. Auk þess eru allar útgáfur Defender 130 búnar aldrifi (iAWD) og átta þrepa ZF sjálfskiptingu, þar sem iAWD-kerfið stjórnar sjálfkrafa afköstum og dreifingu vélaraflsins til fram- og afturhjólanna.

Bíllinn er mjög rúmgóður og með sætum fyrir allt að …
Bíllinn er mjög rúmgóður og með sætum fyrir allt að átta farþega (2+3+3). Ljósmynd/Aðsend
mbl.is