Tíu ára gat í þekkingu og þjálfun

Kappaksturshermir prófaður á Bílamessu. Bankahrunið hafði djúpstæð áhrif á íslenska …
Kappaksturshermir prófaður á Bílamessu. Bankahrunið hafði djúpstæð áhrif á íslenska bílamarkaðinn sem síðan hafði áhrif á þekkingarstig íslenskra bílaverkstæða. Greinin þarf núna að fylla með hraði upp í tíu ára gat. Ljósmynd/Stilling

Þátttakendur drukku í sig þekkinguna á Bílamessu 2022 sem Stilling efndi til í Hörpu í síðasta mánuði. Viðburðurinn var öllum opinn en þó einkum ætlaður fagfólki á sviði bílaviðhalds og -viðgerða, og kom fjöldi erlendra sérfræðinga til landsins til að flytja erindi um nýjustu vörur og lausnir. Upphaflega stóð til að halda Bílamessuna árið 2020 á 60 ára afmæli Stillingar en kórónuveirufaraldurinn varð þess valdandi að fresta þurfti viðburðinum í tvö ár.

Júlíus Bjarnason er framkvæmdastjóri Stillingar og segir hann að starfsfólk bílaverkstæða á Íslandi sé byrjað að reka sig á að víða vantar upp á rétta þekkingu og tækjabúnað til að gera við nýjustu bílana. „Ástæðan er sú að mikil röskun varð á innflutningi bíla árið 2008 og nánast enginn innflutningur á nýjum bílum í um það bil sex ár þar á eftir,“ útskýrir Júlíus. „Þegar innflutningur á nýjum bílum tekur aftur við sér er það ekki síst vegna endurnýjunar bílaleiguflotans og hafa bifreiðar bílaleiganna verið þjónustaðar af þeirra eigin verkstæðum, á meðan nýir bílar einstaklinga hafa enn verið í ábyrgð og viðhaldi sinnt af umboðunum. Hefur því liðið röskur áratugur þar sem sjálfstæðu verkstæðin voru fyrst og fremst að gera við bíla sem komu á götuna fyrir 2008.“

Júlíus bendir á að á þeim áratug sem um ræðir hafi átt sér stað örar framfarir sem hafi gert bíla öruggari og sparneytnari en um leið gert viðgerðir flóknari. Allstórt bil hafi myndast í þekkingu og þjálfun almennra bifvélavirkja. „Verkstæðin hafa mörg ekki haft tækifæri eða tíma til að halda í við þessar breytingar. Sum hafa vissulega sinnt sinni símenntun og endurnýjun tækjabúnaðar mjög vel en obbinn er allt í einu að átta sig á því að mjög breyttir tímar eru skyndilega gengnir í garð.“

Júlíus Bjarnason
Júlíus Bjarnason

Þynnri olíur og tölvan alltaf að fylgjast með

Sem dæmi um breytingarnar sem orðið hafa á rétt röskum áratug má nefna að fullkominn tölvubúnaður stýrir æ fleiri kerfum í nýjum bílum og getur jafnvel einfalt viðhald kallað á að tengjast bílatölvunni og gera þar viðeigandi stillingar og skráningar. Vélbúnaðurinn hefur líka tekið breytingum og kallar á annars konar vörur, og segir Júlíus að margar nýjar vélar þurfi mun þynnri smurolíu en algengt var að nota fyrir bankahrun. „Sumar þessara véla þurfa olíur sem eru svo þunnar að þær eru nánast eins og vatn og ef of þykk olía er sett á þessar vélar þá hreinlega eyðileggjast þær,“ útskýrir hann. „Þá verður oft að stinga búnaði í samband við bílatölvuna þegar skipt er um olíu, og núlstilla mælinn í tölvunni. Annars er hætt við að eigandi bílsins geti lent í vanda seinna meir ef bilun kemur upp á ábyrgðartíma og gæti litið út eins og hann hefði vanrækt olíuskiptin.“

Júlíus nefnir annað gott dæmi úr erindi fulltrúa hemlaframleiðandans Brembo sem hélt vinnustofu á Bílamessunni. „Í viðleitni til að gera bíla léttari eru margir hemladiskar frá Brembo núna gerðir annars vegar úr stálplatta sem hemlaklossarnir leggjast á, og svo hatti úr áli sem festist við nafið. Ef felguboltarnir eru hertir með röngum álagskrafti, t.d. með of aflmiklum loftlykli, getur álið gefið eftir, diskurinn skekkst og eyðilagst.“

Ætla að halda námskeið víðs vegar um landið

Góðu fréttirnar eru þær að greinin hefur vaknað til vitundar um vandann og segir Júlíus að mjög mikill áhugi sé hjá verkstæðum hringinn um landið á að gera bót á. Vinnur Stilling núna að því, í samvinnu við sína framleiðendur, að skipuleggja námskeið víða um land út næsta ár þar sem erlendir sérfræðingar munu heimsækja helstu þéttbýliskjarna til að þjálfa og fræða.

Vita verkstæðin að þau verða að vera með á nótunum og að þróunin á bara eftir að verða örari. „Þá hefur orðið vitundarvakning á meðal neytenda um að ekki þarf að versla við þjónustuverkstæði bílaumboðanna til að viðhalda verksmiðjuábyrgð. Þökk sé svokallaðri BER-reglugerð er verksmiðjuábyrgðin áfram í gildi svo fremi að viðgerðir og viðhald samræmist stöðlum framleiðandans og notaðir varahlutir framleiddir samkvæmt réttum stöðlum,“ segir Júlíus og bætir við að þriggja ára verksmiðjuábyrgð fylgi þeim varahlutum sem Stilling selur. „Gott er að hafa BER-reglurnar og símenntun bifvélavirkja í huga bæði hvað varðar það að viðhalda góðri samkeppni á markaði en líka hvað varðar aðgengi fólks í dreifðari byggðum að vandaðri þjónustu fyrir nýja bíla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »