Nýr Kia frumsýndur á morgun

Nýr Kia Niro verður frumsýndur á morgun.
Nýr Kia Niro verður frumsýndur á morgun. Ljósmynd/Kia

Nýr Kia Niro verður frumsýndur um land allt á morgun frá klukkan 12-16.

Um er að ræða þriðju kynslóð Niro, en hann hefur verið einn vinsælasti bíllinn frá Kia á Íslandi og í heiminum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Nýi Kia Niro er í boði í þremur útfærslum; sem hreinn 100% rafbíll með allt að 460 kílómetra drægni á rafmagninu, með tengiltvinntækni (e. Plug-in Hybrid) og tvinntækni (Hybrid).

Kia býður þá upp á Greenzone akstursstillingu sem sjálfkrafa færir akstur í tengiltvinn- og tvinn útfærslunum í hreinan EV rafakstur þegar á við, í þeim tilgangi að auka sjálfbærni möguleika bílsins.

Breytt hönnun

Þá segir að hönnunin á nýja Kia Niro sé töluvert frábrugðin fyrri gerð. Er hún framúrstefnuleg og ber að mörgu leyti keim af HabaNiro hugmyndabílnum sem kynntur var árið 2019. 

„Framhluti Niro er mikið breyttur með nýju og fallega hönnuðu grilli og áberandi LED ljósum sem gefa bílnum voldugt útlit. Afturhluti bílsins er dínamískur með fallega hönnuðum LED ljósum og hárri gluggalínu.“

„Bíllinn er stærri en áður og býður upp á meira pláss. Farangursrýmið er 451 lítrar eða allt 15 lítrum stærra en áður. Yfirbygging Niro er gerð úr sjálfbærum efnum með framtíðarsýn Kia í fyrirrúmi,“ segir í tilkynningu frá Öskju.

Þá segir að Niro verði búinn öllum nýjustu aksturs- og öryggiskerfum Kia.

mbl.is