30% aukning í sölu nýrra fólksbíla

Í desember var mest selda tegundin Tesla með 321 selda …
Í desember var mest selda tegundin Tesla með 321 selda fólksbíla. AFP/Lillian Suwanrumpha

Sala nýrra fólksbíla í desember jókst um 17,9% miðað við desember í fyrra, en alls voru skráðir 1458 nýir fólksbílar nú en voru 1237 í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu en samkvæmt tölfræði þeirra hefur sala ársins 2022 aukist um 30,5% miðað við sölu nýrra fólksbíla árið 2021.

Árið 2022 seldust alls 16.685 nýir fólksbílar samanborið við 12.789 nýja fólksbíla í fyrra. 

Sala einstaklinga jókst um 13,2%

Til einstaklinga seldust 839 nýir fólksbílar í desember samanborið við 665 á sama tíma í fyrra og er því aukning í sölu um 26,2% milli ára. Sala ársins til einstaklinga voru 6.907 nýir fólksbílar en á árinu 2021 voru seldir 6.103 nýir fólksbíla og er því aukning milli ára upp á 13,2%.

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 287 nýja fólksbíla í desember í ár miðað við að hafa keypt 323 bíla í desember í fyrra. Sala ársins 2022 voru 2.123 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en á árinu 2021 voru seldir 2.090 nýir fólksbílar og er því örlítil aukning milli ára til almennra fyrirtækja eða um 1,5%.

329 fólksbílar seldust til ökutækjaleiga í desember samanborið við 237 á sama tíma í fyrra. Sala ársins í ökutækjaleigur voru 7.523 fólksbílar samanborið við 4.516 bíla á árinu 2021. Er það aukning um 66,6% milli ára.

Aukning í sölu á dísel- og rafmagnsbílum

„Hlutfall rafmagnsbíla er hæst þegar við skoðum heildarsölu eftir orkugjöfum á árinu eða 33,5%,“ segir í tilkynningunni.

Hlutfall rafmagnsbíla er hæst þegar við skoðum heildarsölu eftir orkugjöfum …
Hlutfall rafmagnsbíla er hæst þegar við skoðum heildarsölu eftir orkugjöfum á árinu eða 33,5%. Bílgreinasambandið

Tengiltvinnbílar koma þar á eftir með 22,6% af sölunni, hybrid er 17,8%, dísel er 14,2% og bensín er 11,9%.

Ef skoðað er breyting á sölu orkugjafa milli áranna 2022 og 2021 er aukning í sölu á dísel- og rafmagnsbílum, fólksbílar með hybrid sem orkugjafa stendur í stað milli ára, bensín- og tengiltvinnbílar eru að minnka hlutfall sölu milli ára. 

Tesla vinsælust

Í desember var mest selda tegundin Tesla með 321 selda fólksbíla, þar á eftir kemur KIA með 131 selda fólksbíla og þriðja mest selda tegundin í desember var MG með 108 fólksbíla skráða. 

Yfir árið var Toyota mest selda tegundin með 2.752 selda fólksbíla, KIA þar á eftir með 1.775 selda bíla og þriðja mest selda tegundin var Hyundai með 1.452 selda fólksbíla.  

mbl.is