Honda Civic er afar vel hannaður bíll og skemmtilegt leiktæki, að mati reynsluakstursmanns. Krafturinn er mikill og úti á vegunum líður bíllinn sem í lygnum straumi og skilar sínu afar vel.
Honda Civic er afar vel hannaður bíll og skemmtilegt leiktæki, að mati reynsluakstursmanns. Krafturinn er mikill og úti á vegunum líður bíllinn sem í lygnum straumi og skilar sínu afar vel. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Honda er þekkt fyrir frábærar bensínvélar sínar og þeir voru ef til vill seinir fyrir vikið í þróun díselvéla. Nú er Honda búið að framleiða einn helsta sölubíl sinn með díselvél, hinn knáa fólksbíl Civic.

Honda er þekkt fyrir frábærar bensínvélar sínar og þeir voru ef til vill seinir fyrir vikið í þróun díselvéla. Nú er Honda búið að framleiða einn helsta sölubíl sinn með díselvél, hinn knáa fólksbíl Civic. Bíll af árgerð 2012 var tekinn til kostanna, en hann er af níundu kynslóð Civic, sem fyrst kom á markað árið 1972. Hann er talsvert breyttur frá síðustu kynslóð – sem var líka orðin 6 ára gömul. Áfram er Civic með sportlegri bílum með sinn sérkennilega afturenda sem ekki öllum líkar. Bíllinn flokkast sem stallbakur með þessu formi og er með brattan afturenda og stóran afturhlera.

Djarft útlit

Ytri hönnun bílsins er framsækin og falleg og dropalagað formið gerir hann mjög rennilegan. Flestir halda að bíllinn sé þrennra dyra, en ekki fimm, þar sem handföngin fyrir afturhurðirnar sjást vart en þau eru ofarlega og aftast á hurðunum og gera þarf að þeim leit. Framendinn virðist liggja neðarlega en áhyggjur af því að reka nefið niður við hverja hraðahindrun reyndust óþarfar.

Civic er með talsvert áberandi vindkljúf að aftan sem færir bílnum enn meiri karakter. Staðsetning hans er þannig að úr baksýnisspeglinum skiptir hann afturrúðunni í tvennt og skerðir þannig útsýnið. Hefur það farið fyrir brjóstið á mörgum.

Nettur að utan – stór að innan

Að innan er Civic afar vel teiknaður og fallegur, pláss yfrið fyrir allt að fimm farþega og farangursrýmið er tæpir 500 lítrar. Það er mjög mikið fyrir bíl í þessum flokki. Mælaborðið er fallegt og hagnýtt og stafrænn hraðamælir efst á því, fyrir ofan stýri, er frábærlega staðsettur og gerir það að verkum að ökumaður þarf aldrei að taka augun af veginum. Breytilegur litur á grafíkinni sinn hvorum megin við hraðatöluna gefur til kynna hvort ekið er hagkvæmt, allt frá grænu til sterkblás litar og allt þar á milli. Ökumenn geta ekki annað en farið að aka eftir þessum ráðleggingum litanna og er það ágætt fyrir budduna.

Þó verður það að teljast erfitt að aka eingöngu sparakstur á Civic með þessa 2,2 lítra þrælöflugu díselvél. Hún er skráð fyrir 150 hestöflum og mögnuðu 350 Nm togi. Svona vopnuð er Civic hálfgert villidýr, svo mikið er aflið. Hann er ekki nema 8,5 sekúndur í hundraðið og er fyrir vikið mikið leiktæki. Ekki skemmir fyrir frábær fjöðrun bílsins en Civic hefur ávallt verið með frábæra akstureiginleika sem nú hafa bara batnað.

Mikið afl en lítil mengun

Ökumaður átti von á að finna vel fyrir þyngd stórrar díselvélarinnar á nefi bílsins en því var ekki að heilsa, lipurðin var einstök. Bílnum var talsvert ekið í langkeyrslu og þar var hann jafn ljúfur og innanbæjar. Vegna alls aflsins þurfti ekki mikið að hræra í góðri beinskiptingunni heldur var hann látinn malla í 6 gír og var hann þá á einkennilega lágum snúningi og hafði lítið fyrir hlutunum. Fyrir vikið var eyðsla hans lítil en þó töluvert frá uppgefinni tölu framleiðanda í langkeyrslu. Þrátt fyrir stærð og afl díselvélarinnar mengar hún ótrúlega lítið og gerir Civic leiðandi bíl hvað varðar að sameina mikla getu og litla mengun. Ef horft er til áreiðanleika og lágrar bilanatíðni Honda bíla sem og mikillar getu og lágrar eyðslu þessa bíls verður Honda Civic að teljast góður kostur nú sem fyrr. Sérstakt og sportlegt útlit hans ætti líka að höfða til margra.

finnurorri@gmail.com

Honda Civic endurspeglar framþróuninaI

Kraftmikill bíll og þíður

„Þetta er einhver skemmtilegasti bíll frá Honda sem ég hef kynnst enda hefur verið mikil og skemmtileg þróun í allri framleiðslu fyrirtækisins á undanförnum árum. Þetta er afskaplega þéttur og kraftmikill bíll og þíður í akstri. Reyndar erum við ekki komnir með bensínútgáfuna af bílnum til landsins en díselbíllinn er ákaflega skemmtilegur,“ segir Baldvin Erlingsson sölustjóri hjá Bernhard. „Honda Civic hefur mikið tog og því er vinnsla bílsins afar skemmtileg, hvort sem honum er ekið í borg eða úti á landi. Í bílapressunni í Evrópu að undanförnu hefur þessi bíll fengið mjög góða umsögn og yfirleitt alveg fullt hús stiga. Hið sam gildir um árekstrarprófanir; þar er Civic í sérflokki. Þá er bíllinn afar rúmgóður – en bæði er hægt að leggja sæti niður og hengja sessurnar upp. Þannig má segja, hvernig sem á málið er litið, að þetta sé virkilega flottur bíll.“