Börn sem hafa misst ástvin

Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðasókn.
Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðasókn. Sverrir Vilhelmsson

Stundum er fólki lagt á hjarta að koma góðum hlutum í verk.  Blaðamaður hafði fréttir af því að hópur fólks á vegum Vídalínskirkju í Garðabæ hefði farið upp í Kjós helgina 20-22 apríl til að dvelja þar í sumarbúðunum í Vindáshlíð og þau buðu með sér 30 börnum og unglingum sem höfðu misst foreldri eða systkin. Kærleikur, kraftur og von var yfirskrift helgarinnar.

Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðabæ og Heiðrún Jensdóttir sem er sjálfboðaliði og leiðtogi í kirkjustarfinu þar höfðu forgöngu um þessa kærleiksþjónustu.  Blaðamaður hitti þessar tvær konur að máli og Matthildi Bjarnadóttur trúabragðafræðing og guðfræðinema sem var sjálfboðaliði yfir helgina ásamt hópi fólks. Þær segja sumarbúðirnar hafa gengið vonum framar og hvetja alla þá sem eiga eiga eða þekkja til barna sem hafa mist ástvin að vera í sambandi við sig. Jafnframt leita þær að stuðningi til að halda áfram með verkefnið sem er hugsað sem jafningjaverkefni, þar sem börnin finna að þau eru ekki ein, fá kærleiksrík verkfæri til að halda áfram með líf sitt og tækifæri til að tjá sig um tilfinningar sínar sjálfum sér og öðrum til stuðnings. 

Missti son sinn

„Ég missti son minn Elvar Örn Baldursson 1.mars ári 2014 og hann lét eftir sig eina dóttur sem var þá 10 ára.  Þetta var gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna alla.  Við hjónin ákváðum að leita okkar strax hjálpar og sóttum námskeið í Fella-og Hólakirkju, við fórum jafnframt í sorgarsamtökin Ný dögun og sóttum fræðslusamverur.   Einnig stofnuðum við hóp með prestunum í Garðabæ fyrir foreldra sem höfðu misst barn til nýta okkar reynslu og fá þannig að gefa af okkur sem er mikilvægt í sorgarúrvinnslunni.  Ég gat sótti mér ýmis konar hjálp og oft var mér hugsað til sonardóttur minnar sem  var á sínum stað í sorginni.  Hvaða hópar voru fyrir hana?  Hvar gat hún  deilt reynslu í jafningjasamfélagi?  Í mínu sorgarferli fór ég oft á netið til að leita mér að uppbyggjandi efni fyrir sjálfa mig að lesa.  Eitt skipti fann ég myndbönd sem sýndu sumarbúðir fyrir börn og unglinga sem hafa misst náinn ástvin.  Þá fann ég fyrir svo sterkri köllun að koma þessu í verk hér heima á Íslandi.   Ég hafði samband við samstarfskonu mína og sóknarprestinn Jónu Hrönn Bolladóttur og við fórum af stað saman undir merkjum Vídalínskirkju í Garðabæ enda fannst henni verkefnið stórkostlegt og við höfum unnið að þessu eins og einn maður,“ segir Heiðrún Jensdóttir.

Himnarnir opnuðust

„Við Jóna Hrönn þekkjum sumarbúðir KFUM/KFUK sem eru blessaðir staðir sem margir hafa dvalið á í bernsku og við vorum vissar um að þarna ættum við að byrja.  Við vorum sannfærðar um að þarna væru börnin og unglingarnir örugg og staðurinn myndi halda vel utan um okkur öll. Svo þurftum við peninga, þetta er tilraunverkefni og við vildum gera þetta foreldrum og forráðamönnum að kostnaðarlausu.  Við sóttum um styrki til Barnavinafélagsins Sumargjafar, í Líknarsjóð Harðar Þorsteinssonar og Unnar  Guðmundsdóttur, einnig fengum við styrki frá Kjalarnesprófstsdæmi og Vídalínskirkju enda verkefnið á vegum kirkjunnar. Þar að auki fengum við yndislegar gjafir, en Pétur í MARKO MERKI í Hafnarfirði sem gaf öllum börnunum silcon armband með slagorðunum okkar kærleikur, kraftur, von og einnig pop socket á snjallasímana með mynd af hjarta sem var líka okkar sameiginlega tákn. Svo koma þessi stórkostlega gjöf frá Írisi Björk Tanyu Jónsdóttur sem rekur Vera design. Hún gaf öllum unglingunum hring með æðruleysisbæninni og öllum stelpunum eyrnalokka með fallegum trúarlegum táknum, allir sem unnu að verkefninu gáfu vinnu sem var gríðarlega mikilvægt og þakkavert því annars hefðum við aldrei komið þessu í verk og þar liggja að baki margir klukkutímarnir og sjálfboðaliðunum var líka þakkað með skartgripum frá henni. En allt þetta tengir börnin, unglingana og sjálfboðaliðana saman.  Þegar lítið er á símann, handlegginn, eyrað eða fingur eru sameiginlegir hlutir sem minna okkar á strenginn sem skapaðist á milli okkar og frábærar minningar sem helgin skapaði.  Ofan á allt þetta gaf Byko okkur alls kyns föndurvörur auk þess sem miklar matargjafir sem bárust,“ segir Heiðrún.

Kærleikur, kraftur og von.
Kærleikur, kraftur og von. Ljósmynd/úr einkasafni

Þurfti að finna aftur tilgang lífsins

„Þegar sonur minn dó stóð ég á krossgötum og ég þurfti mikla úrvinnslu sem felst m.a. í því að finna aftur tilgang lífsins. Við hjónin vorum strax ákveðin í að láta þetta ekki buga okkur og við fundum líka ríka þörf á að gefa af okkur.  Það er hluti af sorgarvinnunni.  Ég fór líka þá leið að taka frá tíma til að hugsa og gekk Jakobsveginn á Spáni í fimm vikur. Ég segi að ég hafi fylgt syni mínu fyrstu 800 kilómetrana að Guðsríki og það skipti mig gríðarlegu máli og hafði mikil áhrif á vegferð minni að finna sálarró,“ segir Heiðrún. 

Hvernig upplifðir þú helgina í Vindáshlíð?

„Ég upplifði að þátttakendurnir hefðu notið þess að dvelja á þessum góða stað í kyrrðinni og takmörkuðu interneti, minnast þeirra sem þau höfðu misst á fallegan hátt og þjálfast í að ræða missinn og erfiðar tilfinningar. Auk þess mynduðust sterk vináttutengsl á milli barnanna á ekki lengri tíma,“ segir Matthildur.

Börn syrgja ekki eins og fullorðnir

Þú ert að skrifa meistararitgerð um sorg barna og unglinga, hvað er mikilvægt að huga að í þeirra sorgarúrvinnslu?

„Það er afskaplega margt sem gott er að vita þegar kemur að börnum og sorg en ef ég á að gera tilraun til þess að stikla á stóru þá er mikilvægt að vita að börn og unglingar syrgja ekki á alveg sama hátt og fullorðnir enda hefur þroskastig þeirra mikil áhrif á skilning þeirra og upplifun af dauðanum. Eftir því sem þau eldast geta þau líka þurft að vitja sorgarinnar aftur og aftur eftir því sem þeirra innri forsendur breytast með hverju þroskastigi.

Blöðrugjörningur í Vindáshlíð.
Blöðrugjörningur í Vindáshlíð. Ljósmynd/úr einkasafni

Þegar kemur að dauðanum er líka mikilvægt að segja börnum og unglingum alltaf satt og halda þeim ekki fyrir utan sorgarúrvinnslu fjölskyldunnar. Það er tilhneiging hjá hinum fullorðnu að vilja hlífa börnum og unglingum eins og hægt er þegar andlát verður sem getur orðið til þess að börn og unglingar fá t.d. ekki réttar upplýsingar um það sem gerst hefur sem getur brotið niður það traust sem barnið ber til foreldra og forráðamanna þegar það kemst að hinu sanna. Eða að barnið missir af tækifærum til þess að tjá sorgartilfinningar sínar með fjölskyldunni þegar því er haldið utan við útfararsiði og erfiðar kveðjustundir. Það er að mínu mati sjaldan ástæða til þess að halda börnum fyrir utan útfararsiði en þeir eru afskaplega mikilvæg sorgarúrvinnsla fyrir bæði börn og fullorðna.Tilraunir til þess að hlífa börnum verða því þannig oftast þess valdandi að barnið einangrast í sinni sorg.

Auk þess er afskaplega mikilvægt að foreldrar og forráðamenn taki ábyrgð á eigin heilsu og sorgarúrvinnslu og þiggja utanaðkomandi hjálp ef þörf er á því þau eru mikilvægustu aðilarnir í sorgarferli barna sinna,“segir Matthildur.

Stundum þurfa tilfinningar að fara á blað og síðan viljum …
Stundum þurfa tilfinningar að fara á blað og síðan viljum við losa okkur við þær. Ljósmynd/úr einkasafni

 Hvernig gekk ykkur að setja saman sjálfboðaliðahópinn

Jóna Hrönn segir gríðarlega mikilvægt að gagnkvæmt traust ríki á milli þeirra sem koma að verkefninu og þekking á styrkleikum hvers annars. „Við Heiðrún fórum þá leið í þessari fyrstu ferð því við erum búnar að panta Vindáshlíð aftur í haust til að fara aðra ferð að taka með okkur fjölskyldur okkar.  Baldur eiginmaður Heiðrúnar og Edda dóttir hennar stóðu t.d. í eldhúsinu og báru fram ríkulegar máltíðir sem kættu okkur öll. Vinkonur hennar og listakonurnar Sigrún Einarsdóttir og Ólöf Einarsdóttir voru með listasmiðju sem sló algjörlega í gegn. 

Öll börnin og unglingarnir gerðu sinn staf.  Heiðrún útskýrði fyrir þeim að öll þyrftum við á stuðningi í lífinu, hún sýndi þeim stafinn sinn sem hún tók með sér á Jakobsgöngunni eftir að hún missti son sinn.  Það var stórkostlegt hvernig allur hópurinn nostraði við stafinn sinn og lagði í hann kærleika og miklar pælingar. 

Þarna voru m.a. hjónin Andri Bjarnason sálfræðingur og Unnur Bryndís Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari sem leiddu stærsta hluta hópsins í fjallgöngu þar sem reyndi á þrek og kjark og það komu margir sigurvegarar niður af því fjalli. Andri og Hjalti Jón Sverrisson guðfræðingur og æskulýðsfulltrúi Laugarneskirkju létu yngri hópinn síga niður úr brunastiga upp við þakskegg búðanna í klifurbúnaði og þar reyndi svo sannarlega á kjarkinn. Ég sagði við þá að mér fyndist fallegt að sjá sálfræðinginn tala einstaklingana á að treysta og láta vaða og svo stóð prestsefnið fyrir neðan og greip þau þegar þau komu niður og hrósaði þeim í hástert. Enda yfirskriftin kærleikur, kjarkur, von,“ segir Jóna Hrönn Bolladóttir. 

Þeir sem komu að verkefninu voru:Baldur Hans Úlfarsson matráður, Sigrún …
Þeir sem komu að verkefninu voru:Baldur Hans Úlfarsson matráður, Sigrún Einarsdóttir glerlistakona, Heiðdís Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur og djáknanemi, Lilja Ósk Úlfarsdóttir sálfræðikennari, Heiðrún Jensdóttir, Guðmunda Anna Birgisdóttir sálfræðikennari, Ólöf Einarsdóttir textillistakona, Andri Bjarnason sálfræðingur, Jóna Hrönn Bolladóttir. Sólrún Ársælsdóttir hárgreiðslumeistari, Hjalti Jón Sverrison guðfræðingur, Matthildur Bjarnadóttir guðfræðinemi, Bjarni Karlsson prestur. Ljósmynd/úr einkasafni

En hvernig hljóðaði dagskráin þessa helgi?

„Í umræðuhópum sem prestar, guðfræðingar og sálfræðimenntað fólk leiddi ræddum við um tilfinningar bæði velkomnar og óvelkomnar í sorgarúrvinnslunni, einnig hvaða bjargráð við hefðum.  Það var talað um hvernig við gætum nálgast sorgina á eðlilegan hátt og hvað er mikilvægt að leita sér hjálpar,  það er svo mikilvægt að vera ekki einn á sorgargöngunni.  Svo vorum við þarna til að hafa gaman, enda var farið í leiki, fyrir utan hláturjóga og ærslafullar kvöldvökur með gítarspili og söng. En það sem mér fannst líka svo ótrúlega fallegt var hvað minningarstundirnar voru hrífandi og græðandi.  Fyrst kvöldið okkar ákváðum við að enda kvöldið á því að skrifa niður áhyggjur okkar og kvíðaefni og setja í arineldinn og leyfa þeim að stíga sameiginlega upp til himins af því að það er svo margt líkt í kvíða þeirra sem missa, sérstaklega barna og unglinga.  Á laugardagskvöldinu áttum við gríðarlega eftirminnilega stund.  Allur hópurinn fékk stein sem hafði verið sprautaður hvítur og þau skrifuðu nafn eða nöfn þeirra sem þau höfðu misst.  Þau lögðu svo af stað að ánni við Vindáshlíð og fundu steinunum stað við vatnið og lögðu svo útkerti við hvern stein, það var alveg undursamlegt og tók langan tíma.  Allir vildu finna góðan stað við ána og svo þurftum við öll að gráta að sjálfsögðu.  Það voru engin orð bara nánd og samkennd umvafið kærleikanum sem aldrei fellur úr gildi.  Daginn eftir komu foreldrar og forráðamenn í grill í hádeginu og svo enduðum við saman í Hallgrímskirkjunni í Vindáshlíð sem er frá 1878 og það verður okkur öllum ógleymanleg stund og loks fóru allir með hvítar blöðrur sem var sleppt samtímis í minningu látinna ástvina með orðunum kærleikur, kjarkur, von.  En það sem stóð algjörlega upp úr var sú vinátta sem myndaðist milli barnanna og unglinganna.  Það var eins og ósýnilegur þráður væru strax bundin utan um þau öll og þau gátu verið svo algjörlega þau sjálf í gleði og sorg.“

Að tengja við önnur börn með svipaða reynslu í leik …
Að tengja við önnur börn með svipaða reynslu í leik er nauðsynlegt. Ljósmynd/úr einkasafni

Hvað er framundan í verkefninu? 

„Við höfum ákveðið að hafa samveru fyrir allan hópinn í maí og svo verður farin önnur svona ferð í haust ef okkur Heiðrúnu tekst að fjármagna verkefnið aftur, því það eru fleiri börn sem þarf að styðja, við erum bjartsýnar því það var eins og himnarnir væru opnir þegar við báðum fólk um hjálp.  Það sagði engin nei, allir gerðu allt sem þau gátu.  Svo ætla sjálfboðaliðarnir að halda viðrunarfund til að hægt sé að gera skýrslu því það þarf að meta helgina til að gera enþá betur þó að við séum í raun öll í skýjunum eftir þessa helgi,“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert