Það sem kom mest á óvart við móðurhlutverkið

Þetta er vissulega mynd af upptekinni móður en þó ekki ...
Þetta er vissulega mynd af upptekinni móður en þó ekki af Ellu Kareni. Þessi mynd er fengin úr myndabanka. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Ella Karen Kristjánsdóttir á þrjú börn og eitt bónusbarn og hefur verið meðlimur í alls konar mömmuhópum á Facebook og fylgst með mörgum umræðum en ein umræða skýtur alltaf upp kollinum annað slagið og það er þessi: „Hvað kom ykkur mest á óvart eftir að þið áttuð börnin ykkar?“

Fjársjóðurinn hennar Ellu Karenar.
Fjársjóðurinn hennar Ellu Karenar. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir það kannski klisjukennt en það komi sér samt á óvart hversu lítinn tíma hún hafi nú fyrir sjálfa sig og á sama tíma hversu viljug hún sé að gefa þann litla tíma frá sér. „Börnin mín skipta mig mestu máli og allt sem þeim kemur við,“ segir hún í bloggfærslu sinni á lífsstílsbloggvefnum.

„Ég er ekki að segja að ég fái aldrei tíma fyrir sjálfa mig, ég passa alveg upp á það, en aðrir hlutir urðu bara fljótt miklu mikilvægari. Og hvern er ég að plata, ég hef kanski orku í maska og hálfan þátt á Netflix áður en ég er sofnuð í sófanum!“

Hún segist aldrei hafa verið neitt sérlega hrifin af skipulagi og fannst það oft óþarfa vitleysa en eftir að hún varð mamma gerist hreinlega ekki neitt nema hún sé með skipulagið á hreinu. Heimilisstörfin, læknatímar, skiptitaskan, nesti fyrir útiveru og bílferðir, kvöldrútína og morgunverkin. „Ef þetta væri ekki niðurneglt einhvers staðar gengi ég um eins og hauslaus hæna, myndi aldrei mæta neitt á réttum degi og aldrei muna eftir neinum afmælum.“

Skipuleggja þarf stefnumót og þvotta

„Það er sama hversu lítið af fötum mér finnst börnin mín eiga og nota og sama hversu lítið af nothæfum fötum ég á, þvotturinn klárast ALDREI. Ef mér tekst einhvern tíma að sjá í botninn á körfunni get ég stólað á að hún verður hálf næsta kvöld.

Ella Karen Kristjánsdóttir segir það hafa komið sér á óvart ...
Ella Karen Kristjánsdóttir segir það hafa komið sér á óvart hversu lítinn tíma hún hafi þó að hún hafi verið búin að lesa sér til um það í mömmuhópum á Facebook og víðar. Ljósmynd/Aðsend

Við maðurinn minn þurfum að bóka stefnumót með hvort öðru með fyrirvara. Það þarf að redda pössun, ákveða stað og stund og koma sér út úr húsi sómasamlega útlítandi, crocks eru bannaðir á stefnumóti.

Kaffi er nauðsyn og það sama á við um gott súkkulaði. Ég kemst alveg skuggalega langt á því einu,“ segir Ella Karen, sem greinilega er geysilega öflug mamma. 

 

Færsla Ellu Karenar á Komfort.is

mbl.is