„Blokkaði“ þá sem áttu von á barni

Kristófer og Indíana sögðu sögu sína í þættinum Grár köttur …
Kristófer og Indíana sögðu sögu sína í þættinum Grár köttur sem er í umsjón Önnu Marsibil Clausen.

Anna Marsibil Clausen umsjónarmaður þáttarins Grár köttur á Rás 1 ræddi við parið Indíönu Rós Ægisdóttur og Kristófer Másson. Þau eru búin að vera saman í þrjú ár og segja frá því í þættinum hvað það tekur mikið á að geta ekki eignast barn. Hún er með fjölblöðrueggjastokka sem gerir barneignir erfiðari. Í þættinum tala þau opinskátt um ófrjósemi sína og hvað sé til ráða. 

„Að greinast með ófrjósemi er jafnmikið áfall og að greinast með krabbamein. Ég væri frekar til í að greinast með krabbamein en þetta. En ef maður væri með krabbamein myndi maður líklega segja akkúrat öfugt. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað það er mikill skellur er að greinast með ófrjósemi,“ segir Indíana í þættinum Grár köttur. 

Indíana hefur rætt opinskátt um ófrjósemi sína á Twitter. Hún segir að það hafi gert henni gott því hún hafi fengið mikil viðbrögð og fengið að heyra að þetta sé miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir. Hún segir mikinn sársauka fylgja því að missa fóstur. 

„Þetta er ógeðslega erfitt, þótt maður sé kominn stutt. Bara sex vikur, vorum búin að reyna í marga mánuði, þetta er rosalega erfitt og mjög sárt,“ segir hún um fósturmissinn. 

Indíana segir að í þessu ferli hafi hún upplifað skrýtnar tilfinningar. Þegar þau Kristófer voru nýbúin að missa fóstur voru vinir að tilkynna óléttur á samfélagsmiðlum. Hún játar að hafa „blokkað“ fólk tímabundið á facebook til þess að fá óléttuferlið ekki beint í æð. 

„Það er mjög erfitt þegar við vorum nýbúin að missa fóstur. Það eru svo blendnar tilfinningar. Maður er spenntur fyrir hönd vina sinna en það er samt ótrúlega erfitt,“ segir hún.  

Í þættinum Grár köttur kemur í ljós að Indíana og Kristófer fóru í smásjárfrjóvgun í desember en það er einskonar tæknifrjóvgun og í þættinum kemur í ljós hvernig það gekk. 

HÉR er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert