„Ég upplifði ekki þetta töfraaugnablik“

Reynir eignaðist sitt fyrsta barn síðastliðið sumar.
Reynir eignaðist sitt fyrsta barn síðastliðið sumar. Samsett mynd

„Ég elska að vera stelpupabbi,“ segir Reynir Haraldsson, lykilmaður í knattspyrnuliði Fjölnis. 

Vinstri bakvörðurinn, sem byrjaði fótboltaferil sinn hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur í Breiðholti, eignaðist sitt fyrsta barn, stúlkubarn, í júní á síðasta ári. Litla stúlkan, sem hlaut nafnið Hrafnkatla, er augasteinn föður síns og þegar byrjuð að leika listir sínar með knöttinn, föður sínum til mikillar ánægju. 

Reynir er fæddur og uppalinn í Breiðholti og segir hverfið eiga stóran stað í hjarta sínu. Hann hefur hins vegar fært sig um set og býr í dag ásamt eiginkonu sinni Öldu Þyri Þórarinsdóttur, labrador-tíkinni Nölu, fyrsta barn þeirra hjóna að sögn Reynis, og ungri dóttur í Grafarvogi. Litla fjölskyldan festi nýverið kaup á húsi í hverfinu, en ungu hjónin kynntust í Grafarvogi árið 2018. 

Reynir ásamt eiginkonu sinni og dóttur.
Reynir ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var ekkert endilega tilbúinn að verða faðir“

Langaði þig alltaf að til að verða pabbi?

„Já, algjörlega. Það hefur lengi verið draumur minn. Ég var ekkert endilega tilbúinn að verða faðir en þetta er það besta sem ég hef upplifað. Dóttir mín umbreytti öllu, gerði allt betra og fékk mig til að líta allt lífið öðrum augum, eitthvað sem ég átti ekki endilega von á.“

Hvernig tilfinning var það að komast að því að þú ættir von á barni?

„Við vorum búin að reyna um tíma að eignast barn og lentum meðal annars í því að missa fóstur, einu ári áður en við eignuðumst Hrafnkötlu. Það reyndist okkur erfitt en við létum fósturmissinn ekki draga úr okkur kjarkinn og héldum því ótrauð áfram. 

Þegar ég komst að því að við ættum von á Hrafnkötlu var ég mjög rólegur og yfirvegaður. Ég veit ekki hvort ég var beint efins eða brenndur af fyrri reynslu okkar en ég beið með að fagna. Öldu fannst mjög leiðinlegt hvað ég sýndi þessu lítinn áhuga í byrjun enda var hún í skýjunum og það var ég líka, en ég sýndi það á annan máta.“

Hvernig upplifðir þú meðgönguna?

„Úff, fyrstu vikurnar voru erfiðar, algjörlega ömurlegar fyrir Öldu mína. Hún var svo slöpp, með mikla morgunógleði og átti erfitt með að borða. Það breyttist lítið hjá mér, þannig séð. Ég tók ummönnunarhlutverkið alvarlega og reyndi bara að styðja Öldu. Ég gerði mitt allra besta. 

Ég ræddi þetta nýverið við góðan félaga minn sem eignaðist barn á svipuðum tíma og ég sjálfur. Við vorum sammála um að við, feður, værum hálfgerðir forréttindapésar yfir þessa níu mánuði.“

Reynir er í fæðingarorlofi um þessar mundir.
Reynir er í fæðingarorlofi um þessar mundir. Ljósmynd/Aðsend

„Mér fannst ósanngjarnt að sofa á meðan hún þjáðist“

Aðspurður segir Reynir fæðingu dóttur sinnar hafa gengið erfiðlega. 

„Já, hún gekk hræðilega, bara alls ekki vel. 

Einum degi fyrir fæðinguna var ég að keppa í Egilshöll, alveg ósofinn. Eiginkona mín var búin að vera með hríðir sólarhringanna á undan og náði ég því ekkert að hvílast fyrir leik. Mér fannst ósanngjarnt að sofa á meðan hún þjáðist. Ég ætlaði að sleppa leiknum en ég dreif mig af stað eins og algjör hálfviti, ósofinn og hálf stjarfur. Ég átti ágætis leik en fékk gult spjald fyrir glórulausa tæklingu,“ segir hann og hlær. 

Daginn eftir héldu Reynir og Alda upp á fæðingardeild þar sem Alda var drifin í bráðakeisaraskurð. „Hún fór ekki í nægilega útvíkkun og endaði þar af leiðandi í bráðakeisaraskurði. Legið var orðið mjög bólgið. Hún mátti ekki við því að bíða mikið lengur.“

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í gegnum fæðinguna?

„Hlutverkið mitt var að standa við hlið konu minnar. Það var mjög erfitt að sjá hana upplifa svona mikinn sársauka en ég lagði mig allan fram við að stappa stálinu í hana. Ég hélt í höndina á henni og hvatti hana áfram til dáða eins og sannkölluð klappstýra.“

Hvernig var að sjá dóttur þína í fyrsta sinn?

„Þegar Hrafnkatla kom í heiminn var ég mjög yfirvegaður, ég upplifði ekki þetta töfraaugnablik. Þetta var algjör „out of body“ upplifun og það tók mig smá tíma að tengja við þennan nýja raunveruleika, að ég væri orðinn faðir. Ég brotnaði ekki niður og æpti ekki af geðshræringu.“

Hrafnkatla er glaðlynd ung stúlka.
Hrafnkatla er glaðlynd ung stúlka. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er spenntur að kynna dóttur mína fyrir fótboltanum“

Reynir byrjaði snemma í fótboltanum og hefur mikla ástríðu fyrir leiknum. „Ég var fimm ára gamall þegar ég fór á fyrstu æfinguna mína. Ég heillaðist strax. Þetta er mitt líf og yndi. Ég er spenntur að kynna dóttur mína fyrir fótboltanum.“

Hvað er það besta við að vera pabbi?

„Það besta við pabbahlutverkið er að vera pabbi, eiga barn. Dóttir mín er það sem skiptir öllu máli. Hún toppar allt annað og gerir allt betra. 

Reynir og Alda greindu ekki frá nafni dóttur sinnar fyrr en á skírnardaginn, 23. júlí 2023. Nafn stúlkunnar var þó ekki það eina sem parið hélt leyndu fyrir sínum nánustu. Parið gekk í hjónaband að lokinni skírn sem kom öllum verulega á óvart.

Litla fjölskyldan á skírnar- og brúðkaupsdaginn.
Litla fjölskyldan á skírnar- og brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Dagurinn var æðislegur og uppfullur af óvæntum uppákomum, en gestirnir höfðu ekki hugmynd um að þeir væru mættir í tvöfalda veislu, skírn og brúðkaup. Þegar skírnarathöfninni lauk byrjaði brúðarmarsinn að spila, allir settu upp forvitnissvip og fylgdust með okkur ganga í hjónaband. Þetta var góður sunnudagur heima hjá tengdamömmu.“

Hversu langt fæðingarorlof tókst þú og hvernig finnst þér það?

„Ég er í sex mánaða fæðingarorlofi og hef það ansi gott. Ég og Hrafnkatla erum dugleg að finna okkur eitthvað að gera, bæði heima við og í bænum,” segir Reynir. 

„Ég hef nóg á minni könnu, fótboltaæfingar og rekstur, en ég var að opna verslun, ERA Sport, sem selur íþróttafatnað og vörur. Hrafnkatla er dugleg að hjálpa mér með reksturinn. Og þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi þá fæ ég minn tíma, ég mæti á fótboltaæfingar á hverjum degi og djöflast með strákunum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka