Erfitt að ala upp dótturina með Thompson

Khloé Kardashian deilir forræði yfir True með barnsföður sínum Tristan …
Khloé Kardashian deilir forræði yfir True með barnsföður sínum Tristan Thompson.

Raunveruleikaþáttastjarnan Khloé Kardashian sagði í hlaðvarpsþættinum On Purpose að það hafi verið mjög erfitt að ala upp dóttur sína ásamt föðurnum Tristan Thompson. 

Kardashian og Thompson hættu saman fyrr á þessu ári en saman eiga þau dótturina True sem er 18 mánaða. Þau deila forræði yfir henni þótt enginn skriflegur samningur hafi verið gerður. 

Hún segir að það hafi verið mun auðveldara fyrir hana að loka alveg á hann og segja honum að fyrst hann særði hana fengi hann ekki að taka þátt í uppeldi dóttur þeirra. Upp komst um framhjáhald Thompsons og í kjölfarið hættu þau saman. 

Kardashian segir að hann hafi ekki á nokkurn hátt sært dóttur þeirra og að þau eigi sitt samband. Hún hafi því ekki viljað eyðileggja samband feðginanna þótt hún hafi sjálf verið í sárum. 

Hún segist vita nákvæmlega hvar hennar mörk liggja og á hvaða tímapunkti hún myndi íhuga að minnka samskiptin við barnsföður sinn. 

„Svo lengi sem hann er ekki að særa mig á nokkurn hátt. Ef það að deila forræði með Scott Disick myndi hindra vöxt Kourtney eða ef sameiginlegt forræði hindrar vöxt minn verður maður að setja sjálfan sig í fyrsta sæti, því ég er í raun og veru að hugsa um barnið mitt. En ef það setur engar hömlur á þig eða særir þig á nokkurn hátt þá held ég að það sé mjög mikilvægt að vinna í samböndum,“ sagði Kardashian. Þarna vísar hún til systur sinnar Kourtney Kardashian og barnsföður hennar en þau eiga þrjú börn saman og deila forræði. 

mbl.is