Tvíburar fæddust á hvor á sínum áratugnum

Tvíburarnir eru ekki fæddir á sama ári.
Tvíburarnir eru ekki fæddir á sama ári. Skjáskot/Youtube

Foreldrar í Bandaríkjunum eignuðust tvíbura um áramótin. Börnin fæddust hvort sínu megin við áramótin svo börnin voru hvorki fædd á sama degi né sama ári. Þar sem nýr áratugur hófst um áramótin fæddust börnin hvort á sínum áratugnum. 

Í viðtali við sjónvarpsstöðina WSAV segja foreldrarnir Dawn Gilliam og Jason Tello að þau hafi velt því fyrir sér hversu skemmtilegt það væri ef börnin fæddust ekki á sama degi. Börnin gerðu gott betur en það. 

Settur dagur var ekki fyrr en í febrúar en þar sem Gilliam var með áhyggjur af minni hreyfingu fór hún upp á spítala á síðasta degi ársins. Hún fæddi síðan dótturina Joslyn þegar 23 mínútur voru eftir af árinu 2019. Sonurinn Jaxon kom svo í heiminn sjö mínútur yfir miðnætti á nýju ári. 

Tvíburarnir þurfa að vera á spítala fyrst um sinn en munu svo fá að fara heim. 

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við foreldrana. 

mbl.is