Alkóhólismi og bataferðlag fjölskyldu: Hvað er til ráða?

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

„Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur. Það þekkja allir þeir sem hafa komist í kynni við hann. Fjölskyldukerfið er í raun magnað og hver og einn í fjölskyldunni getur verið mikill áhrifavaldur í lífi annars, bæði með nærveru sinni og fjarveru. Ef einstaklingur er í neyslu breytist oft samskiptaháttur þeirra sem standa honum næst, jafnvel á þann hátt að hann verður óheilbrigður og þar spilar streita stórt hlutverk. Ef streita er orðin daglegur hluti fjölskyldukerfisins þarf að aflæra ýmislegt þegar kemur að bata,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í nýjum pistli: 

Fjölskylda sem fer inn í bataferli stendur oft og tíðum frammi fyrir því verkefni að ríkjandi er handónýtt samskiptakerfi. Einn algengur þáttur i kerfinu er ásökun:

Ásökun: Þessi samskiptaháttur birtist á þann hátt að ábyrgð til dæmis á hegðun aðstandenda er framseld til fíkilsins eða einhvers annars. Aðstandendur áttu erfitt með að taka ábyrgð á eigin hegðun vegna hegðunar fíkilsins. „Mér líður svona vegna fíkilsins.“ „Ég geri svona vegna fíkilsins“ og svo framvegis. Tilfinningar eins og reiði, ótti og áhyggjur eru skilgreindar sem eðlileg viðbrögð við hegðun fíkilsins.

Einnig hafa aðrir þættir komið fram í fjölmörgum rannsóknum:

· Vantraust, bæði innan og jafnvel gagnvart þeim sem eru utan fjölskyldu.
· Kvíði og streita
· Ófyrirsjáanleiki
· Lítil aðgreining á eigin tilfinningum og annarra í fjölskyldunni
· Oft sagt það sem er ekki meint og meint það sem er ekki sagt

Svo einhverjir þættir séu nefndir.

Í bataferli þurfa allir að aflæra og læra nýja samskiptahætti og það má segja að það þurfi að venjast nýrri líðan. Fjölskyldan þarf að læra að treysta og opna hjarta sitt á ný.

Eitt er gagnlegt að hafa í huga í bataferlinu og það er hve sjónarhorn sameiginlegu reynslunnar geta verið ólík. Það má segja að það séu margir sannleikar og ekkert er rétt eða rangt.

Robert Rhorton geðlæknir og yfirmaður Arozona Trauma Institute vinnur með fjölskyldum í kjölfar áfalla og þar á meðal fjölskyldum þar sem hefur verið neysla. Hann tekur þessa staðreynd inn í alla batavinnu þegar unnið er með fjölskyldum.

Hann lætur hvern og einn teikna sína tímalínu þegar unnið er með fortíðina og skilninginn á henni. Hver og einn setur inn upplifanir og atburði sem hafa veitt gleði og ánægju auk þess að setja inn atburði og reynslu sem kallaði fram erfiðar tilfinningar. Hver og einn á sína einstöku reynslu sem þó er hluti að sameiginlegu reynslunni. Hver upplifun er einstök. Þarna kemur inn í myndina tilfinningalegt ástand hverju sinni, dagsform, aldur, þroski og margir aðrir þættir. Það er enginn einn sannleikur til.

Þegar fjölskylda vinnur í bata getur verið dýrmætt að vinna með aðgreininguna í sameiginlegu reynslunni. Það að hver og einn fái rými til að tala frá hjartanu þrátt fyrir að aðrir hafi sömu sýn er batamerki í fjölskyldu. Á sama tíma má ekki gleyma að rifja upp allt það sem hefur veitt gleði og styrkt fjölskylduböndin. Þeir þættir gleymast gjarnan þegar streita er mikil.

mbl.is