Vildi vernda Archie með kjafti og klóm

Meghan sá ekki ástæðu til þess að hleypa almenningi að …
Meghan sá ekki ástæðu til þess að hleypa almenningi að skírn Archie. AFP

Meghan Markle er sögð hafa viljað vernda Archie með því að halda skírn hans utan sviðsljóss fjölmiðla ólíkt því sem almennt tíðkast innan bresku konungsfjölskyldunnar. Þetta kemur fram í bókinni Finding Freedom sem hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir að varpa ljósi á þær erfiðu kringumstæður sem urðu til þess að Harry prins og Meghan ákváðu að segja sig frá öllum konunglegum skyldum.

Í bókinni kemur fram að Meghan hafi sagt við vin sinn: „Þeir sömu og hafa verið að ráðast á mig vilja nú að ég framreiði barn mitt á silfurfati. Barn sem mun ekki njóta neinnar verndar né bera titil. Það skýtur skökku við. Það skilja allar mæður.“

Ákvörðun Meghan um að hleypa ekki fjölmiðlum að skírninni vakti mikla undrun og hneykslan. Aðeins 22 gestir voru við skírn Archie. Mörgum þótti það eðlilegt að almenningur fengi að sjá Archie á skírnardegi hans enda halda skattgreiðendur konungsfjölskyldunni uppi að miklu leyti. Þá hafa Vilhjálmur prins og Katrín hertogynja alltaf haldið skírn sinna barna fyrir opnum tjöldum. 

Í bókinni er einnig veitt ákveðin innsýn í fjölskyldulíf Harry og Meghan. Harry er sagður mjög duglegur faðir sem sá alfarið um að skipta um bleiur á fyrstu vikum Archie á meðan Meghan var upptekin við brjóstagjöfina. Þá hafi Archie fengið að njóta góðs af ungbarnasundi og tónlistarnámskeiðum fyrir ungbörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert