Óx upp úr fermingarfötunum

Gunnar Maack þurfti líkt og önnur fermingarbörn að fresta fermingunni …
Gunnar Maack þurfti líkt og önnur fermingarbörn að fresta fermingunni oft í fyrra. mbl.is/Heda HB

Lukka Berglind Brynjarsdóttir, þroskaþjálfi í Krikaskóla í Mosfellsbæ, segir fermingu sonarins, Gunnars Maack, hafa verið ævintýralega í fyrra. Það þurfti að fresta fermingunni ítrekað og breyta henni í takt við reglugerðir stjórnvalda. 

Fermingarveislan var haldin heima þann 6. september í fyrra. Veislan var þriðja útgáfan af veislu sem var skipulögð.

Upphaflega höfðum við pantað sal með veitingaþjónustu með þriggja ára fyrirvara en hann reyndist svo þríbókaður þegar kom að því að fara að ganga frá þeim málum. Þá fengum við minni sal, fækkuðum á gestalistanum sökum fjöldatakmarkana og fórum að endurhugsa allt varðandi veitingar. Það féll svo um sjálft sig þar sem kórónuveiran var í hámarki á fyrirhugðum fermingardegi. Lokaniðurstaðan var svo lítil heimaveisla með okkar nánasta fólki. Við fengum frábæra aðstoð frá fjölskyldu og vinum og var þetta því ósköp einfalt í framkvæmd. Vinnufélagar mömmu minnar göldruðu fram gómsætt smáréttahlaðborð, Berglind Hreiðarsdóttir vinkona mín bakaði gullfallega og bragðgóða Oreo-súkkulaðiköku sem var ósk fermingardrengsins ásamt kransaköku sem var algert listaverk. Þórunn vinkona hjá Multi by multi lánaði mér svo þessa fallegu standa á veitingaborðið sem gerðu svo sannarlega mikið fyrir heildarútlitið á borðinu. Sjálf bakaði ég makkarónur, útbjó ostabakka og sá um að þetta liti allt saman huggulega út.“

Gunnar hafði skoðun á því hvernig fatnaði hann klæddist á …
Gunnar hafði skoðun á því hvernig fatnaði hann klæddist á fermingardaginn. mbl.is/HB Heida

Eru ennþá að nota fermingarservétturnar

Lukka segir fermingarundirbúninginn hafa verið ánægjulegan.

„Við fórum snemma að huga að fermingarundirbúningi sem er í raun alveg úr takt við mig þar sem ég er vanalega á síðustu mínútu í undirbúningi. Gunnar hafði miklar skoðanir á öllu, eins og litaþema og hvað ætti að vera í matinn. Ég hafði pantað blöðrur, servéttur, fermingarkerti og fleira með árs fyrirvara. Það kom ekki að sök þrátt fyrir að veisluplönin hafi breyst að því undanskildu að við áttum 150 fermingarservéttur sem við erum ennþá að nota. Svo þurftu að vísu nokkrir laxar að víkja úr frystikistunni svo að kransakakan fengi sitt pláss. Henni var kirfilega pakkað og stóð af sér heilt ár í frosti með súkkulaði og blómaskreytingum og var algert lostæti. Eins hafði ég bakað makkarónur sem einnig biðu ár í frysti og hlutu engan skaða af. Ég get því fullyrt að þessa hluti er hægt að gera í tíma en mögulega þarf villibráðin að víkja ef kistan er þéttsetin. Svo vorum við ekkert að stressa okkur á rangri dagsetningu á gestabók og fermingarkerti loks þegar rétti dagurinn rann upp. Þetta var bara partur af þessum sérstöku aðstæðum.“

Hvað með fermingarfötin og ljósmyndatökuna?

„Það átti að gera allt í tíma og þar á meðal græja fermingarfötin. Gráar buxur og hvít skyrta og strigaskór urðu fyrir valinu. Fermingardrengurinn er enginn „sparifatakall“ en var sáttur við kaupin. Buxurnar fóru í gegnum eina síkkun en svo óx hann að vísu upp úr þeim fyrir rest áður en dagurinn rann upp. Skónum fengum við að skipta sem var flott því hann hafði stækkað um eitt númer þegar loks kom að þessu. Á endanum valdi hann að vera í skyrtu, gallabuxum og jakka sem hann átti fyrir en fá sér nýja skó. Ljósmyndatakan var eins og allt annað, nokkrum sinnum plönuð og nokkrum sinnum hætt við en þetta hafðist á endanum og við fengum frábæran dag og dásamlegar myndir.“

Lukka segir Gunnar einstaklega rólegan að eðlisfari og að hann hafi ekki verið að kippa sér upp við biðina og breytingarnar.

„Ég held að ég hafi kannski mest fundið fyrir því. Hann var ótrúlega ánægður með daginn þegar hann loks rann upp og hefði í raun ekki viljað breyta neinu. En auðvitað voru margir sem við hefðum viljað hafa með okkur þennan dag en gátum það ekki vegna þessara sérstöku aðstæðna.“

Samrýmdir á fermingardaginn.
Samrýmdir á fermingardaginn. mbl.is/HB Heida

Höfðu spritt á hverju borði

Gunnar er í Varmárskóla og fermdist í Lágafellskirkju.

„Það var yndisleg lítil athöfn en færri komust að en vildu. Við fengum úthlutaðan einn bekk og nýttum hann vel. Við sátum þétt saman og stöfluðum okkur upp.“

Lukka segir að sóttvarnir hafi verið þeim ofarlega í huga í veislunni.

„Við reyndum að útfæra það snyrtilega en gæta ýtrasta hreinlætis. Við höfðum spritt á öllum borðum og salernum og keyptum gler-„sápupumpur“ í Rúmfatalagernum til að hafa þetta huggulegt fyrir augað. Ég festi á þær lítinn miða sem á stóð spritt og batt hann á með fallegum borða. Sprittflöskurnar stóðu svo á borðum ásamt lítilli blómaskreytingu í glasi og litlu kerti.

Gunnar langaði til að hafa poppbar. Við keyptum fjórar mismunandi tegundir af poppi hjá Ástríki sem við settum í glærar krukkur og settum gullskóflu til að skammta sér. Við vorum svo með lítil muffinsform undir poppið og var það mjög hæfileg stærð. Okkur fannst þetta skemmtileg útfærsla af nammibar og var vinsælt bæði hjá börnunum og fullorðnum.“

Lukka segir að ef hún gæti gefið foreldrum fermingarbarna á þessu ári ráð væri það helst að hafa sem fæst verkefni á fermingardaginn sjálfan ef hægt er að koma því við.

„Það er mikilvægt að njóta dagsins með fermingarbarninu og vera þátttakendur í eigin veislu. Við vorum til að mynda búin að fara í myndatöku og gera albúm með fermingarmyndunum sem gestirnir gátu skoðað í veislunni. Við tókum einnig saman myndband þar sem helstu íþróttahetjur Gunnars sendu honum kveðjur ásamt þjálfurum og umsjónarkennaranum hans. Í vídeóinu voru svo myndir af honum frá fæðingu og kveðjur frá okkur, þetta þótti honum mjög skemmtilegt og gaman að eiga. Að morgni fermingardags gáfum við Gunnari mynd sem við höfðum látið teikna af honum þar sem vísað var í hans karakter og helstu áhugamál. Hann var mjög ánægður og myndin stóð svo við gestabókina í veislunni og vakti mikla lukku. Helga Valdís vinkona mín gerði myndina en hún er alger snillingur með pennann. Þessi litlu atriði eru skemmtileg og eftirminnileg. Sjálf er ég mikil veislukerling þó ég sé ekkert sérlega góður kokkur en mér þykir gaman að stússast í þessu. Ég lagði samt mikla áherslu á að þetta væri hans veisla og að hann fengi að ráða hvernig hlutirnir væru. Það kom mér á óvart hvað hann hafði miklar skoðanir og veislan var algerlega eftir hans höfði þó svo að mamman hafi fengið að dunda í punti og pjátri, þá var hann samt verkstjórinn. Þetta er skemmtilegt verkefni sem gaman er að vinna með fermingarbarninu og njóta svo saman á fermingardaginn.“

mbl.is/HB Heida
mbl.is/Heida HB
mbl.is
mbl.is
mbl.is
mbl.is
mbl.is
mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert