Móðurhlutverkið stundum eins og Everest-ganga

Pink á tvö börn.
Pink á tvö börn. AFP

Pink er ekki bara tónlistarkona heldur einnig tveggja barna móðir. Skyggnst er á bak við tónleikaferðalag hennar árið 2019 í nýrri heimildarmynd. Áhorfendur fá að upplifa súperstjörnuna en líka móðurina Pink. Pink segir það hafa verið mikið álag að ferðast með börnin. 

Börn Pink eru níu ára og fjögurra ára í dag. Þau voru tveimur árum yngri á tónlistarferðalaginu og segir Pink í viðtali við People að leikstjóri heimildarmyndarinnar hafi  aldrei séð stjörnu skipta á bleyju á miðjum fundi. 

„Getur kona fengið allt? Hvað þýðir það?“ segist Pink spyrja sig í sífellu. „Og svarið er nei, oftast getur þú það ekki og manni líður eins og maður sé að ganga Everest. En það sem ég fæ að gera og hver ég er, er líka svo ótrúlegt.“

Það leggja ekki allar stjörnur í að fara í langt tónleikaferðalag en Pink var með eiginmanni sínum Carey Hart á ferðalaginu. „Að vera með börn á tónleikaferðalagi er ómögulegt – og ég gerði hið ómögulega. Á tímabili sendu margar poppstjörnur mér tölvupósta og hringdu í mig og báðu mig um leiðarvísi að því hvernig ætti að fara á tónleikaferðalag með börn, svo ég skrifaði leiðarvísi fyrir aðrar mæður.“ 

Börnin hennar fá allt öðruvísi uppeldi en hún fékk sjálf en Pink reynir þó að halda börnum sínum á jörðunni. „Þeirra venjulega líf er öðruvísi. Við förum í tónleikaferðalög og erum með boltaland í búningaherberginu hennar mömmu. En þau eru venjuleg börn. Jameson vill verða geimfari,“ segir Pink. „Willow er í fimleikum og les Harry Potter og er sannfærð um að hún fari í Hogwart-skóla þegar hún verður 11 og ég hef það ekki í mér að segja henni sannleikann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert