Nýr heimur varð til þegar sonurinn fæddist

Sigurður Bragason teiknaði heilan ævintýraheim með fjölskyldu sinni, þeim Nicolu …
Sigurður Bragason teiknaði heilan ævintýraheim með fjölskyldu sinni, þeim Nicolu Keller, Felix og Miriam. Ljósmynd/Aðsend

Litríki myndheimurinn Bonís er hugarheimur listamannsins Sigurðar Bragasonar og fjölskyldu hans. Hann byrjaði að teikna Bonís þegar hann var í fæðingarorlofi með eldra barni sínu. Nú þegar börnin eru orðin tvö og aðeins eldri taka allir virkan þátt í þróun verkefnisins en fjölskyldan safnar nú fyrir framleiðslu Bonís-bolla á Karolina Fund. 

„Bonís er sykursætur og litríkur myndheimur sem ég hef skapað seinustu átta árin ásamt fjölskyldunni. Það er rauður þráður sem fer í gegnum allar þær myndir sem hafa nú verið skapaðar. Annars vegar karakterarnir sem eru undir innblæstri frá börnum okkar og hins vegar sykursæta þemað. Nafnið Bonís samanstendur af orðinu kandís og orðinu „bonbon“ sem þýðir nammi á frönsku,“ segir Sigurður um Bonís.

Hann segir hópfjármögnunina snúast um það að safna fyrir bollum með myndskreytingum. Bollarnir verða einungis framleiddir í því upplagi sem safnað verður fyrir. Ef það verður afgangur verður það nýtt í framleiðslu á öðrum Bonís-vörum eins og bolum, veggspjöldum eða póstkortum. 

Dóttir Sigurðar, Miriam, með bolla úr hinum skemmtilega Bonís-heimi.
Dóttir Sigurðar, Miriam, með bolla úr hinum skemmtilega Bonís-heimi. Ljósmynd/Aðsend

Teiknaði á meðan sonurinn svaf

„Þegar ég eignaðist son minn varð ég fyrir svo miklum innblæstri að ég ákvað að búa til karakter út frá honum. Alltaf þegar hann tók hádegislúrinn sinn ákvað ég að setjast niður og skissa hann eins og ég gerði þegar ég var í listnámi. Nema þetta voru svarthvítar skissur. Eftir nokkra mánuði af þessu ákvað ég að fyrsti karakterinn væri tilbúinn.

Á þessum tíma var ég mikið að fylgjast með listakonu sem heitir Naoshi. Hún gerði heim þar sem allir karakterarnir voru nánast eins; í mismundandi fötum og með mismunandi hatta. Þetta fannst mér athyglisverð nálgun og ákvað að búa til heim byggðan á karakternum sem ég hafði þróað út frá Felix syni mínum. Þessar myndir áttu ekki að vera endalaust flæði, heldur ákvað ég gróflega hvernig ég vildi hafa þær og vildi svo klára myndirnar. Ég hélt áfram að vinna í myndunum langt fram yfir feðraorlofið, þegar dóttir mín kom í heiminn bætti ég við persónu sem var undir áhrifum frá henni.“

Hefðbundin lögmál eru brotin í Bonís-heiminum.
Hefðbundin lögmál eru brotin í Bonís-heiminum. Ljósmynd/Aðsend

Innblásturinn kemur frá börnunum en líka úr æsku Sigurðar. „Ég var mikið í eldhúsinu að baka þegar ég var lítill. Uppeldið var frekar ljúft og leikandi þannig að það kemur eitthvað fram í Bonís-myndunum. Einnig voru þrjár myndir eftir Richard Branderup mér mikill innblástur. Hann gerði myndskreytingar fyrir Tívolíið í Kaupmannahöfn. Vinafólk okkar átti þrjár myndir eftir hann og einhvern veginn héldu þessar myndir áfram að minna á sig í gegnum lífið. Þar til að nokkrum áratugum seinna ákvað ég að nýta þær einnig sem grunn fyrir aðrar myndir. Aðrir listamenn sem hafa veitt mér innblástur eru Andy Warhol, Sas Christian, Pip & Pop, Tanya Schultz, Sandra Isaksson og Neville Page.“

Önnur lögmál í Bonís-heiminum

Sigurður segir að fjölskyldan hafi alla tíð unnið mjög vel saman. „Áður en krakkarnir gátu talað og tjáð sig þá voru þeir samt að aðstoða við sköpunina með því að vera krútt. Nicole konan mín hefur til dæmis tekið ljósmyndir, bakað girnilegar kökur sem við svo notum í myndunum ásamt því að sjá um útreikninga og tilboðsgerð á Karolina Fund-verkefninu. Þar sem við erum alþjóðleg fjölskylda þarf flest efni frá okkur að vera á íslensku og ensku og hefur Nicole séð um þýðingar yfir á ensku. Einnig í gegnum ferlið hef ég alltaf spurt þau um álit og hugmyndir um hvernig myndirnar eiga að þróast. Eftir að við ýttum Karolina Fund-söfnuninni af stað hefur fjölskyldan verið saman í því að kynna verkefnið. Við höfum gert nokkur myndbönd sem fóru á samfélagsmiðla þar sem við tölum um Bonís-heiminn og fleira tengt honum.“

Fjölskyldan með Bonís-bolla.
Fjölskyldan með Bonís-bolla. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir að börnin fóru að geta tjáð sig fórum við að vinna meira saman í hugmyndagerð. Seinasta sumar settumst við öll niður og skissuðum hvernig húsin í Bonís-heiminum myndu líta út. Þá vorum við mikið að spá í hvernig þau virka, þar sem þetta er ekki okkar heimur þá gilda önnur lögmál í Bonís-heiminum. Er þyngdarlögmál eins og hjá okkur? Úr hverju eru híbýlin gerð? Þurfa veggir alltaf að vera harðir? Þetta voru spurningar sem við vorum að spyrja okkur,“ segir Sigurður. 

Sigurður er ekki frá því að allur tíminn sem fjölskyldan hafði saman í kórónuveirufaraldrinum hafi skilað sér í ævintýraheiminum. „Covid hefur örugglega haft mikil áhrif á þróunina á verkefninu. Alveg frá fyrsta degi þegar öllu var lokað byrjuðum við að skipuleggja hin ýmsu ævintýri sem við gætum skapað saman. Það varð til þess að við vorum meira saman og unnum þar af leiðandi meira saman, meðal annars í Bonís-ævintýraheiminum.“

Heimurinn er sykursætur eins og kleinuhringir.
Heimurinn er sykursætur eins og kleinuhringir. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert