Létu drauminn um barnafataverslun rætast

Ásdís Alexandra Lee og Sunneva Reynisdóttir opnuðu barnafataverslunina Minimar kids …
Ásdís Alexandra Lee og Sunneva Reynisdóttir opnuðu barnafataverslunina Minimar kids í ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þær Sunneva Reynisdóttir og Ásdís Alexandra Lee opnuðu á dögunum barnafataverslunina Minimar kids. Um er að ræða netverslun sem selur vönduð barnaföt. Sunneva og Ásdís eru báðar mæður en þær fengu mikinn áhuga á barnafötum eftir að þær eignuðust börn. 

„Það hefur alltaf verið draumur hjá okkur að opna barnafataverslun og eftir að við eignuðumst báðar börn jókst áhuginn og ákváðum við að slá til. Við fórum því að skoða vörumerki með barnafötum sem myndu standast okkar kröfur. Við erum núna í samstarfi með nokkrum æðislegum vörumerkjum frá Suður Kóreu þar sem allar vörur þurfa að uppfylla strangar gæðakröfur, allt frá vinnuaðstæðum til efnisvals,“ segir Sunneva í viðtali við mbl.is. 

Minimar kids er netverslun sem leggur áherslu á vönduð barnaföt.
Minimar kids er netverslun sem leggur áherslu á vönduð barnaföt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sunneva á tveggja ára son og Ásdís á tvö börn, 3 ára og 7 mánaða.

Hvaða áherslu leggið þið á í Minimar kids?

„Við leggjum áherslu á að allar okkar vörur séu vandaðar og með gæði í fyrirrúmi. Markmið okkar er að veita gott úrval af fallegum og tímalausum fatnaði á sanngjörnu verði ásamt því að veita góða þjónustu. Við viljum að fötin séu þægileg fyrir börnin og úr mjúku efni sem er mjög einkennandi fyrir okkar fatnað. Við erum mjög hrifnar af vörum í jarðlitum sem eru ávallt klassísk,“ segja þær Sunneva og Ásdís.

Sunneva og Ásdís fengu aukinn áhuga á barnafötum þegar þær …
Sunneva og Ásdís fengu aukinn áhuga á barnafötum þegar þær urðu mæður sjálfar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig er að reka sitt eigið fyrirtæki? Hvernig samþættið þið rekstur fyrirtækisins og fjölskyldulífið?

„Vefsíðan okkar opnaði fyrir rúmlega viku síðan og höfum við fengið ótrúlega góðar móttökur og allt gengið vonum framar. Gott skipulag hefur verið lykillinn til að samræma reksturinn og fjölskyldulífið. Þetta er krefjandi verkefni en virkilega skemmtilegt og hlakkar okkur til að sjá fyrirtækið okkar vaxa og dafna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert