Barneignir helsta forgangsverkefnið

Paris Hilton er farið að langa til að verða móðir.
Paris Hilton er farið að langa til að verða móðir. AFP

Hótelerfinginn Paris Hilton segir það að verða móðir í náinni framtíð vera algert forgangsverkefni hjá sér. Hilton og eiginmaður hennar, áhættufjárfestirinn Carter Reum, hafa greint frá því opinberlega að þau séu að hefja tæknifrjóvgunarferli.

Paris Hilton hefur lengi leitt hugann að móðurhlutverkinu og dreymt um að eignast börn.

„Það er líklega eitt af mínum aðalforgangsverkefnum,“ sagði Hilton í viðtali við fréttaveituna E! News á dögunum. „Ég get ekki beðið! Mig langar til að eignast tvö til þrjú börn,“ er haft eftir Hilton en hún lætur sig dreyma um að eignast tvíbura í fyrstu atrennu. 

Paris Hilton, sem verður 41 árs í næsta mánuði, væri helst til í að eignast strák fyrst, ef draumurinn um tvíburana verður úti. Segist henni sjálfri alltaf hafa langað til að eiga eldri bróður á sínum uppvaxtarárum.

„Mig langaði alltaf að eiga stóran bróður þegar ég var yngri. Ef ég hefði átt eldri bróður þá hefði hann verndað mig í skólanum og svona,“ úskýrði Hilton sem er orðin meira en tilbúin í barneignir.

mbl.is