Vinkonur ala upp börnin saman

Vinkonurnar Drisana Parker og Jade Paul ala upp börn sín …
Vinkonurnar Drisana Parker og Jade Paul ala upp börn sín saman. Skjáskot/Instagram

Vinir á þrítugsaldri ákváðu að flytja inn saman til þess að spara en dýrtíðin var farin að segja til sín. 

Drisana Parker og vinkona hennar Jade Paul ákváðu að búa saman ásamt mökum sínum og börnum. Báðar eru þær í fæðingarorlofi og ala því börnin tvö upp sem systkin. 

Það skynsamlegasta í stöðunni

„Þetta er eins og að vera með gistipartý öll kvöld með bestu vinkonu sinni. Við eigum báðar maka og erum að ala upp börn á sama tíma. Svo kostar allt svo mikið. Húsnæðislánið hefur hækkað mikið sem og leigumarkaðurinn. Þetta var í raun það skynsamlegasta í stöðunni. Eins er þetta frábært fyrir börnin en þau eru bestu vinir og það er alltaf einhver til staðar til þess að gæta þeirra,“ segir Parker.

Gera allt saman

„Það getur verið einmanalegt að vera heima alla daga með börnin en nú hef ég stuðning annarrar móður sem skilur mig. Við erum alltaf saman. Við böðum börnin, svæfum þau og skiptumst á að elda. Svo horfum við saman á sjónvarpið og fáum okkur jafnvel í glas ef svo ber undir.“

„Það eru þrjú svefnherbergi í húsinu og tvö baðherbergi. Börnin deila herbergi þannig að það er nóg pláss fyrir alla.“

„Við erum mjög hissa að þetta hafi heppnast svona vel. Ég hélt að við myndum ekki búa svona lengi saman en allt hefur gengið að óskum.“

Allir höfðu efasemdir

Hugmyndin að sambúðinni kom upp yfir kvöldverði.

„Við vorum að borða og ég grínaðist með að þurfa að fá fólk til að flytja inn til mín þar sem ég var nýbúin að kaupa hús og það væri svo dýrt. Jade spurði svo hvort hún og maðurinn hennar mættu flytja inn. Mér fannst það frábær hugmynd. Nokkrum mánuðum síðar barst það aftur í tal og þá létum við af því verða.“

„Allir höfðu efasemdir. Foreldrar okkar voru vissir um að þetta myndi enda illa. Við myndum rífast og verða óvinir. En við höfum verið vinkonur frá 13 ára aldri og aldrei rifist. Ég mæli með svona fyrirkomulagi en fólk verður samt að vera góðir vinir. Maður verður að geta sagt frá því ef eitthvað fer í taugarnar á þér.“

„Nú getum við lagt til hliðar og undirbúið okkur betur fyrir framtíðina. Þá getum við verið lengur í fæðingarorlofi en annars sem okkur finnst dýrmætt.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert