Hefur hjálpað að eignast ekki börn

Hjónin Seth Rogen og Lauren Mills eru barnlaus og ánægð.
Hjónin Seth Rogen og Lauren Mills eru barnlaus og ánægð. AFP/Frederic J. Brown

Grínleikarinn Seth Rogen á ekki börn og sér ekki eftir því að hafa ekki eignast börn. Rogen og eiginkona hans leikkonan Lauren Miller hafa getað notið annarra hluta í lífinu en fjölskyldufólk.

„Það hefur líka hjálpað mér að ná langt,“ sagði Rogen í hlaðvarpsviðtal á dögunum að því fram kemur á vef Us Weekly. „Það er mjög stór hlutur sem ég er ekki að gera og það er að ala upp börn.“

Rogen og Miller gengu í hjónaband árið 2011 eftir sjö ára samband. „Sumt fólk vill börn. Sumt fólk vill ekki börn,“ sagði stjarnan sem segir að fólk sé sagt að fara í gegnum lífið með það að leiðarljósi að gifta sig og eignast börn. „En ég og konan mín vorum ekki þannig. Í hreinskilni sagt þá verðum við ánægðari með aldrinum með það val að eignast ekki börn,“ sagði Rogen. 

Rogen segist virkilega ánægður með lífið, þau hjón séu á hápunkti lífs síns, hafi aldrei verið gáfaðri, eigi góð samskipti, geti annast hvort annað og notið lífstíls sem þau vilja. „Ég og konan mín virðumst fá miklu meiri ánægju út úr því að eiga ekki börn en fólk virðist fá út úr því að eiga börn,“ sagði leikarinn sem hefur áður lýst yfir ánægju sinni með ákvörðunina. Hann hefur til að mynda sagt frá því að þau geti sofið út á laugardögum, reykt gras og horft á kvikmyndir nakin – eitthvað sem þau gætu ekki ef þau ættu börn. 

Lauren Miller og Seth Rogen.
Lauren Miller og Seth Rogen. AFP/ Michael TRAN
mbl.is