Hið litríka Harlem

Harlem liggur norðarlega á Manhattan, frá norðurenda Central Park og að 155. stræti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hverfið þótti stórhættulegt en líklega var versta tímabil hverfisins á árunum 1970 til 1989. Fallegu húsin sem byggð voru af ríku fólki í upphafi tuttugustu aldar voru á þessum árum í algerri niðurníðslu og íbúar Harlem fátækir svartir Bandaríkjamenn. Rusli var oftar en ekki hent út um gluggana og náðu oft hrúgurnar upp á aðra hæð húsa. Rottufaraldur geisaði í hverfinu og allt flóði í eiturlyfjum. Morð og glæpir voru daglegt brauð, enda hættu sér fáir þangað á þessum árum.

Harlem þótti samt sem áður eftirsóttur staður til þess að hlusta á góða tónlist og djamma og voru þeir ófáir frægir tónlistarmenn og listamenn sem hættu sér í hverfið til þess annað hvort að skemmta sér eða að kaupa eiturlyf.

Kjúklingur á vöfflu

Húsin í Harlem eru ákaflega sjarmerandi, hlaðin úr brúnum múrsteinum, og setja svip á hverfið. Þau hafa nú verið gerð upp og göturnar margar ákaflega fallegar. Kirkjur eru á hverju götuhorni og hægt er að fara í messu á sunnudögum og hlýða á gospelkór.

Breiðgatan sem liggur í gegnum hverfið og skiptir því í austur og vestur ber nafnið Lenox Avenue en gengur einnig undir nafninu Malcolm X Boulevard. Á þeirri götu er skemmtilegt að rölta og ekki vantar veitingastaðina þar! Bæði má finna þar nýja staði og eins gamla rótgróna staði sem margir bjóða upp á „soul food“ og „comfort food“. Þar er maturirnn djúpsteiktur, vel kryddaður og skammtarnir stórir að Bandaríkjasið. Steiktur kjúklingur, jafnvel ofan á vöfflu, er lostæti.

Á Red Rooster koma margir til að hittast, borða góðan …
Á Red Rooster koma margir til að hittast, borða góðan mat og hlusta á lifandi tónlist. mynd/asdisasgeirs

Veitingastaðurinn Sylvia's hefur steikt kjúklinga ofan í gesti og gangandi í 55 ár, og jafnvel má sjá Bill Clinton bregða þar fyrir, en hann býr víst í nágrenninu. Aðrir vinsælir staðir eru Red Rooster, sem býður einnig upp á suðurríkjamat, en með sænsku ívafi, en hinn heimsþekkti sænski kokkur Marcus Samuelsson ræður þar ríkjum. Í kjallaranum þar er Ginny's Supper Club þar sem tilvalið er að fara í sunnudagsdögurð og hlusta á gospelkór í leiðinni. Óhætt er að mæla með þessari skemmtun og maturinn er frábær!

Tveir góðir franskir staðir eru í götunni; Chez Lucienne og Barawine, og ítalski staðurinn Babbalucci er með bestu pítsurnar. Á mörgum þessara staða er lifandi tónlist á kvöldin, oft ljúfur djass eða blús.

Glingur og djass

Á 125. stræti, sem liggur þvert á Lenox, má finna verslanir ýmiss konar og jafnvel er þar hægt að kaupa gulltennur, glitrandi föt og hárkollur, en tískan í Harlem er skrautleg. Þar má líka finna hið þekkta Apollo-leikhús en margir frægustu söngvarar Ameríku hafa stigið þar á svið, eins og Aretha Franklin, James Brown, Michael Jackson, Little Richard og Ella Fitzgerald svo einhverjir séu nefndir. Nú er hægt að fara þangað á miðvikudagskvöldum á Amateur Night, en þar stíga viðvaningar á svið, öðrum til skemmtunar.

Harlem er þekkt fyrir djass og í Minton’s Playhouse má …
Harlem er þekkt fyrir djass og í Minton’s Playhouse má njóta matar og tónlistar. Mynd/asdisasgeirs

Í hverfinu má finna nokkra góða djassklúbba, eins og Minton's Playhouse, Showmans Jazz club og the Cotton club. Á Minton's Playhouse er hægt að njóta kvöldsins yfir góðum kvöldverði og djassi en dagskráin er þétt þar alla daga.

Hjólreiðar í garðinum

Þegar gengið er niður Lenox frá norðri lendir maður beint á garðinum stóra, Central Park, en norðurendinn er ákaflega fallegur með tjörn, sundlaug og lystigarði. Þar er hægt að rölta um og sjá skjaldbökur í vatninu, íkorna og þvottabirni. Auðvelt er að leigja sér hjól og hjóla hringinn í kringum garðinn; það er ótrúlega skemmtileg upplifun, bæði fyrir börn og fullorðna. Hjól er alls staðar að finna á City Bike stöndum, en nokkrar slíkar stöðvar er að finna á Lenox Avenue.

Norðurendi Central Park liggur við Harlem og gaman er að …
Norðurendi Central Park liggur við Harlem og gaman er að leigja sér hjól og hjóla hringinn í kringum þennan fallega garð. Það er góð skemmtun fyrir alla aldurshópa. mynd/asdisasgeirs

Stemmingin í Harlem er engri lík og mjög ólík því sem hægt er að upplifa í hverfunum niðri í bæ. Það er ótrúlega auðvelt að skella sér í neðanjarðarlest og fara út á á horninu á Lenox og 125. stræti, skoða sig um í hverfinu, borða góðan mat og rölta svo niður í garð.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »