Ákvað að byrja upp á nýtt

Ingólfur Snorrason ákvað að setja sér ný markmið fyrir nokkrum …
Ingólfur Snorrason ákvað að setja sér ný markmið fyrir nokkrum árum. Hann segir hollt að byrja upp á nýtt. Samsett mynd

Ingólfur Snorrason, frumkvöðull og þjálfari, stóð á tímamótum fyrir fjórum árum. Eftir langan feril sem íþróttamaður og þjálfari ákvað hann að setja sér ný markmið. Hann hóf að stunda kappakstur á mótorhjólum en hann hefur kynnst nýju fólki í gegnum áhugamálið og farið í æfingaferðir til útlanda.

Ingólfur var áður fyrr afreksmaður í karate og eftir það meðal annars landsliðsþjálfari Íslands í karate auk þess sem hann þjálfaði erlendis. Það kom þó að því að líkaminn gaf eftir. „Ég var eiginlega alltaf þreyttur í skrokknum. Ég hafði verið að glíma við meiðsli í langan tíma. Svo fór það þannig að ég var tekinn á skurðarborðið og það breytti öllu. Allt í einu var ég byrjaður að hreyfa mig aftur,“ segir Ingólfur um hvernig aðgerðin breytti lífinu.

Með breyttri líkamlegri getu ákvað Ingólfur að núllstilla sig.

„Ég fékk tíma fyrir mig, fór yfir hvað mig langaði að gera. Ég held að það sé mjög gott ef maður sem er að detta á miðjan aldur fær tækifæri til þess að hlusta á sjálfan sig. Ég kaus að gefa mér meiri tíma og setja mér nýjar og skemmtilegar áskoranir sem ég þekkti ekki. Maður hefur gott af því, sérstaklega þegar maður er búinn að vera á einhverjum stað sem maður þekkir vel og er jafnvel í sífellu leiðtogahlutverki. Þá er sterkt að fara til baka, prófa nýja hluti og byrja frá núlli,“ segir Ingólfur.

Ingólfur segir gott að aka á Spáni eins og sést …
Ingólfur segir gott að aka á Spáni eins og sést hér á myndinni. Ljósmynd/Ricardo Garcia

Rétt hugarfar skiptir máli

Ingólfur segist lengi hafa unnið í sjálfum sér og því kemur ekki á óvart að hann hafi sett sér ný og göfug markmið. „Ég hef verið í íþróttum alla mína tíð, hef lifað heilbrigðu lífi, æft vel og stundað hugleiðslu. Ég hef alltaf áhuga á að nota aðferðir sem gera manni kleift að kynnast sjálfum mér betur, bæði hugafarslega og líkamlega. Ég held að það sé gott að vera vera meðvitaður um það því þannig lærir maður á eigin takmörk og maður lærir á það sem manni veitir manni ánægju.“

Hvað veitir þér ánægju?

„Áskorunin við að finna að maður er að fara á nýjan stað með sjálfan sig í dag sem maður náði ekki að fara á í gær.“

Ertu með markmið í kappakstrinum?

„Stóra markmiðið er að fá meiri meiri tilfinningu fyrir því hvað maður er að gera á brautinni og tengingu við hjólið. Tengingin við eigin getu til þess að ná fram þeim tæknilegu atriðum sem maður er að leita eftir til þess að ná fram meiri hraða.“

Ingólfur segir að rétta hugarfarið skipti öllu máli á brautinni enda er ekið mjög hratt og auðvelt að lenda í skakkaföllum ef hausinn er ekki rétt stilltur.

Hefur þú fengið að heyra að þetta sé áhættufíkn?

„Já, ég hef alveg fengið að heyra það. Og það má alveg skilgreina þetta sport sem hættulegt,en áhættufíkn er þetta sannarlega ekki fyrir mér. Það er margt sem við gerum í lífinu sem hefur einhverja áhættu meðfylgjandi. Tengingin sem ég fæ út úr þessu er að mér finnst ég frekar tengjast einbeitingunni inn á við en að fá eitthvað aggressívt út úr þessu, að sleppa fyrir horn í þetta skiptið og sjá hvort ég komist upp með það á morgun. Þetta er alls ekki þannig, þetta er frekar það að ég er að tengjast tæknilega þættinum í íþróttinni og að læra að slaka á á meðan ég er að keyra, að dýpka einbeitinguna. Einnig að læra að bregðast rétt við krefjandi aðstæðum sem koma upp,“ segir Ingólfur sem segir skipta öllu máli að slaka á og hreinsa hugann.

Ingólfur hefur kynnst fjölda fólki í gegnum sportið. Hér er …
Ingólfur hefur kynnst fjölda fólki í gegnum sportið. Hér er hann með félaga sínum Ryad Alemady frá Katar. Ljósmynd/Aðsend

Stundar æfingar erlendis

Þegar blaðamaður hringdi í Ingólf var hann á Leifsstöð á leiðinni til Almeria á Spáni í fjögurra daga æfingabúðir. Hann segir Almeria mjög vinsælan áfangastað fyrir akstursíþróttafólk. Í æfingabúðunum koma hátt í 200 manns saman og keyra. Margir koma frá Bretlandseyjum, Þýskalandi, Hollandi og Belgíu, stundum kemur fólk jafnvel lengra að.

Hvar er skemmtilegast að keyra?

„Aðstæðurnar á Spáni eru frábærar, veðurfarslega eru þær mjög öruggar. Við erum með hjól á staðnum. Það gott að fara á þessa braut. Á sumrin er náttúrulega æðislegt að vera heima og keyra á Íslandi. Í framtíðinni eigum við örugglega eftir að prófa nýja staði og skoða fleiri áskoranir. Hver veit hvort maður prófi að hoppa í keppnisgallann einhversstaðar og sjá hvort maður geti þátt í smærri keppnum á Bretlandseyjum eða einhvers staðar nálægt okkur, það yrði geggjað“ segir Ingólfur að lokum.

Hjólað á Almeria þar sem gott veðurfar leikur upp akstursfólk.
Hjólað á Almeria þar sem gott veðurfar leikur upp akstursfólk. Ljósmynd/Fran Garcia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert