Keypti flugmiða aðra leið til Hong Kong

Denise Margrét Yaghi sátt með lífið í Hong Kong.
Denise Margrét Yaghi sátt með lífið í Hong Kong. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmisdansarinn Denise Margrét Yaghi keypti flugmiða aðra leið til Hong Kong í ágúst 2017. Hún starfar bæði sem dansari og danskennari í Hong Kong og segir það hafa verið lítið mál að komast inn í lífið í Hong Kong enda borgin mjög vestræn.  

„Mér bauðst það tækifæri að dansa við ástralskan dansara sem hafði þá verið í þessum frábæra dansskóla sem ég vinn hjá í dag í rúm fimm ár. Ég fór í prufu fyrr um sumarið til London og í framhaldi keypti ég „one way“-miða og var flutt hingað stuttu síðar. Ég vinn fyrir dansskóla sem heitir Dansinn Heavenly, dansa bæði sjálf og kenni þar líka,“ segir Denise um ástæðuna fyrir því að hún flutti til Hong Kong. 

Denise Margrét starfar sem samkvæmisdansari og danskennari í Hong Kong.
Denise Margrét starfar sem samkvæmisdansari og danskennari í Hong Kong. Ljósmynd/Aðsend

Voru mikil viðbrigði að flytja til Hong Kong? 

„Já og nei, mér fannst þetta allt svo svakalega spennandi og skemmtilegt allt saman svo ég pældi ekkert mikið í þessum miklu breytingum sem urðu á lífi mínu. En auðvitað var þetta allt annað en það sem ég þekkti áður. Ég hafði aldrei búið í stórborg eða komið hingað sem ferðamaður. Mestu viðbrigðin voru sjálfsagt hvað borgin er dýr, þá sérstaklega leiga og matvörubúðir. Borgin er mjög vestræn og langflestir tala ensku svo það var ekkert mál að komast inn í menninguna.“

Hvað er ómissandi að sjá og gera í Hong Kong?

„Borgin býður upp á svo margt. Svo margir mismunandi hlutir svo það er kannski persónubundið. Það góða er þó að borgin sjálf er mjög lítil, þótt hún sé fjölmenn, og mjög auðvelt að ferðast um á milli staða sem auðveldar manni að sjá og gera margt á einum degi. 

Victoria Peak er eitt aðalkennileitið og er algjörlega ómissandi. Svo finnst mér mjög skemmtilegt að fara með gesti að sjá Big Buddha, Ladies Market, rölta um Soho og kíkja á „rooftop bar“. Svo eru æðisleg fjöll og strendur hér allt um kring svo ég myndi hiklaust mæla með því.“

Fjöll og strendur eru allt um kring.
Fjöll og strendur eru allt um kring. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastað? 

„Hong Kong er sögð vera „matarborg“ og býður upp á gjörsamlega allt þegar kemur að góðum mat, og frá öllum heimshornum. Lókal maturinn hér finnst mér mjög góður, en „dim sum“ er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það eru svona smáréttir með alls konar „dumplings“. Ég á marga uppáhaldsstaði en Din Tai Fung, Holeefook, Brickhouse og Kytaly komast sjálfsagt efst á þann lista.

Mikið er um skemmtilega veitingastaði í miðbænum.
Mikið er um skemmtilega veitingastaði í miðbænum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn í Hong Kong?

„Draumadagur að mínu mati er að byrja á að fara í fallega fjallgöngu sem endar á ströndinni. Svo enda daginn á að rölta um í miðbænum og ramba inn á einhvern skemmtilegan veitingastað.“

Er eitthvað sem ferðamenn þurfa að passa sig á?

„Ég myndi segja að þetta sé ein öruggasta borg í heimi og allir tala um það sem þekkja borgina. Það er kannski helst að það er mjög heitt hérna á sumrin og rakt svo það þarf að passa upp á að muna að drekka mikið af vatni. 

Svo núna nýlega þegar mótmælin eru í gangi er kannski best að halda sig utan þeirra á kvöldin og vera meðvituð um að lestir og götur geta verið lokaðar. Svo ef þið þurfið að ferðast milli staða þá er gott að taka góðan tíma til að lenda ekki í stressi.“

Háhýsi einkenna borgina.
Háhýsi einkenna borgina. Ljósmynd/Aðsend
Fjallgöngur sem enda á ströndinni eru í uppáhaldi.
Fjallgöngur sem enda á ströndinni eru í uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend
Ströndin heillar.
Ströndin heillar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert