Miðaldra konan rýkur upp um 1.621 sæti

Ásdís Ósk Valsdóttir náði sínum besta tíma hingað til í …
Ásdís Ósk Valsdóttir náði sínum besta tíma hingað til í Reykjarvíkurmaraþoninu.

„Ég vissi alltaf innst inni að hlaup væru ekki fyrir mig. Þau væru fyrir hina. Fólkið sem er hannað til að hlaupa. Fólkið sem er meðfæddir hlauparar. Þú verður að hafa þetta í genunum. Þetta verður að vera hluti af þér. Það er ekki eins og þú byrjir á því að hlaupa og verðir svo allt í einu hlaupari,“ segir miðaldra konan, Ásdís Ósk Valsdóttir, í sínum nýjasta pistli: 

Nei, ég vissi að annað hvort ertu hlaupari eða ekki. Ég þekkti fullt af svona fólki. Fólki sem hljóp maraþon út um allt og fór sjálfviljugt út að hlaupa í allskonar veðri, skrýtna fólkið. Ég skildi ekki alveg þetta fólk en ég öfundaði það samt af því að geta hlaupið. Ég væri alveg til í að geta hlaupið. Ég gat það bara ekki og það þýddi ekkert að reyna það. Ég var margbúin að reyna að byrja að hlaupa. Það gekk aldrei upp. Ég hafði ekkert úthald. Ég fékk beinhimnubólgu. Ég var með allskonar verki og mér leið ekki vel af hlaupum. Svo var það þetta smáatriði. Mér fannst alveg drepleiðinlegt að hlaupa. Margar af mínum bestu vinkonum eru hlauparar.  Þær eru ekki bara hlauparar. Þær hafa allar hlaupið maraþon út um allt, ásamt auðvitað fullt af styttri hlaupum. 

Einu sinni fórum við fjórar í borgarferð til New York. Þetta átti að vera notaleg stelpuferð.  Ég, Ása, Rebekka og Hilda. Við vorum allar saman í bekk í Menntaskólanum á Akureyri og héldum hópinn eftir útskrift. Svo kom bomban. Rebekka sendir póst: „Eigum við ekki að tala með hlaupaskó og taka morgunskokk meðfram Hudson ánni?“ Ég vissi ekki hvert ég ætlaði.  Þetta er stelpuferð. Við erum að fara að njóta. Ef þið viljið endilega eyðileggja ferðina, þá megið þið alveg taka með ykkur skó og fara að skokka. Ég ætla þá að sofa út eða slaka mér á góðu kaffihúsi. Ég er ekki geðveik. Það tekur ENGINN með sér hlaupaskó í helgarferð til New York. Nema helst þá af því að það er svo mikið labb að hlaupaskórnir gætu nýst í það.  Að auki átti ég enga hlaupaskó þannig að ég gat ekki einu sinni tekið þá með.

Hilda vinkona Ásdísar Óskar hefur verið hennar helsta klappstýra.
Hilda vinkona Ásdísar Óskar hefur verið hennar helsta klappstýra.

Miðaldra konan tekur ákvörðun um að verða víst hlaupari

Svo var það í apríl lok 2018 að ég ákvað að gerast hlaupari. Ég hafði fyrr á árinu skráð mig í 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og 5 km í Suzuki hlaupinu. Ég vissi nú alveg innst inni að ég gæti aldrei hlaupið þessa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu en mögulega gæti ég skriðið þessa 5 km í Suzuki hlaupinu. Það var í júní en Reykjavíkurmaraþonið í ágúst. Ég treysti mér ekki á formlegar hlaupaæfingar. Ég vissi að ég væri ekki nógu góð fyrir einhvern hlaupahóp. Hafði einu sinni skráð mig í hlaupanámskeið á líkamsræktarstöð og við vorum eiginlega látin hlaupa þar til við ældum næstum því þannig að ég taldi það fullreynt. Ég ákvað því að gera þetta alveg sjálf, sótti app sem heitir 10 km og ákvað að byrja að hlaupa. Til að setja pressu á mig, deildi ég öllu á samfélagsmiðlana og svo lagði ég af stað. Þetta gekk ekkert rosalega vel til að byrja með. Ég hafði ekkert úthald og meira að segja fyrsta vikan sem var hlaupa í 1 mínútu og ganga í 1,5 mínútu * 5 sinnum var aðeins of mikið fyrir mig. Ég náði rétt svo að hlaupa á milli ljósastaura. Ég var hins vegar ákveðin í að geta þetta og þetta varð auðveldara með hverri vikunni sem leið.

Þegar kom að Suzuki hlaupinu kom upp mikið stress. Hvað ef ég villist? Hvað ef ég tek vitlausa beygju? Hvað ef ég örmagnast? Hvað ef mér verður of heitt, of kalt, of svöng, of þyrst? Hvað ef ég er of mikið klædd, of lítið klædd? Ég hafði áhyggjur af öllu og engu.  Ég hafði einfaldlega aldrei tekið þátt í neinu keppnishlaupi og vissi ekkert út í hvað ég var að fara. Hlaupið gekk hins vegar vonum framar þó að það hafi verið erfitt og ég lauk því á ágætistíma 32,48 mínútur.  Þarna var ég búin að hlaupa í 2 mánuði. 

Hér er Sunna Valdís ásamt fjölskyldu sinni.
Hér er Sunna Valdís ásamt fjölskyldu sinni.

Miðaldra konan bugast næstum því af stressi fyrir keppni

Þegar Reykjavíkurmaraþonið nálgaðist, þá hófst sama stressið og gott betur. Þarna hafði ég hlaupið mest 7 km og kveið ógurlega fyrir því að hlaupa 10 km. Vissi ekkert hvort að ég gæti það eða hvort að ég myndi hreinlega bugast á leiðinni og örmagnast. Ég setti mér markmið að vera í kringum 70 mínútur. Ég hafði ekki hugmynd um hversu raunhæft það var þar sem ég hafði aldrei hlaupið 10 km. Mér fannst það bara virka smart að hlaupa undir 70 mínútum.  Magga vinkona fórnaði sér í að hlaupa með mér þar sem ég var virklega stressuð að týnast einhvers staðar á Seltjarnarnesi. Hlaupið gekk nokkuð áfallalaust. Við stoppuðum á drykkjarstöðvum og ég gekk upp háu brekkuna við Eiðistorgið. Mér leið nokkuð vel allan tímann og alveg laus við að þurfa að æla. Ég tók meira að segja fram úr fullt af fólki.

Það var reyndar líka eitthvað fólk sem tók fram úr mér en það er nú algjört aukaatriði. Ég valdi eitt félag sem var að hlaupa í appelsínugulum bolum og einbeitti mér alltaf að því að ná næsta appelsínugula bol. Mæli eindregið með þeirri aðferð. Þú hættir að spá í hvað hlaupið er langt, þú þarft bara að ná næsta bol. Þegar það voru svona 2 km eftir þá sá ég loksins 70 mínútna blöðruna.  Ég ætlaði ekki að hlaupa yfir 70 mínútur og gaf aðeins í. Það gekk svona glimrandi vel og flögutíminn minn endaði í 01:06:16. Magga sagði mér seinna að henni hefði ekkert litist á blikuna, hélt að ég myndi drepa mig á lokasprettinum.  Þegar myndirnar frá hlaup.is birtust,  leit ég það illa út að það hvarflaði ekki að mér að kaupa eintak.  Ég var eldrauð í framan og með útbólgnar æðar í andlitinu sem ég vissi ekki einu sinni að ég hefði.  Málið er einfalt, þú getur alltaf meira en þú heldur.  David Goggins segir reyndar að þú eigir 40% inni þegar þú ert alveg búin en ég er kannski ekki alveg sammála honum með það.   En þú átt sannarlega alltaf eitthvað inni.

Miðaldra konan þreytt og nennir ekki í Reykjavíkurmaraþonið

Sumarið 2019 var ég komin í mun betra hlaupaform en 2018.  Ég tók þátt í FÍ Landvættum og með þeim hljóp ég Fimmvörðuhálsinn (25 km), Þorvaldsdalsskokkið (25 km) og Jökulsárhlaupið (33 km) auk allskonar hlaupa utanvega sem og á malbiki.  Ég var samt ekki í neinum formlegum hlaupaæfingum.  Þrátt fyrir öll mín hlaup og alla mína sigra treysti ég mér ekki ennþá á hlaupaæfingar  Fannst ég ekki orðin nógu góð ennþá.  Vikuna fyrir Reykjavíkurmaraþonið var ég hálfþreytt.  Ég var nýbúin að hlaupa 33 km í Jökulsárhlaupinu.  Ég var eitthvað aum í hnjánum.  Ég var illa sofin og orkulaus.  Hins vegar var ekkert í boði að hætta við. Ég var að hlaupa fyrir hana Sunnu vinkonu mína. Hún þjáist af hræðilegum taugasjúkdómi sem heitir AHC og notast við hjólastól á hverjum degi.  Ég bað pabba hennar einu sinni að útskýra þetta fyrir mér. Hann sagði, stutta útgáfan er að þeir sem þjást af AHC hafa uppsprettu allra taugasjúkdóma. Þetta er móðurkartaflan. Ef þú ert með AHC þá hefur þú einkenni allra þekktra taugasjúkdóma. Mér var illt í hnénu. Pabbi Sunnu myndi gefa aðra löppina ef það myndi þýða að það versta sem Sunna myndi upplifa að henni væri illt í hnénu á slæmum degi. 

Ragga og Siggi, foreldrar Sunnu, eru einar af mínum fyrirmyndum. Alveg sama hvað kemur upp á þá standa þau saman eins og klettur og gefa frekar í. Þau eru óþrjótandi í að leita að lækningu fyrir Sunnu og aðra sem þjást af AHC sjúkdómnum. Í haust standa þau fyrir ráðstefnu á Íslandi og fá til Íslands fjöldan allan af læknum og vísindamönnum. Það eru fáir sem ég þekki sem hafa jafn mikinn og skýran fókus á eitt verkefni. Verkefnið velferð Sunnu.  Þegar ég er þreytt þá er ég stundum löt og nenni ekki að hreyfa mig eða hugsa um heilsuna. Þegar þú ert með AHC ákveður þú ekki hvenær þú vilt fá frí. Þú tekur þér ekkert letidag.  Stundum fær Sunna kvalafull köst sem standa yfir í marga daga. Það er ekkert frí frá AHC.  AHC yfirtekur þig þegar það vill.  Það eru engar samningaviðræður. Það er ekkert, ég er frekar illa stemmd. Gætum við tekið þessi köst í næstu viku?    Þess vegna skiptir Reykjavíkurmaraþonið svo miklu máli.  Oft er þetta eina fjáröflunin sem góðgerðasamtök hafa.  Í ár söfnuðust tæplega 170.000.000.  Það má hinsvegar styrkja allt árið um kring.  Ef þú vilt vita meira um AHC þá eru allar upplýsingar hérna – www.ahc.is

Ég ákvað því að hætta þessu væli og klára hlaupið. Gera mitt besta og hafa gaman af þessu.  Alveg síðan ég byrjaði minn hlaupaferil fyrir ári síðan, hafði mig dreymt um að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu undir klukkutíma. Hvers vegna? mér fannst það eitthvað svo töffaralegt. Þetta virkaði eitthvað sem alvöru hlauparar geta. Ég setti mér því sem markmið að hlaupa á 59.59.  Ekki afþví að ég væri sannfærð um að ég gæti það, heldur meira af því að mig langaði svo hriklega mikið til að geta það.

Hlaupastuttbuxurnar týnast, hvað gerir kona þá?

Kvöldið fyrir hlaupið sendi ég hefðbundin kvíðaskilaboð á Hildu. Í hverju á ég að vera?  Hún sendi til baka. Stefnir í gott veður. Stuttbuxur og hlýrabol. Frábært, ég græja það. Ég ákvað reyndar að vera í stuttbuxunum og stuttermabolnum sem ég keypti í Fjallakofanum fyrir Þorvaldsdalsskokkið af því að stuttbuxurnar voru ekki bara þægilegar heldur voru þær líka með renndum vasa fyrir lykla og bolurinn var með símavasa.  Eina hlaupaflíkin mín sem var með símavasa.  Það var eiginlega nauðsynlegt þar sem ég var ekki ennþá búin að kaupa mér hlaupaveski. 

Ég vaknaði eldsnemma um morguninn.  Ákvað að gefa mér góðan tíma.  Fá mér staðgóða ommelettu og leggja snemma af stað niður í bæ til að fá gott stæði.  Byrjaði á því að taka til fötin.  Það gekk nú ekki vel.  Mögulega hefði það verið góð hugmynd að taka þau til að kvöldi en ég er mjög skipulögð og veit alltaf nákvæmlega hvar allt er.  Já, sko allt nema hlaupastuttbuxurnar.  Þær voru ekki á sínum stað.  Ég tók út allan fatnað sem tengdist íþróttum en ekkert.  Hlaupastuttbuxurnar voru horfnar.  Þetta var ekki gott því það voru engar búðir opnar til að redda hlaupaveski.  Vinur minn sagði, þarftu eitthvað síma.  Þetta eru bara 10 km. Jú, það er eiginlega lífsnauðsynlegt að hafa góðan playlista til að koma sér í gegnum 10 km götuhlaup á malbiki. 

Það er allt annað í náttúruhlaupum.  Þá er maður bæði að njóta útsýnisins og svo finnst mér ágætt að heyra ef einhver skildi kalla á mig afþví að ég er óvart að fara að hlaupa framaf klettabrún eða eitthvað svoleiðis.  Þá mundi ég allt í einu að þær voru í öðru bæjarfélagi.  Ákvað að renna eftir þeim og vona að þær væru hreinar og samanbrotnar á góðum stað.  Staðgóða ommelettan breyttist í AB mjólk með músli og bláberjum og tíminn var að renna frá mér.  Ég fann buxurnar og græjaði mig. Ég var reyndar ekki alveg sannfærð með þetta veðurplan hennar Hildu þannig að ég tók með á síðustu stundu nokkrar flíkur sem varaplan þegar ég kæmi í miðbæinn. Þykku hlaupbuxurnar  mínar, regnhlaupajakkann, húfu, vettlinga, buff og auka peysu. Keyrði í miðbæinn og fann fullkomið stæði. Þetta leit allt saman mjög vel út. Veðrið var fínt og ég hélt mig við stuttbuxurnar og bolinn.  Ákvað að í versta falli myndi ég hlaupa mér til hita. Hitti Viktor Loga son minn sem ætlaði að hlaupa með mér.  Ég var nú ekkert viss um hvernig það myndi ganga.  Í fyrra hljóp hann á 56.20 og ég á 66.16, heilar 10 mínútur á milli okkar.  Hann vissi að mig langaði að hlaupa undir 60 mínútum og með tröllatrú á móður sinni þá skellti hann okkur í hólfið 55-60 mínútur.  Stemmingin fyrir Reykjavíkurmaraþonið er engri lík.  Það er ekki annað hægt en að smitast af gleðinni í keppendum og komast í gírinn.

Reykjavíkurmaraþonið

Við vorum ræst af stað og hlaupið byrjaði.  Ég fór vel af stað og fann ekki fyrir verknum í hnénu. Ég var á góðum hraða og náði að taka fram úr nokkrum og nokkrir tóku fram úr mér.  Ég sá reyndar ekki Viktor Loga. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af því. Mín stefna fyrir hlaupið var einföld.  Einbeita mér að mér.  Halda uppi góðum meðalhraða og skemmta mér.  Það er gífurlegur munur að hlaupa í fyrsta skiptið og annað skiptið. Núna vissi ég nákvæmlega hvar drykkjarstöðvarnar voru. Ég vissi líka hvað 1 km er langur í hlaupi og hvar brekkurnar voru.  Talandi um brekkurnar.  Það voru engar brekkur í þessu hlaupi. Eins og brekkurnar í fyrra voru erfiðar gat ég ekki annað en hlegið þegar við komum að brekkunni við Eiðistorgið.  Brekkan sem ég labbaði upp í fyrra af því að mér fannst hún svo erfið.  Þetta var meira svona smá halli.  Ég stefndi að því að hafa jafnan og góðan hraða, að líða vel allt hlaupið.  Ég leit reglulega á Garmin úrið og sá hvað ég var komið langt. Einu sinni gerði ég þau mistök að skoða hraðann sem ég var að hlaupa á. Fannst hraðinn sem úrið sýndi of mikill og hægði þá á mér.  Ekki afþví að mér leið illa eða fannst hlaupið erfitt, heldur afþví að hausnum á mér fannst ég vera að fara of hratt.  Eftir það leit ég aldrei á hraðann aftur, bara á kílómetrana.   Það eru tvær drykkjarstöðvar í 10 km hlaupinu og ég stoppaði á báðum. Hvarflaði ekki að mér að sleppa þeim eftir að hafa upplifað algert orkuleysi í Jökulsárhlaupinu og komast ekki áfram.  Það var reyndar eftir 20 km og fyrri drykkjarstöðin núna var eftir 3 km en ég ákvað að taka enga áhættu í þetta skiptið.  

Það er mjög gaman að hlaupa í gegnum Vesturbæinn og Seltjarnarnesið þar sem fólkið tekur virkan þátt í að hvetja. Ég á fullt af vinum og ættingjum sem búa þarna. Þau tóku ekkert eftir mér. Ég túlka það sem svo að þau sáu pottþétt ekki svona hratt, ég geystist framhjá þeim.  Uppáhaldsstöðin mín er samt stöðin með marsbitana og banana.  Ég var sem betur fer andlega undirbúin þegar ég fór framhjá Garmin stöðinni.  Í fyrra var það algjört áfall.  Ég sá eitthvað sem líktist marki.  Ég var svo rosalega rosalega glöð enda alveg búin á því á þeim tímapunkti.  Var líka frekar sátt hvað þetta hafði verið miklu styttra en ég átti von á.  Garmin stöðin er eftir 7 km.  Það er erfitt að lýsa svekkelsinu þegar þú áttar þig á því að hlauparnir héldu áfram að hlaupa eftir að þeir fóru í gegnum „markið“ og að það væru ennþá 3 km eftir í lokamarkið.  Það var 1/3 af hlaupinu sem var eftir. 

Góð tónlist heldur geðheilsunni í lagi og líka hlaupastílnum

Ég var með playlista frá Spotify. Þetta er hlaupalisti sem er með breytilegum lögum. Yfirleitt er hann góður en þetta skiptið var einhver búinn að breyta honum hressilega. Allskonar lög sem ég þekkti ekki og gott ef það duttu ekki inn einhver rapplög inn á milli. Við Garminstöðina gafst ég endanlega upp og ákvað að setja Queen playlistann í gang.  Ég hafði farið á „We will Rock you“ tónleikana kvöldinu áður og var ennþá stútfull af þeirri orku og gleði sem ég fékk á tónleikunum. 

Þegar 1.5 km voru eftir kom „We are the Champions“.  Það var akkúrat það sem ég þurfti.  Þarna var ég líka farin að átta mig á því að það væri raunhæfur möguleiki á að klára hlaupið undir 60 mínútum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að setja í fluggírinn og hætta að hugsa um smart endaspretti og fallegar myndir á hlaup.is. Ég kom í mark á 58.49, meira en mínútu betri tími en mínir villtustu draumar gerðu ráð fyrir.  Ég var í skýjunum með tímann.  Eftir hlaupið fékk ég sms frá syni mínum.  Mamma, léstu pabba vinna þig.  Ég sendi til baka.   Hvernig gekk þér? 1.06.34 (aðeins verra en tíminn minn í fyrra).  Ég sendi, léstu mömmu þína rústa þér.  Engin skömm í því sagði 17 ára sonur minn, þú ert betri en ég.

Flögutíminn sýndi bæting um 1.621 sæti á milli ára

Ég ákvað að bera saman tímana mína á milli ára.

2018 var ég í sæti 3811 af öllum í 10 km hlaupinu.  2019 var ég í sæti 2190.  Bætingin er 1.621 sæti

2018 var ég í sæti 1737 af öllum konum í 10 km hlaupinu.  2019 var ég í sæti 711

Ég endaði í 74 sæti af þeim 586 konum sem voru í mínum aldursflokki 50-59 ára.

Hlaup er ekkert nema reynsla.  Það munar ótrúlega að geta sótt í reynslubankann. Vita hvar drykkjarstöðvarnar eru.  Hvaða hraða ég þoli og hvenær ég get tekið endasprettinn án þess að drepa mig.  Næst þarf ég samt að eiga aðeins inni fyrir fallegan endasprett.  Ég er búin að sjá myndirnar á hlaup.is og þær eru ekki birtingarhæfar, annað árið í röð.

Hvað klikkaði hjá Viktori Loga?  Í fyrra var hann að æfa fótbolta með Breiðablik.  Um haustið byrjaði hann í MR og hætti í fótbolta til að einbeita sér að náminu. Hvað sýnir þetta okkur?  Það er jafnauðvelt að bæta sig eins og að missa niður færni.  Lykilinn er að vera alltaf að.  Það er í góðu lagi að taka pásur ef þær eru ekki margir mánuðir eða ár.  Stundum er hvíld samt besta æfingin. 

Ég er því miklu meira en sátt með hlaupið.  Ég gat miklu meira en ég hélt að ég gæti og núna er ég komin með samanburðinn á milli ára og get því farið að setja mér raunhæf markmið fyrir 2020. 

Eftir hlaupið tók við hefðbundið spjall og selfie myndataka með Hildu sem tók reyndar 21 km sem æfingu fyrir Maraþonið í New York í nóvember.

Að komast úr miðbænum getur tekið á

Fína stæðið mitt sem ég fann um morguninn reyndist ekki vera besta heimferðarstæðið.  Gangbrautin fyrir framan bílastæðin var nefnilega hluti af heil maraþon brautinni og það tók mig 75 mínútur að komast af stæðinu.  Ég hef hins vegar aldrei upplifað aðra eins kurteisi í íslenskum ökumönnum og þennan morgun.  Það voru allir rólegir og bílarnir runnu eins og smurt tannhjól, mjög hægt tannhjól að vísu en mjög vel smurt.  Ég komst heim að lokum, tók niður tilboð í 2 eignir og fór svo seinni partinn á Menningarnótt og naut þess að upplifa stemminguna í miðbænum í góða veðrinu.  Daginn eftir þakkaði ég fyrir hvað við vorum heppin með veður þegar fyrsta haustlægð ársins mætti á svæðið.

Hvað er næst?  Það kitlar að taka 21 km næst en það kitlar eiginlega meira að setja mér mjög metnaðarfull markmið fyrir 10 km og sjá hvað á ég inni í bætingu.  Ég veit að ég fer ekki aftur upp um 1.621 sæti, nema auðvitað það verði sprenging í skráningu í Reykjavíkurmaraþoninu en markmiðið er sem sagt að hlaupa undir 55 mínútum næst.

Svo þarf ég að læra að elska sund jafnmikið og hlaup og læra að hlakka til að fara á sundæfingar.  Það er víst ekki annað hægt þegar kona er búin að ákveða að keppa í hálfum járnkarli á næsta ári að tækla sundið með bros á vör.

Mánudaginn eftir hlaup átti ég tíma hjá sjúkraþjálfara.  Var búin að bíða aðeins eftir þessum tíma þar sem ég var búin að vera ansi aum í hnénu.  Daginn eftir hlaup var ég samt furðulega góð í hnénu og verkurinn að mestu horfinn.  Á mánudeginum fann ég hann ekki.  Ég spurði hvort að þetta væri eðlilegt. Já í raun, líklega hljópstu hann úr þér.  Þetta er nú meiri snilldin verð ég að segja.   Reyndar bar ég Voltaren krem á hnéið nokkrum sinnum sem hann taldi að hefði hjálpað heilmikið til líka.

Nokkur góð ráð fyrir framtíðarhlaupara

  1. Ert þú alltaf að hugsa um að fara Reykjavíkurmaraþonið en „veist“ að þú getur það ekki. Heilt ár til stefnu, bara byrja í dag að setja einn fót framfyrir hinn
  2. Þú ert alveg nógu góð/-ur fyrir hlaupahóp. Það bjóða flest íþróttafélög upp á byrjendahópa.
  3. Þetta liggur allt í skónum. Gott að byrja á göngugreiningu ef vandamál hafa verið að hrjá þig.
  4. Kosturinn við að vera mjög lélegur í upphafi er að það er svo auðvelt að bæta sig heilan helling á stuttum tíma
  5. Hvað sem þú gerir, ekki hætta. Þetta verður alltaf auðveldara og á ótrúlega stuttum tíma. 

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: 

View this post on Instagram

“You must do the thing you think you cannot do.” -Eleanor Roosevelt Í dag hljóp ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var í annað skipti. Fyrir ári síðan hljóp ég mitt fyrsta. Þá hafði ég hlaupið í 3 mánuði og byrjaði á að hlaupa 1 mínútu og ganga 1 mínútu. Ég gat varla hlaupið milli ljósastaura. Reykjavíkurmaraþonið var alltaf verið grýlan mín. Þetta sem ég vissi að ég gæti ekki gert og var fyrir hina. Hina sem gátu hlaupið. Hina sem voru íþróttafólk. Í fyrra hljóp ég á 66.16 mínútum og var í 3.811 sæti af öllum í 10 km . Í ár hljóp ég á 58.49 mínútum og var í 2.193 sæti af öllum skráðum keppendum, bæting um 1.618 sæti. Hefði aldrei trúað því þegar ég lagði upp í mína vegferð hvað er hægt að bæta sig á stuttum tíma með því að gefast aldrei upp og halda áfram og hvað þetta ferðalag hefur verið gefandi og skemmtilegt. Today I ran 10 km in the Reykjavíkmarathon. This was my second time. One year ago, I ran my first. At that time i had ran for 3 months and started by running one minute and walking one minute. I could hardly make to from one street light to another. The 10 km in Reyjavíkurmaraton was always my boogieman. What I knew, was that I could not do it and it was for the other people The people that could run. The athletes. Last year I ran at 66.16 minute and finish number 3.811 overall in 10 km. This year I ran at 58.49 and finished number 2.193 overall, going up 1.618 places. I would never have believed this when I started my journey 2 years ago how much you can improve in short time by just being consistent and how much fun this journey has been. #reykjavikurmarathon #reykjavikurmaraþon2019 #runlikeagirl #running #becauseican #growthmindset #þægindaramminn #madeiniceland🇮🇸 #fjallakofinn #raidlight @hraftry @viktorlogi02

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Aug 24, 2019 at 8:58am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert