Vín og villidýr í Suður-Afríku

Vilmundur Hansen, garðyrkju- og grasafræðingur, starfar dags daglega á Bændablaðinu. …
Vilmundur Hansen, garðyrkju- og grasafræðingur, starfar dags daglega á Bændablaðinu. Hingað til hefur hann lagt meiri áherslu á gróðurfar en dýralíf á ferðalögum sínum. Í ár hefur það reyndar breyst þvi hann hefur bæði farið til Madagaskar og til Suður-Afríku og skoðað þar mörg framandi dýr. Ljósmynd/Aðsend

Vilmundur Hansen er tiltölulega nýkominn heim úr ferðalagi um syðsta odda Afríku þar sem þemað var vín, villidýr og gróður. Hann segist enn vera að melta ferðina enda mikil upplifun að hossast um í Land Rover í leit að villtum dýrum.

Ferðin var skipulögð af ferðaskrifstofunni Farvel og leiddi Vilmundur, sem er garðyrkju- og grasafræðingur, hópinn um náttúru sem hann segir að sé engu lík. Ferðinni var heitið eftir Blómaleiðinni svokölluðu (Garden Route) við suðausturströnd Afríku en leiðin liggur m.a. um svæði þar sem villidýr lifa frjáls, en aðaláhersla ferðarinnar voru blóm, vín og villt dýr. „Þetta þrennt er gott „kómbó“, ekki síst fyrir fólk sem hefur áhuga á náttúru og dýralífi. Í ferðinni voru meðal annars heimsóttir grasagarðar, farið í vín- og súkkulaðismökkun og safarí þar sem farið var á slóðir villtra ljóna, flóðhesta, gíraffa, sebrahesta og nashyrninga svo dæmi séu nefnd. Mesta nýjungin fyrir mig í ferðinni var að fara í safarí og mikil upplifun að hossast á Land Rover og líta eftir villtum dýrum. Í einu tilfelli kom ljónynja, sem var nýbúin að eiga afkvæmi, að hræi af gný sem lagt var fyrir hana hlaupandi í átt að fæðunni og það var ótrúleg sjón. Gíraffar eru ótrúlega flott og tignarleg dýr að sjá í návígi og vörtusvín eru fyndin á hlaupum. Satt best að segja fannst mér ferðin öll merkileg og á því erfitt með að gera upp á milli þess sem fyrir augun bar,“ segir Vilmundur. 

Á Blómaleiðinni í Suður-Afríku keyra ferðamenn í gegnum svæði með …
Á Blómaleiðinni í Suður-Afríku keyra ferðamenn í gegnum svæði með villtum dýrum og geta komist í mikla nálægð við þau. Ljósmynd/Aðsend

Engin fer til Afríku án þess að fara í safarí

Vilmundur hefur ferðast talsvert til fjarlægra slóða en á ferðalögum sínum hefur hann yfirleitt lagt meiri áherslu á að skoða gróðurfar heldur en dýralíf. Í Suður-Afríku finnast þúsundir ólíkra plantna en eins og Vilmundur orðar það þá fer enginn heilvita ferðamaður til Afríku án þess að fara í safarí, svo ekki kom annað til greina en að leggja áherslu á bæði gróður og dýralíf. Fyrr á árinu fór Vilmundur í aðra ferð þar sem dýralífið var ekki síður aðdráttarafl heldur en gróðurinn en þá lá leið hans til Madagaskar. „Madagaskar hefur lengi verið draumaáfangastaður hjá mér. Sem krakki horfið ég á þessa fjarlægu og dularfullu eyju á korti og dreymdi um að fara þangað. Í vor rættist sá draumur og ég varð ekki fyrir vonbrigðum enda gróðurfar og dýralíf á eyjunni einstakt.“

Vilmundur segir engan heilvita mann fara til Suður-Afríku án þess …
Vilmundur segir engan heilvita mann fara til Suður-Afríku án þess að fara í safarí. Ljósmynd/Aðsend

Antilópur og strútar í matinn

Í ferðinni til Suður-Afríku fólst einnig mikil matar- og vínupplifun og var fjölbreytt kjöt smakkað í ferðinni. „Eitt af því sem er gaman við að ferðast er að borða rétti sem maður hefur ekki smakkað áður og ég læt slík óspart eftir mér hvert sem ég fer. Meðal þess sem ég borðaði með bestu lyst í þessari ferð og hef ekki smakkað áður var antilópu- gný og kudu-steik sem er úrvalsmatur. Ég borðaði líka strútakjöt,sem ég hef fengið áður og finnst afskaplega gott. Suður-Afríka er þekkt fyrir góð vín og vorum við í hópnum ófeimin við að smakka þau.“

-Einhver ráð til þeirra sem vilja fara á þessar slóðir?

„Það er alltaf gott að kynna sér landið sem ferðast á til og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að láta bólusetja sig í tíma sé þess þörf. Líkt og í flestum löndum þar sem misskipting er mikil er alltaf hætta á að hlutum sé stolið séu þeir skildir eftir á glámbekk. Ég veit ekki til að nokkur í okkar hópi hafi lent í nokkrum vandræðum enda flestir ferðavanir.“

Vilmundur smakkaði ýmsan framandi mat i ferðinni eins og antílópur …
Vilmundur smakkaði ýmsan framandi mat i ferðinni eins og antílópur og gnýga. Öllu var svo skolað niður með vínum frá Suður-Afríku. Ljósmynd/Aðsend
Það er mjög fjölbreyttur gróður í Suður-Afríku og segir Vilmundur …
Það er mjög fjölbreyttur gróður í Suður-Afríku og segir Vilmundur fara vel saman að huga að gróðri, villtum dýrum og vínrækt í einni og sömu ferðinni. Ljósmynd/Aðsend




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert