Bandarískir flugvellir misgóðir

Grísinn LiLou leikur við gesti á alþjóðaflugvellinum í San Francisco. …
Grísinn LiLou leikur við gesti á alþjóðaflugvellinum í San Francisco. Þar þykja veitingastaðirnir bera af. JUSTIN SULLIVAN

Ekki skyldi vanmeta hversu miklu góður flugvöllur getur breytt fyrir upplifun ferðalanga, og hvers lags pína það getur verið að arka í gegnum erfiðan flugvöll. Á sumum flugvöllum virðist hægt að finna allt til alls, innritun og öryggisleit gengur greiðlega fyrir sig og hreinlega ánægjuleg upplifun að fara þar í gegn. Aðrir flugvellir kremja sálina: raðirnar eru langar, úrval af veitingum og þjónustu ekki upp á marga fiska, og vandi út af fyrir sig að komast frá flugvellinum niður í bæ, og til baka.

Heimshornaflakkarar sem vita hvað þeir vilja reyna, eftir fremsta megni, að sneiða hjá verri flugvöllunum ef þeir eiga þess kost, og vita að ef fleiri en einn flugvöllur er í boði í sömu borginni þá getur vel verið þess virði að borga ögn hærra verð fyrir flugmiðann ef vélin lendir á góðum flugvelli frekar en slökum. Þykir þannig mörgum langtum betra að lenda á Gatwick en Heathrow, og verst af öllu að fljúga til Stansted þegar ferðast er til Lundúna; taka Suvarnabhumi fram yfir Don Muang í Bangkok; velja Orly frekar en Charles de Gaulle ef þess er kostur í ferð til Parísar; Narita frekar en Haneda í Tókýó og þannig má lengi telja.

Phoenix á toppnum

úttekt Wall Street Journal veitir ágætis vísbendingu um hvaða bandarísku flugvelli lesendur ættu ýmist að kvíða fyrir eða hlakka til að heimsækja. Kemur þar í ljós að stundum er heilmikill munur á flugvöllum sem þjónusta sama svæðið, og þannig lendir völlurinn í Fort Lauderdale í 3. sæti yfir 20 stærstu flugvelli Bandaríkjanna á meðan Miami-flugvölur hafnar í 17. sæti. Er aðeins um 35 mínútna akstur á milli flugvallanna og aðgengi að Miami nokkuð svipað. Aftur á móti er sáralítill munur á gæðum JFK-flugvallar og Newark, sem báðir þjónusta New York-svæðið, og lenda þeir í 19. og 20. sæti.

Phoenix Sky Harbor hafnar í efsta sæti í hópi stórra bandarískra flugvalla og skrifast það m.a. á eldsnögga öryggisleit, öfluga þráðlausa nettengingu og góða einkunn veitingastaðanna þar í umsagnaforritinu Yelp. Það hjálpar flugvellinum í Phoenix líka að stutt er frá landgangi að flugbraut og ódýrt að fá far með Uber niður í miðbæ.

Í umfjöllun WSJ kemur fram að í Phoenix sé margt gert fyrir farþega sem ekki hafi verið tekið með í reikninginn við val á besta flugvellinum. Þannig eru sjálfboðaliðar á ferli um flugvöllinn með mannelska hunda sem ferðalöngum er frjálst að klappa og knúsa ef það skyldi róa taugarnar fyrir flugið. Sky Harbor er þó fjarri því gallalaus flugvöllur og geldur m.a. fyrir tiltölulega fáar beinar flugtengingar, bæði innanlands og við útlönd, auk þess að vera þannig hannaður að mjög langur gangur getur verið frá inngangi flugvallarbyggingarinnar að fjarlægasta flugvélarhliði.

Í efstu sætunum á eftir Phoenix koma: Denver, Fort Lauderdale, Detroit Metro, Orlando, Las Vegas, Atlanta, Dallas/Fort Worth, Los Angeles og Houston Bush.

San Francisco með besta matinnn

Í hópi meðalstórra flugvalla fær Tampa bestu einkunnina, þá Portland, Austin, Nashville og Sacramento, en í fimm neðstu sætunum eru St. Louis, New Orleans, Washington Dulles, Chicago Midway og LaGuardia í New York í botnsætinu.

Könnun WSJ leiddi meðal annars í ljós að biðin í öryggisleit á háannatíma er styst í Chicago O‘Hare og Nashville, en lengst í Atlanta og Dallas Love Field. Ef marka má ummæli á Yelp er maturinn bestur á flugvellinum í San Francisco en verstur hjá Chicago Midway. ai@mbl.is

Farþegar bíða eftir skutli fyrir utan Los Angeles-flugvöll. Miklu skiptir …
Farþegar bíða eftir skutli fyrir utan Los Angeles-flugvöll. Miklu skiptir við val á flugvelli að það sé sem ódýrast og auðveldast að komast þaðan á endanlegan áfangastað, hvort heldur með bíl eða með almenningssamgöngum. MARIO TAMA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert