Hildur Lilliendahl bíður ástandið af sér á Kanarí

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir er á Kanarí með foreldrum sínum.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir er á Kanarí með foreldrum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir er ein þeirra fjöl­mörgu ferðamanna sem er föst í út­göngu­banni á Kana­ríeyj­um. Hild­ur ætlaði upp­haf­lega að fara í tveggja vikna heim­sókn og upp­lestr­ar­frí til for­eldra sinna sem eru með vet­ur­setu í sól­inni í Las Palmas en heimflugið hennar var fellt niður.

„Ég var kom­in hálfa leið hingað þegar það var tek­in ákvörðun á Spáni um út­göngu­bann. Sama dag var tek­in sú ákvörðun á Íslandi að fólk sem væri að koma heim frá Spáni færi í tveggja vikna sótt­kví,“ seg­ir Hild­ur en hún flaug út þann 14. mars og hef­ur því verið á Kanarí í um sex vikur.

Hild­ur ætl­ar að bíða ástandið af sér á Kanarí og er ekki að reyna að koma sér heim með króka­leiðum. 

„Ég get það ekki. Pabbi er að verða 78 ára gam­all og mik­ill hjarta­sjúk­ling­ur. Eina leiðin heim núna er í gegn­um Svíþjóð og þar þarf að bíða í tvo daga,“ seg­ir Hild­ur og tel­ur sig og for­eldra sína ör­ugg­ari inni í íbúðinni á Kanarí en á flug­velli í Svíþjóð. 

Heima á Íslandi bíður fjöl­skylda Hild­ar en hún er gift og á tvo syni. Hún hef­ur ekki mikl­ar áhyggj­ur þrátt fyr­ir að ferð henn­ar hafi lengst tölu­vert. Eldri son­ur henn­ar er að verða tví­tug­ur og flutt­ur að heim­an og sá yngri er tæplega 12 ára og hef­ur það bara ágætt með föður sín­um. Hild­ur er búin að vera gift í 10 ár og seg­ir það jafn­vel gott fyr­ir þau hjón­in að fá smá hvíld frá hvort öðru. 

Það fer ekki illa um Hildi en hún er í íbúð með stór­um svöl­um og fer út að skokka á svöl­un­um. Hún seg­ir ekki mikið öðru­vísi að vera föst á Kanarí en á Íslandi fyr­ir utan veðrið. Hild­ur sinn­ir nám­inu í fjar­kennslu og seg­ir fé­lags­líf sitt mjög gott á in­ter­net­inu. 

Hildur hleypur úti á svölum en hér má sjá hlaupaleið …
Hildur hleypur úti á svölum en hér má sjá hlaupaleið hennar. Ljósmynd/Aðsend

Hild­ur pass­ar að huga vel að and­legri heilsu og seg­ir mik­il­vægt að halda í já­kvæðnina. 

„Ég held það fyrsta sem ég hafi lært sé að vera þakk­lát fyr­ir góð kvíðalyf. Það skipt­ir ótrú­lega miklu máli að huga að and­legri heilsu. Ég stunda bæði hug­leiðslu og nú­vit­und af miklu kappi. Það hef­ur gert mér mjög gott. Ég hef lært að það skipt­ir máli að eiga gott fólk að. Mér finnst að mörgu leyti að sum sam­bönd, vina­sam­bönd og sam­bandið við mann­inn minn hafi styrkst af þessu. Fólk er vak­andi fyr­ir líðan annarra sem er ofsa­lega gott að finna. Mér finnst mik­il­vægt að minna mig á það góða sem get­ur hugsanlega komið út úr öllum þessum sársauka. Svo finnst mér hollt að rifja upp að við erum raun­veru­lega að verða vitni af merki­leg­um tím­um í mankyns­sög­unni. Við erum að horfa á sög­una ger­ast. Það er mögnuð upp­lif­un þrátt fyrir allt.“

mbl.is