Fannst hún örugg fyrir veirunni á Íslandi

Vesa Tullumi er ættuð frá Kósóvó en hefur búið í …
Vesa Tullumi er ættuð frá Kósóvó en hefur búið í Tékklandi síðastliðin 3 ár. Ljósmynd/Aðsend

Vesa Tullumi ferðaðist frá Tékklandi til Íslands í sumar. Hana hafði lengi langað til að heimsækja landið og kom hingað um miðjan júní. Í viðtali við mbl.is segir Tullumi að sér hafi fundist hún mjög örugg á Íslandi og ekki fundið mikið fyrir heimsfaraldrinum. Sér hafi fundist hún mjög heppin að geta ferðast hingað til Íslands á meðan heimsfaraldur geisar. Kostirnir voru að allt var töluvert ódýrara en hún hafði gert ráð fyrir og engir aðrir ferðamenn voru að þvælast fyrir þeim og fyrir vikið urðu myndirnar þeirra af landinu enn betri.

Af hverju ákvaðst þú að koma hingað til Íslands?

„Ég veiktist af ferðabakteríunni þegar ég var í háskóla. Ég gat samt ekki ferðast mjög mikið þegar ég var í háskólanum. Mig hafði lengi langað til að koma til Íslands og var það fjarlægur draumur þangað til nýlega. Það sem ég lærði um landið í landafræði í skóla var svo ótrúlegt að ég varð að koma til landsins og upplifa það sjálf.“

Tullumi og félagar leigðu húsbíl og keyrðu hringinn í kringum …
Tullumi og félagar leigðu húsbíl og keyrðu hringinn í kringum Ísland. Ljósmynd/Aðsend
Tullumi segir það hefði verið synd að þurfa að vera …
Tullumi segir það hefði verið synd að þurfa að vera með grímur í ferska loftinu á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var ferðin til Íslands?

„Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá var ég smá stressuð fyrir öllu ferðalaginu af því þetta var mitt fyrsta ferðalag eftir útgöngubann og ég hafði ekki hugmynd um hvernig þetta yrði allt saman. Sem betur fer kom ég til landsins á fyrstu tveimur vikunum, þegar skimunin á flugvellinum var enn ókeypis. Ég passaði mig á að lesa mér vel til fyrir ferðalagið. Ég fyllti inn allar upplýsingar á netinu fyrir fram og það sparaði mér mikinn tíma. Síðan fékk ég niðurstöðurnar aðeins fjórum tímum eftir skimunina, en það getur tekið allt að 12 tíma.“

Hvaða staði heimsóttuð þið?

„Við leigðum húsbíl og keyrðum hringinn um landið. Fyrstu nóttina gistum við á tjaldsvæði nálægt Reykjavík. Daginn eftir keyrðum við til Akureyrar og Mývatnssveitar. Það hljómar kannski frekar sjálfhverft en út af heimsfaraldrinum fannst okkur við frekar heppin með allt. Það var allt miklu ódýrara en við gerðum ráð fyrir, allt frá húsbílnum, hótelunum og hostelunum til ferðanna. Það var líka aukabónus að það voru miklu færri ferðamenn á ferli, sem gerði myndirnar okkar enn betri.

Við keyrðum alla leið til Hafnar í Hornafirði og á Vík í Mýrdal og dvöldum síðustu nóttina í Reykjavík. Við stoppuðum svo milljón sinnum á leiðinni til að taka myndir og ég myndi segja að orðin „ótrúlega fallegt“ pössuðu mjög vel við Ísland.“

Tullumi segist hafa lært mikið um Ísland í landafræði og …
Tullumi segist hafa lært mikið um Ísland í landafræði og alltaf langað til að koma til Íslands. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér á Íslandi? Fannst þér þú örugg?

„Já klárlega. Ísland hefur haft góða stjórn á ástandinu. Það var spritt úti um allt og merkingar til að minna fólk á reglurnar og það virtu það allir. Það er líka mjög gott að það eru ekki það margir aðrir ferðamenn, svo maður kemur aldrei nálægt neinum öðrum.“

Hvernig hagaðir þú þér á ferðalaginu með tilliti til sóttvarna, bæði á ferðalaginu til landsins og um landið?

„Ég var með grímu í fluginu af því það var gerð krafa um það. Ég gerði svo ráð fyrir að ég þyrfti að vera með grímuna í lokuðum rýmum á Íslandi, en það var enginn annar með grímu svo ég ákvað að ég þyrfti þess ekki heldur. Annað hefði í raun verið synd, því maður nær ekki að anda ferska loftinu að sér með grímu. Síðan var ég með mitt eigið handspritt sem ég notaði.“

Í Jarðböðunum við Mývatn.
Í Jarðböðunum við Mývatn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert