Menningarlífið hefur gert Akureyri líflegri og skemmtilegri

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarmaður.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarmaður.

Í hinu reisulega Alþýðuhúsi á Siglufirði býr og starfar myndlistarkonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir. Landsmenn þekkja flestir spýtuverkin hennar sem fagna okkar ástkæru íslensku sauðkind og allri skemmtilegu bændamenningunni sem henni tilheyrir. 

Aðalheiður er mikil menningarsprauta fyrir norðan og hefur verið árum saman, enda hefur hún búið í þessum fagra landshluta frá fæðingu.

„Ég er fædd og uppalin á Siglufirði. Flutti svo alla leið til Akureyrar þegar ég hóf nám en kom svo til baka á æskuslóðirnar fyrir átta árum,“ segir Aðalheiður.

„Svo dvel ég reyndar alltaf í sirka tvo til þrjá mánuði erlendis á hverju ári, kannski fjórar til sex vikur í senn, en þá dvel ég á vinnustofum fyrir listamenn og sinni mínu starfi. Ég hef látið þessar ferðir duga enda hentar það mér ágætlega að búa bara heima hjá mér.“

Alþýðuhúsið á Siglufirði.
Alþýðuhúsið á Siglufirði.

Listakonan segir að sér hafi líka líkað afskaplega vel að búa í höfuðstað Norðurlands á sínum tíma en þar stundaði hún nám í myndlistarskólanum.

„Á þeim tíma var mikill uppgangur í listalífinu á Akureyri og ég tók þátt í því að byggja upp Listagilið ásamt mörgum öðrum,“ rifjar hún upp. „Þetta var svona upp úr 1990 og það má segja að menningarlífið fyrir norðan hafi síðan tekið stóran vaxtarkipp á tíu árum og frá því upp úr síðustu aldamótum hefur það verið virkilega blómlegt. Það hefur verið stofnuð sinfóníuhljómsveit, byggt veglegt menningarhús og listasöfnin eru víða og allt hefur þetta gert bæinn mikið líflegri og skemmtilegri.“

Öðlingsmaðurinn Bjarni hreif alla með sér

Þegar menningar- og listalíf hefur skotið rótum á einum stað og tekið að blómstra er eðlilegt að frjókornin fjúki til nærliggjandi byggða enda fátt sem gerir bæjarfélög skemmtilegri en gróskumikið menningarlíf. Á síðustu árum hefur Siglufjörður tekið rækilega við sér á þessu sviði og nú er svo komið að þessi fallegi bær hefur öðlast mikið aðdráttarafl fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Aðalheiður segir að þar spili margir þættir saman og að mestu megi þakka þetta bæði sögu bæjarins og samstöðu bæjarbúa.

„Siglufjörður hefur alltaf verið ríkur að menningarsögu sem rekur sig alveg aftur til síldaráranna en á síðustu árum hefur alltaf bæst meira og meira við flóruna og fjölbreytnin er orðin mikil. Tónlistarlífið var kannski það sem einkenndi bæinn mest á árum áður og það er enn í fullu fjöri. Kannski má tengja þær rætur við öðlingsmanninn séra Bjarna sem var hér sóknarprestur lengi. Hann var mikið skáld og söngmaður og hafði þann eiginleika að hrífa fólk með sér,“ segir Aðalheiður sem sjálf hefur ekki legið á liði sínu þegar kemur að menningarlífinu í bænum og að deila gleðinni.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir ásamt listaverkum sínum.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir ásamt listaverkum sínum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Menningarhús, vinnustofa, listasmiðja og heimili allt í senn

Árið 2011 festi hún kaup á Alþýðuhúsinu og gerði það upp ásamt vinum og fjölskyldu áður en hún flutti svo aftur á æskuslóðirnar. Alþýðuhúsið er allt í senn menningarhús, heimili listamannsins og vegleg vinnustofa sem er ekki algengt hér á landi þó slíkt þekkist hjá listafólki erlendis.

„Við höfum staðið fyrir allskonar menningarviðburðum hér í húsinu, allt frá mánaðarlegum sýningum í Kompunni yfir í stórar listasmiðjur og vinnustofur sem standa í allt að tvær vikur. Hér hefur fólk getað mætt á fjölbreytta tónleika, séð gjörninga, hlustað á ljóðalestur, tekið þátt í og upplifað dans, sirkus, listasmiðjur fyrir börn og ótal margt fleira. Ef fólk vill líta inn þegar það heimsækir bæinn, og engin skipulögð dagskrá er í gangi, þá er Kompan opin alla daga frá kl. tvö til fimm og fyrir utan stendur skilti sem á stendur opið. Stóri viðburðurinn í næsta mánuði er menningarhelgi sem ég kalla Frjó en hún verður núna fyrstu helgina í júlí. Þar verða tvennir tónleikar á föstudags- og laugardagskvöld sem samanstanda af sex atriðum, allt á tilraunakenndum spunanótum. Svo er líka sýningaropnun og listamannaspjall sömu helgi. Ég veit ekki hvað ég á von á mörgum gestum en það eina sem maður getur gert er auðvitað bara að bjóða upp á eitthvað skemmtilegt og sjá svo bara hverjir koma. Stundum komast miklu færri að en vilja og sérstaklega núna þegar þarf að takmarka fjöldann.“

Greiðvikni og góð samskipti einkenna stemmninguna í bænum

Aðalheiður segir kostina við það að búa á Siglufirði endalaust marga. Einn þeirra sé smæð samfélagsins.

„Hér eru svo mikil rólegheit og því er mjög notalegt að búa hérna. Samskiptin við bæjarbúa eru svo þægileg og þannig verður allt lífið svo einfalt. Ef mann til dæmis vantar eitthvað, og það er á annað borð til í bænum, þá er einfalt að nálgast það. Svo þekkist fólk og er greiðvikið í sínu samfélagi sem getur komið sér vel þegar fólk er að standa í framkvæmdum eða standa fyrir einhverju. Þá gengur allt svo hratt og þægilega fyrir sig,“ segir hún.

Eins og margir vita gegnir Síldarminjasafnið á Siglufirði stóru hlutverki fyrir bæinn enda margrómað og hefur hlotið viðurkenningar bæði innan og utan landsteinanna. Nýja hótelið á Siglufirði er jafnframt alveg til fyrirmyndar, jafnt að innan sem utan. Alveg fyrsta flokks.

„Fólk kemur alls staðar að af landinu til að njóta hér bæði matar og menningar. Það er orðið mjög algengt að fólk skelli sér hingað í bíltúr frá Akureyri og nærliggjandi bæjum, og það færist sífellt í aukana að vinnustaðir komi hingað með starfsmenn í hópeflisferðir og á fundi. Þegar svona margir eru að gera skapandi og skemmtilega hluti þá magnast bæjarandinn upp og verður jákvæður og hvetjandi sem aftur laðar að fleiri og fleiri skapandi og skemmtilega einstaklinga. Allt vinnur saman að vaxtaráhrifum. Þjóðlagasetrið, galleríin, gestavinnustofan í Herhúsinu, Ljósmyndasögusafnið, Ljóðasetrið, Síldarminjasafnið, að ónefndum öllum frábæru veitingastöðunum. Þar má nefna hið einstaka veitingahús Siglunes sem býður upp á ómótstæðilegan marokkóskan mat, Súkkulaðihúsið Fríðu þar sem boðið er upp á heimagert konfekt og ljúffengt súkkulaði, veitingastaðina Torgið og Harbour House og svo auðvitað hótelin og veitingahúsin á bryggjunni. Súrdeigspizzurnar og tónleikarnir á Kaffi Rauðku hafa slegið rækilega í gegn og þá er ónefnt bakaríið okkar sem er orðið að samkomustað bæjarbúanna sjálfra. Þegar allt er upptalið sést að hér er gríðarleg gerjun og eitthvað fyrir alla.“

„Ætli sauðkindin hafi ekki alltaf heillað“

Þar sem hin norðlenska Aðalheiður hefur aldrei flutt suður er eðlilegt að álykta að listin hennar hljóti að vera norðlensk í húð og hár. Hún gengst alveg við því.

„Allt umhverfið, það fólk sem maður umgengst og auðvitað allt sem ég hef alist upp við hefur haft bein áhrif á innblástur minn og sköpun. Þetta þjóðlega sem fólk hefur séð í verkum mínum kemur að sjálfsögðu héðan að norðan, úr æsku minni, uppvexti og því lífi sem ég lifi í dag. Ég var til dæmis alin að hluta til upp á litlu búi hjá afasystur minni við heyskap og sauðfjárrækt þar til allt var skorið þar niður vegna riðu. Ætli sauðkindin hafi því ekki alltaf heillað. Í fimm ár vann ég markvisst með þessa ágætu skepnu og okkar rótgrónu íslensku bændamenningu og þau verk mín hafa verið mest áberandi síðasta áratuginn,“ segir Aðalheiður sem á húsið Freyjulund í Hörgárdal og þar dvaldi hún í þann tíma sem hún vann að þessum verkum. Hún segir að í Hörgárdalnum hafi hún átt mikil samskipti við bændurna sem þar búa og upplifað þessa skemmtilegu og einstöku menningu sem einkennir bændalífið. „Það sem ég upplifi á hverjum tíma skín alltaf í gegn um verkin mín.“

Sjósund og sýningar á Hjalteyri, hoppubelgir á Sigló og stórgóður golfvöllur

Spurð að því hvað sé algerlega ómissandi fyrir ferðalanga að upplifa á Norðurlandi nefnir hún umhugsunarlaust Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Þar er að finna allskonar skemmtilega list sem höfðar til allra aldurshópa. Sem dæmi má nefna stórbrotið safn af þjóðbúningadúkkum, ilmvatnsflöskum og allskonar list sem virkar bæði glaðleg og aðgengileg. Húsið er jafnframt mjög fallegt sem og garðurinn í kring. Hún nefnir einnig Verksmiðjuna á Hjalteyri sem er stórmerkilegt og óvanalegt sýningarrými í gríðarstórri verksmiðju en þar er maður að nafni Gústaf Geir Bollason potturinn og pannan í starfinu. Á Hjalteyri er heitur pottur sem hægt er að skella sér í og margir bregða sér þar í smá sjósund. Aðalheiður bendir líka á frábærar aðstæður fyrir fjölskyldufólk, bæði á Sigló og í Ólafsfirði en þar eru prýðilegar sundlaugar og góð tjaldstæði.

„Á Sigló erum við líka með nýuppgerð leiksvæði fyrir krakka og flotta hoppubelgi sem eru mjög vinsælir. Krakkarnir bíða í röð eftir því að þetta sé blásið upp á morgnana og svo er hoppað allan liðlangan daginn,“ segir hún og hlær. Og enn er ekki allt upptalið því innan við Siglufjörð er líka nýuppgerður golfvöllur og gott skíðasvæði.

Innar í firðinum er annað tjaldsvæði sem er mikið hljóðlátara og rólegra en það sem er í bænum, svona ef fólk kýs meiri kyrrð og ró.

Að lokum spyr ég Aðalheiði hvaða lýsingarorð komi fyrst upp í hugann þegar hann er látinn reika um Norðurland, þá nefnir hún fyrst rólegheitin í samfélaginu og gott aðgengi að þjónustu og mannauði.

„Fyrir mér er þetta eins og móðurfaðmur sem heldur fallega utan um fólk og mér líkar það vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »